Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1038  —  17. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak,
lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald
af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis).


Frá 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) til smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls. Í greinargerð frumvarpsins eru taldir upp kostir þess að selja áfengi með annarri neysluvöru og m.a. vísað til þess að með samþykkt frumvarpsins geti neytendur sparað einhverjar fjárhæðir á því að sækja áfengi á sama stað og matvöru. Einnig er vísað til þess að áfengi sé almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri og að fyrirkomulag smásölu á áfengi eigi ýmislegt sameiginlegt með fyrirkomulagi á sölu matvöru. 2. minni hluti áréttar að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Áfengi hefur mikla sérstöðu og fráleitt að um það þurfi að gilda sömu viðmið og ýmsar aðrar vörur. Ábatinn af sölu og framleiðslu áfengis er samfélaginu afar dýrkeyptur. Það er einkum þrennt sem leiðir til þess að áfengi veldur svona miklu líkamlegu, andlegu og félagslegu tjóni, í fyrsta lagi eitrun í líkamanum, í öðru lagi vímu og í þriðja lagi ánetjun eða fíkn. Þess vegna er áfengi engin venjuleg neysluvara. Reynslan sýnir að takmarkanir á aðgengi að áfengi geta dregið úr drykkju og vandamálum tengdum áfengi. 2. minni hluti bendir á skýrslu Evrópusambandsins um umfang áfengisvandans í Evrópu sem gefin var út árið 2006. Þar var bent á að íbúar Evrópu drekka meira en íbúar annarra heimsálfa og að afleiðingar þess væru gífurlegar en m.a. var vísað til þess að neysla áfengis væri þriðja algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla íbúa í aðildarríkjum Evrópusambandsins, næst á eftir tóbaki og háþrýstingi. 2. minni hluti bendir einnig á að hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi með öðrum neysluvörum. Íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, sbr. m.a. 33. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem nú er hluti af lögum.
    Annar minni hluti bendir á að aðgerðir sem auka aðgengi að áfengi geta haft áhrif á heilsu landsmanna til skemmri eða lengri tíma með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir samfélagið. Ljóst er að ef frumvarpið verður að lögum mun útsölustöðum fjölga úr 49 í allt að 200. Það mun leiða til stóraukins aðgengis að áfengi sem aftur leiðir til aukinnar áfengisneyslu. 2. minni hluti bendir á að í flestum löndum eru takmarkanir á því hver má kaupa og hver má selja áfengi. Slíkar takmarkanir byggjast á samfélagssýn sem lýtur að heilsu, öryggi og almennri reglu. Reynslan sýnir enn fremur að takmarkanir á aðgengi að áfengi geta dregið úr drykkju og vandamálum tengdum áfengi en með aðgengi er átt við hversu auðvelt er að verða sér úti um áfengi og neyta þess. 2. minni hluti bendir á að kannanir á höftum og aðgengi að áfengi hafa t.d. sýnt að stytting afgreiðslutíma og fækkun sölu- og útsölustaða haldist í hendur við minni neyslu og tjón af völdum hennar. 2. minni hluti bendir í þessu sambandi á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kynnti í maí sl. skýrslu um áhrif áfengisneyslu á heilsufar 194 þjóða heimsins og þar kemur m.a. fram að í heild má rekja rúmlega 5% allra sjúkdóma og slysa í heiminum til áfengis. 2. minni hluti áréttar að frumvarpið sé þess eðlis að verði það samþykkt muni það auka áfengisneyslu þar sem í ákvæðum þess er áfengi meðhöndlað eins og það sé venjuleg neysluvara sem er ekki reyndin. Betur færi á því að þetta væri í sérverslunum þar sem frjáls sala áfengis í matvöruverslunum væri ekki framfaraspor fyrir þjóðina.
    Annar minni hluti bendir einnig á stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020, sem gefin var út í desember 2013. Þar kemur m.a. fram að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi að áfengi. 2. minni hluti áréttar að frumvarpið gengur þvert gegn meginmarkmiðum stefnunnar sem er í meira lagi umhugsunarvert. Sökum þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara á almenningur rétt á að stefna í áfengismálum sé vel ígrunduð, unnin af vandvirkni og farið varlega í breytingar á aðgengi að áfengi. 2. minni hluti bendir á að kostnaðurinn við að hefta aðgang að áfengi er lítill miðað við þann kostnað sem hlotist getur af neyslu áfengis.
    Annar minni hluti tekur að meginstefnu undir umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar en þar kemur m.a. fram að ljóst sé að áfengi teljist seint til mikilvægustu neysluvara og ljóst sé að fleiri útsölustaðir séu líklegri til að auka neyslu. Umgjörð áfengissölu og áfengisvarnamála skipti máli, óháð því hvort salan sé frjáls eða ekki.
    Annar minni hluti telur að það sé ekki hlutverk ríkisins að reka verslanir. Hann er sammála meginstefi frumvarpsins að ríkisverslun á áfengi verði aflögð. Hins vegar getur 2. minni hluti ekki lýst yfir stuðningi við þau áform að áfengi verði selt í matvöruverslunum heldur telur mikilvægt að áfengi verði áfram í sérverslunum líkt og verið hefur. Jafnframt áréttar 2. minni hluti mikilvægi þess að umgjörð áfengissölu, aðgerðir í lýðheilsumálum og mörkun áfengisstefnu miði að því að takmarka neyslu áfengis.

Alþingi, 27. febrúar 2015.

Páll Valur Björnsson.