Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1062  —  546. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um brottvísanir erlendra ríkisborgara.


     1.      Hve margir erlendir ríkisborgarar, sem hafa dvalið hér á landi á grundvelli almennrar heimildar skv. 1. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, höfðu á árunum 2012– 2014 dvalið lengur en heimilt er samkvæmt ákvæðinu, þ.e. svo lengi sem vegabréfsáritun sagði til um eða í þrjá mánuði?
    Útlendingastofnun heldur utan um útgáfu vegabréfsáritana. Ef einstaklingur með vegabréfsáritun dvelur of lengi hér á landi er ekki viðhaft sérstakt eftirlit með því nema viðkomandi einstaklingur gefi sig á einhvern hátt fram eða komist í kast við lögin. Einnig getur viðkomandi verið staddur á Schengen-svæðinu og dvalið þar án vitundar yfirvalda á Íslandi.

     2.      Í hve mörgum af þessum tilvikum hóf Útlendingastofnun undirbúning máls um brottvísun einstaklinga, annars vegar skv. a-lið 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga og hins vegar skv. b-lið sama ákvæðis, sbr. 22. gr. laganna?
    Sjá svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Í hve mörgum tilvikum óskaði Útlendingastofnun eftir því að lögregla grennslaðist fyrir um viðkomandi einstaklinga og afhenti þeim tilkynningu um upphaf máls sem leitt gæti til brottvísunar?
    Til að hefja feril brottvísunarmála sendir Útlendingastofnun út tilkynningu um hugsanlega brottvísun. Lögreglan sér almennt um að birta þær tilkynningar til að tryggja að viðkomandi fái sannanlega afrit af bréfinu og er bréfið túlkað fyrir viðkomandi ef þörf krefur. Alls voru tekin til meðferðar hjá stofnuninni 10 mál á grundvelli þessara ákvæða (áður a-liður 20. gr. laga um útlendinga) á árunum 2012–2014. Málin vörðuðu þrjá ríkisborgara frá Víetnam, tvo frá Senegal, einn frá Filippseyjum, einn frá Ísrael, einn frá Marokkó, einn frá Taílandi og einn frá Nígeríu. Útlendingastofnun skráir ekki kynþætti einstaklinga, einungis ríkisfang. Árið 2012 var umræddu ákvæði beitt í fjórum málum þar sem synjað var um umsókn um hæli. Þar var um að ræða fjóra einstaklinga frá Albaníu.

     4.      Í hve mörgum tilvikum voru viðkomandi einstaklingar handteknir og vistaðir í fangageymslu eða sviptir ferðafrelsi á annan sambærilegan hátt, eingöngu í þeim tilgangi að birta þeim tilkynningar um upphaf slíks máls án þess að ákvörðun hafi verið tekin um brottvísun þeirra?
    Óskað er eftir að í svarinu komi fram ríkisfang og kynþáttur viðkomandi einstaklinga.

    Í engu tilviki. Tilkynningar um væntanlega brott- eða frávísun eru sendar til viðkomandi lögregluembættis þar sem útlendingurinn býr og eru það þá lögreglumenn í því embætti sem birta þær. Ef viðkomandi er í refsivist birta fangaverðir tilkynninguna fyrir viðkomandi. Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra hefur í nokkrum tilvikum fengið slíkar tilkynningar til birtingar og hefur aldrei við þá framkvæmd beitt viðkomandi útlending valdbeitingu. Ríkislögreglustjóri birtir ákvarðanir Útlendingastofnunar um frávísun eða brottvísun frá Íslandi þegar þær liggja fyrir.