Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1082  —  626. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna
um aðild Íslands að Evrópusambandinu.


Flm.: Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 26. september 2015 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
    Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
    ❏    Já.
    ❏    Nei.“

Greinargerð.

    Með þingsályktun nr. 1/137, sem samþykkt var 16. júlí 2009, ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Þingsályktun þessi er enn í fullu gildi enda hefur hún ekki verið felld úr gildi með annarri ályktun Alþingis.
    Þegar núverandi ríkisstjórn lagði fram tillögu til þingsályktunar um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka í febrúar 2014 vakti það hörð viðbrögð almennings. Alls skrifuðu 53.555 undir áskorun um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar. Ríkisstjórnin hefur ekki enn brugðist við þessari kröfu meira en fimmtungs kosningarbærra manna.
    Núverandi stjórnarandstöðuflokkar hafa ólíka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Hins vegar er sameiginleg niðurstaða flutningsmanna sem koma úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar að þetta mál sé af slíkri stærðargráðu að eðlilegt sé að leita leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess. Af þeim sökum er lögð þung áhersla á að tillagan verði afgreidd á þessu þingi þannig að unnt verði að sækja þá leiðsögn.