Ferill 628. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1084  —  628. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir XII. kafla laganna kemur nýr kafli, XII. kafli A, Aðgangur erlendra ríkisloftfara að íslensku yfirráðasvæði, með tveimur nýjum greinum, 134. gr. a og 134. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (134. gr. a.)

Gildissvið.


    Ákvæði þessa kafla gilda um erlend ríkisloftför. Sá ráðherra sem fer með utanríkismál fer með framkvæmd þessa kafla.

    b. (134. gr. b.)

Aðgangur erlendra ríkisloftfara.


    Erlent ríkisloftfar má því aðeins koma inn á íslenskt yfirráðasvæði að til þess liggi formleg heimild.
    Ráðherra ákveður á hvaða stöðum erlent ríkisloftfar getur átt viðkomu og hvernig ferðum þess skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis.
    Ráðherra getur hvenær sem er afturkallað leyfi til komu erlends ríkisloftfars eða ferðar um íslenskt yfirráðasvæði sem og ákveðið að erlent ríkisloftfar skuli yfirgefa íslenskt yfirráðasvæði fyrirvaralaust.
    Ráðherra setur nánari reglur um komur og ferðir erlendra ríkisloftfara, svo sem varðandi umsóknarfresti, leyfilegan búnað, hvaða starfsemi þau megi stunda og tilkynningarskyldu þeirra, svo og komur og dvöl áhafna og farþega ríkisloftfara.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, með síðari breytingum.
2. gr.

    Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli A, Aðgangur erlendra ríkisskipa að íslensku yfirráðasvæði, með tveimur nýjum greinum, 16. gr. a og 16. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (16. gr. a.)

Gildissvið.


    Ákvæði þessa kafla gilda um erlend ríkisskip. Sá ráðherra sem fer með utanríkismál fer með framkvæmd þessa kafla.

    b. (16. gr. b.)

Aðgangur erlendra ríkisskipa.


    Erlent ríkisskip má því aðeins koma inn á íslenskt yfirráðasvæði að til þess liggi formleg heimild. Þetta á þó ekki við er um friðsamlega ferð um landhelgina í skilningi hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 er að ræða.
    Ráðherra ákveður á hvaða stöðum erlent ríkisskip getur átt viðkomu og hvernig ferðum þess skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis.
    Ráðherra getur hvenær sem er afturkallað leyfi til komu erlends ríkisskips eða ferðar um íslenskt yfirráðasvæði sem og ákveðið að erlent ríkisskip skuli yfirgefa íslenskt yfirráðasvæði fyrirvaralaust.
    Ráðherra setur nánari reglur um komur og ferðir erlendra ríkisskipa, svo sem varðandi umsóknarfresti, leyfilegan búnað, hvaða starfsemi þau megi stunda og tilkynningarskyldu þeirra, svo og komur og dvöl áhafna og farþega ríkisskipa.

III. KAFLI

Breyting á lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða,
nr. 93/2008, með síðari breytingum.

3. gr.

    3. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þvingunaraðgerðir alþjóðastofnana o.fl.

    Ríkisstjórninni er heimilt, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, sbr. lög um þingsköp Alþingis, að taka þátt í og gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að framkvæma ákvarðanir alþjóðastofnana, ríkjahópa eða samstarfsríkja um þvingunaraðgerðir sem miða að því að viðhalda friði og öryggi og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Nú er gefinn út listi yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða og er þá heimilt að birta erlendan frumtexta listans í B-deild Stjórnartíðinda, að vísa til hans á vefsetri öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða að birta hann á vefsetri utanríkisráðuneytisins og telst það lögmæt birting.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að banna viðskipti með hrádemanta frá átakasvæðum og tól sem nota má til pyntinga eða við framkvæmd dauðarefsingar.
                  

IV. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft
hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem framleiðir hluti sem falla undir 4. gr. eða veitir þjónustu sem fellur undir grein þessa má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%, nema með leyfi ráðherra. Ákvæði þetta skerðir ekki réttindi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

6. gr.

    B-liður 14. gr. laganna orðast svo: að birta erlendan frumtexta lista yfir hluti eða þjónustu skv. 4. og 5. gr. í B-deild Stjórnartíðinda, að vísa til hans á vefsetri öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða að birta hann á vefsetri utanríkisráðuneytisins og telst það lögmæt birting.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eftirfarandi lög og tilskipun:
     a.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að banna að veita upplýsingar um ferðir skipa, nr. 9/1940.
     b.      Tilskipun um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasviði, nr. 44/1939.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði 5. gr. taka til fjárfestinga sem eiga sér stað eftir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í utanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við innanríkisráðuneytið og lýtur að breytingum á gildandi lögum á tveimur meginsviðum, annars vegar aðgangi erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og hins vegar skilvirkari innleiðingu alþjóðaskuldbindinga varðandi frystingu fjármuna og skyldra mála sem varða þvingunaraðgerðir.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
a. Aðgangur erlendra ríkisfara.
    Utanríkisráðherra veitir nú erlendum ríkisförum, þ.e. skipum og loftförum, heimild til þess að koma inn á íslenskt yfirráðasvæði á grundvelli tilskipunar frá því rétt fyrir aðra heimsstyrjöld, 24. júlí 1939. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við alþjóðlegar venjur í þessum efnum. Tilskipunin er orðin úrelt og þykir nú rétt að setja tilhlýðileg ákvæði í gildandi lög sem varða loft- og skipaferðir.

b. Frysting fjármuna.
    Árið 2008 voru sett ný heildarlög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Árið 2009 voru að sama skapi sett ný heildarlög um eftirlit með útflutningi sem getur haft hernaðarlega þýðingu. Nú er komin nokkurra ára reynsla á framkvæmd þessara laga og er ljóst að nauðsynlegt er að gera á þeim nokkrar endurbætur. Þær miða fyrst og fremst að því að gera lögin skilvirkari, sérstaklega þegar kemur að frystingu fjármuna einstaklinga og samtaka. Þessi úrræði eru nú notuð í auknum mæli í heiminum og hafa reynst sérstaklega árangursrík í baráttunni við hryðjuverkasamtök. Undirstrikað skal að frysting fjármuna er öryggisráðstöfun en ekki refsiviðurlög.
    Meginalþjóðaskuldbindingar Íslands varðandi frystingu fjármuna hryðjuverkasamtaka stafa frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Öryggisráðið heldur lista yfir hundruð einstaklinga og samtaka og öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru skuldbundin til að frysta eigur þeirra. Á undanförnum árum hefur innleiðingin á Íslandi á þessum skuldbindingum tekið u.þ.b. þrjá mánuði að meðaltali og það þrátt fyrir að í lögunum frá 2008 sé heimild til þess að birta nafnalistana á frummálinu en ekki að þýða þá. Hingað til hafa listarnir verið birtir í Stjórnartíðindum samkvæmt lögum frá 2008.
    Peningaþvættisstofnunin (Financial Action Task Force – FATF) er ein þeirra alþjóðastofnana sem hafa það hlutverk að fylgja því eftir að aðildarríki innleiði alþjóðlegar skuldbindingar sínar fljótt og vel á tilgreindum sviðum. FATF er alþjóðlegur framkvæmdarhópur sem var stofnaður að frumkvæði G7 ríkjanna í París árið 1989. FATF er með aðsetur hjá OECD í París og eru 34 ríki og tvær svæðisbundnar stofnanir meðlimir. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með inngöngu sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur við tilmæli FATF. Samstarf Íslands við meðlimi þessa framkvæmdarhóps er mikilsvert til þess að efla og viðhalda trausti á íslenskt fjármálakerfi og aðgerðir stjórnvalda gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Umboð FATF er þríþætt, að stuðla að aðgerðum gegn (1) peningaþvætti, (2) fjármögnun hryðjuverka og (3) fjármögnun ólögmætra gereyðingarvopna.
    Peningaþvættisstofnunin, FATF, hefur ákveðið að þegar öryggisráðið breytir listum sínum yfir hryðjuverkamenn og samtök sem skylt er að frysta fjármuni hjá verði að innleiða þá breytingu í landslög umsvifalaust og í það minnsta innan tveggja til þriggja daga. Hugsunin hér er sú að ef dráttur verður á framkvæmdinni verður aðgerðin nánast tilgangslaus vegna þess að hryðjuverkamenn og samtök hafa annars tíma til þess að flytja fjármuni sína í skjól. Það getur gerst á augabragði í nútímabankaviðskiptum.
    Aðildarríki Peningaþvættisstofnunarinnar hafa leyst þetta með þeim hætti að vísa í löggjöf sinni beint á vefsíðu öryggisráðsins hvað varðar uppfærslu hryðjuverkalistanna, en ekki endilega birta þá í eigin stjórnartíðindum. Þetta er gert með þessum hætti í Noregi og hliðstæð fordæmi eru í íslenskri löggjöf (sjá athugasemdir við einstakar greinar). Með þessu frumvarpi eru lagðar til hliðstæðar lagaheimildir.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarp þetta kveður á um (1) reglur varðandi aðgang erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og (2) heimilar fljótvirkari birtingu lista yfir hryðjuverkamenn og samtök þegar frysta þarf fjármuni þeirra eins og greint er frá að framan. Þess utan er lagt til að (3) heimildir verði rýmkaðar til þess að beita þvingunaraðgerðum í samvinnu við samstarfsríki Íslands, (4) heimilað verði að takmarka viðskipti með hrádemanta frá átakasvæðum (svokallaða blóðdemanta), svo og viðskipti með tól sem nota má til pyntinga eða við framkvæmd dauðarefsingar og (5) takmarka megi fjárfestingar í fyrirtækjum sem veita þjónustu eða framleiða hluti sem mætti nota í hernaðarlegum tilgangi.

a. Beiting þvingunaraðgerða.
    Samkvæmt gildandi lögum getur ríkisstjórnin framkvæmt þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, alþjóðastofnunum eða ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Með frumvarpinu er lagt til að þessi heimild verði útvíkkuð til þess að hægt sé að innleiða þvingunaraðgerðir samstarfsríkja og er þá átt við samstarfsríki Íslands innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Norður-Atlantshafsbandalagsins, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Æskilegt gæti verið að innleiða slíkar aðgerðir í samstarfi við önnur ríki án þess að ríkjahópurinn í heild taki endilega slíka ákvörðun, enda er slíkt ekki alltaf hægt.

b. Viðskipti með hrádemanta o.fl.
    Kimberley-ferlið (Kimberley Process Certification Scheme – KPCS) er alþjóðasamstarf sem var ýtt úr vör árið 2003 í þeim tilgangi að vinna gegn viðskiptum með svokallaða átakademanta (blóðdemanta) og koma í veg fyrir að þeir væru notaðir til þess að fjármagna ofbeldisverk af hálfu uppreisnarhópa eða hryðjuverkasamtaka sem vilja ráðast gegn lögmætum stjórnvöldum. Yfir 80 ríki taka nú þátt í þessu samstarfi, m.a. öll Vesturlönd nema Ísland.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að banna innflutning á hrádemöntum sem hafa ekki verið vottaðir samkvæmt reglum Kimberley-ferlisins. Þegar slíkar reglur hafa verið innleiddar getur Ísland sótt um aðild að samtökunum ef það svo kýs.
    Ísland er aðili að samningum sem banna dauðarefsingu og pyntingar. Í ljósi þessa þykir rétt að banna viðskipti með tól sem nota má til pyntinga eða dauðarefsingar á sama hátt og hefur verið gert í nágrannalöndunum.

c. Takmarkanir á fjárfestingum varðandi hernaðarlega mikilvægan útflutning.
    Á Íslandi gilda lög sem kveða á um að leyfi þurfi fyrir útflutningi á þjónustu og vörum sem nota mætti í hernaðarlegum tilgangi. Þeir vöruflokkar sem falla þarna undir eru mjög fjölbreyttir, m.a. hugbúnaður. Útflutningsbann gildir á þessum vöruflokkum til fjölda ríkja á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi þessa þykir eðlilegt að setja takmarkanir á að erlendir aðilar, fyrst og fremst utan Evrópska efnahagssvæðisins, geti eignast meiri hluta í þeim fyrirtækjum á Íslandi sem framleiða vörur eða veita þjónustu sem bannað er að veita í tilteknum löndum. Að öðrum kosti er aukin hætta á að hægt verði að komast fram hjá gildandi lögum um eftirlit með útflutningi.

IV. Samráð og mat á áhrifum.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við innanríkisráðuneytið um þau atriði sem snúa að komu erlendra ríkisfara og við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið varðandi takmarkanir á fjárfestingum í fyrirtækjum sem tengjast hernaðarlega mikilvægum útflutningi.
    Almennt séð verður þetta frumvarp til að auðvelda Íslandi að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum sínum og/eða auka orðspor þess á sviði alþjóðlegra öryggismála, peningaþvættismála og mannréttindamála. Reglurnar um komur ríkisfara eiga fyrst og fremst við erlend ríki og eru í samræmi við gildandi venjur. Takmarkanir á vissum fjárfestingum geta átt við mjög takmarkaðan fjölda fyrirtækja hérlendis og er ólíklegt að þeim yrði beitt hvort eð er. Bann við viðskiptum með vissar vörutegundir varðar engin fyrirtæki hérlendis svo vitað sé.

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við gerð frumvarpsins var þess gætt að það samrýmdist bæði stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum, m.a. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og fjárfestingarsamningum við einstök ríki.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Hugtakið ríkisloftfar er skilgreint í samningnum um alþjóðlegt borgaralegt flug (Convention on International Civil Aviation) frá 7. desember 1944, einnig nefndur Chicago- samningurinn, sem kom á fót Alþjóðlegu flugmálastofnuninni (ICAO). Þar segir í 3. gr., um borgaraleg flugför og ríkisflugför:
    „a.     Þessi samningur skal gilda eingöngu um borgaraleg flugför en skal ekki taka til ríkisflugfara.
    b.     Flugvélar til hernaðar, toll- eða löggæslu skulu taldar vera ríkisflugför.
    c.     Engin ríkisflugför samningsaðila skulu fljúga yfir land annars ríkis eða lenda þar, nema með leyfi í sérstökum samningum eða annarri heimild, og þá í samræmi við skilmála slíkrar heimildar.
    d.     Samningsaðilar skuldbinda sig til að taka fullt tillit til öryggis í flugi borgaralegra flugfara, þegar þeir gefa út reglugerðir handa ríkisflugförum sínum.“
    Framangreint ákvæði ber að skilja þannig að það eru not flugfars sem skilgreina stöðu þess en ekki eignarrétturinn. Ef t.d. flugfar í ríkiseigu er notað til hefðbundinna farþegaflutninga þá gilda hinar almennu reglur um borgaralegt flug.
     Ríkisflugfar getur verið borgaralegt eða hernaðarlegt, þ.m.t. far sem er ætlað til toll- eða löggæslu. Borgaralegt ríkisflugfar er hvers konar flugfar sem er í eigu erlends ríkis eða á vegum þess, er ekki notað í viðskiptalegum tilgangi og er ekki hernaðarflugfar. Hernaðarflugfar er hvers konar flugfar sem er undir herstjórn erlends ríkis eða alþjóðastofnunar.
     Íslenskt yfirráðasvæði tekur til landsvæðisins, landhelginnar, innsævis, hafsbotnsins undir landhelginni og innsævis og loftrýmisins yfir landi, landhelgi og innsævi.
    Leyfisveitingar fyrir yfirflugs- og lendingarleyfi ríkisloftfara eru í höndum utanríkisráðherra og er það hin almenna regla í alþjóðasamskiptum (oft nefnt á ensku Diplomatic Clearance). Í framkvæmd eru leyfin veitt ýmist fyrir einstakar ferðir eða fyrir tiltekið tímabil. Farþegar í ríkisflugi njóta oft svonefnds úrlendisréttar, t.d. þjóðhöfðingjar, herlið o.s.frv. Þegar um varnaræfingar er að ræða gilda ákvæði varnarmálalaga, nr. 34/2008, og fleiri lög þeim tengd.

Um 2. gr.


    Hliðstæðar reglur gilda að alþjóðalögum um ríkisskip og ríkisloftför, en fjallað er um ríkisskip í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982.
    Samkvæmt samningnum gilda nokkur sérsjónarmið um herskip og önnur ríkisskip, til að mynda njóta þau friðhelgi. Aftur á móti gerir samningurinn ekki greinarmun á rétti ríkisskipa og borgaralegra skipa til siglinga, þ.m.t. í friðsamlegri ferð um landhelgina.
     Ríkisskip getur verið borgaralegt eða hernaðarlegt, þ.m.t. skip sem er ætlað til toll- eða löggæslu. Borgaralegt ríkisskip er hvers konar skip sem er í eigu erlends ríkis eða á vegum þess, er ekki notað í viðskiptalegum tilgangi og er ekki herskip. Samkvæmt hafréttarsamningum er herskip hvers konar skip sem telst til hers ríkis, ber hin ytri merki til að auðkenna slík skip af þjóðerni þess, er undir stjórn yfirmanns, sem stjórn ríkisins hefur formlega skipað og nafngreindur er í viðeigandi herþjónustuskrá eða á jafngildan hátt, og er með áhöfn undir venjulegum heraga.
    Íslenskt yfirráðasvæði er skilgreint í athugasemdum við 1. gr.
    Utanríkisráðherra veitir leyfi fyrir komum erlendra herskipa og annarra ríkisskipa, m.a. rannsóknarskipa.

Um 3. gr.


    Samkvæmt þessu ákvæði verður heimilt að innleiða þvingunaraðgerðir í samvinnu við samstarfsríki, þ.e. aðildarríki að EES-samningnum frá 2. maí 1992, Norður-Atlantshafssamningnum frá 4. apríl 1949 eða Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE). Eingöngu er hægt að innleiða slíkar aðgerðir að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Ætla má að algengast verði að slíkar ákvarðanir taki til frystingar fjármuna, ef á reynir. Með þessari breytingu verður hægt að beita þvingunaraðgerðum ef t.d. stór meiri hluti ríkjahóps ákveður að beita þeim án þess að hópurinn sem slíkur geri það, enda er það ekki alltaf hægt. Hafa ber í huga við framkvæmd þessa ákvæðis að þvingunaraðgerðir þjóna litlum tilgangi nema nægilegur fjöldi ríkja taki þátt í þeim.

Um 4. gr.


     Um a-lið.
    Samkvæmt gildandi lögum má birta lista yfir aðila, hluti, tækni og annað viðfang þvingunaraðgerða á frummáli í Stjórnartíðindum. Það er gert með því að afrita þá á erlendum vefsíðum og endurbirta á vefsetri Stjórnartíðinda í reglugerð. Þetta fyrirkomulag hentar illa þegar t.d. frysting fjármuna ætlaðra hryðjuverkasamtaka þarf að koma til framkvæmda innan tveggja til þriggja sólarhringa, eins og skylt er. Því er lagt til að heimilt verði í reglugerð að vísa til listanna á vefsíðu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða Evrópusambandsins og teljist það fullnægjandi birting. Þetta fyrirkomulag tíðkast hjá mörgum FATF-ríkjum. Einnig verði heimilt að birta listana á vefsetri utanríkisráðuneytisins. Fyrirmyndin að hinu síðastnefnda er 140. gr. loftferðalaga sem heimilar að birta bindandi ákvarðanir Samgöngustofu á frummáli í flugmálahandbók eða á heimasíðu stofnunarinnar.
    Samkvæmt lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, eru EES-gerðir birtar í EES-tíðindum, sem eru viðauki við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, og er heimilt að vísa til þeirra þar án þess að birta þær í Stjórnartíðindum.
     Um b-lið.
    Hin nýja málsgrein heimilar að banna innflutning á hrádemöntum frá átakasvæðum sem yrði gert með því að kveða á um að innfluttir hrádemantar verði að vera vottaðir samkvæmt reglum Kimberley-ferlisins. Einnig yrði heimilt að banna viðskipti með vörur sem hægt væri að nota til að fremja viss mannréttindabrot.

Um 5. gr.


    Þetta ákvæði heimilar m.a. að takmarka erlenda meirihlutaeign í fyrirtækjum sem framleiða varnartengdar vörur eða vörur sem hafa tvíþætt notagildi. Undantekning er gerð með fjárfesta sem kunna að eiga réttindi samkvæmt alþjóðasamningum, fyrst og fremst samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Algengt er meðal ríkja að sérreglur gildi um öryggistengda starfsemi, t.d. segir í 2. mgr. 123. EES-samningsins: „Ekkert í samningi þessum skal hindra samningsaðila í að gera ráðstafanir: ... b) sem snerta framleiðslu á eða viðskipti með vopn, skotfæri og hergögn eða aðrar framleiðsluvörur, nauðsynlegar til varna, eða varða rannsóknir, þróun eða framleiðslu, nauðsynlega til varna, enda raski þessar ráðstafanir ekki samkeppnisskilyrðum hvað varðar framleiðsluvörur sem eru ekki sérstaklega ætlaðar til hernaðarþarfa.“
    Með þessu ákvæði er ekki ætlunin að setja neinar almennar hömlur á erlendar fjárfestingar í þessum geira heldur á þetta að vera varúðarráðstöfun sem mætti nota í undantekningartilfellum. Dæmi um slíkt væri ef fjárfestir er frá ríki sem ekki mætti flytja út varnartengdar vörur til eða vörur sem hafa tvíþætt notagildi.

Um 6. gr.


    Með þessu ákvæði eru lagðar til hliðstæðar breytingar á fyrirkomulagi birtingar lista á frummáli og lagt er til varðandi þvingunaraðgerðir skv. a-lið 4. gr. frumvarpsins. Slíkt fyrirkomulag ætti að flýta fyrir birtingunni, auka hagræði og minnka líkur á villum í texta.

Um 7. gr.


    Lögin um heimild fyrir ríkisstjórnina til að banna að veita upplýsingar um ferðir skipa voru sett stuttu eftir að tilskipun um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja var gefin út á tímum seinni heimsstyrjaldar. Lögin hafa ekki lengur neina þýðingu í ljósi tækniframfara og því er lagt til að þau verði felld niður.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl.

    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að tilskipun nr. 44/1939, um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasviði, falli brott úr íslenskum rétti þar sem tilskipunin þykir orðin úrelt. Þess í stað verði tilhlýðileg ákvæði um heimildir erlendra ríkisfara til aðgangs að íslensku yfirráðasvæði sett í lög nr. 60/1998, um loftferðir, og lög nr. 41/2003, um vaktstöð siglinga. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 93/2008, um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Breytingarnar miða annars vegar að því að heimila fljótvirkari aðferðir við að birta lista yfir aðila sem frysta skal fjármuni hjá og hins vegar að rýmka heimildir til að beita þvingunaraðgerðum í samvinnu við samstarfsríki Íslands. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 58/2010, um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Annars vegar breytingar sem takmarka erlenda meirihlutaeign í fyrirtækjum sem framleiða varnartengdar vörur og hins vegar breytingar sem heimila fljótvirkari aðferðir við að birta lista yfir hluti sem falla undir leyfisskyldan inn- og útflutning samkvæmt lögunum.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, muni hafa áhrif svo nokkru nemi á útgjöld ríkissjóðs. En ef eitthvað er má ætla að áhrifin verði til lækkunar útgjalda þar sem ákvæði þess opna leiðir til að beita skjótvirkari og ódýrari lausnum við innleiðingu á skuldbindingum Íslands er varða frystingu fjármuna og verslun með vörur sem geta haft hernaðarlega þýðingu.