Ferill 637. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1096  —  637. mál.Frumvarp til laga

um framkvæmd samnings um klasasprengjur.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.
Bann við klasasprengjum.

    Enginn má nota, þróa, framleiða, verða sér úti um með öðrum hætti, safna birgðum af, varðveita eða flytja klasasprengjur þannig að það stríði gegn ákvæðum samnings um klasasprengjur frá 30. maí 2008.

2. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn lögum þessum og reglum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú er brotið ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að fjórum árum.
    Hafi brot verið framið af stórfelldu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.
    Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila og í þágu hans má gera honum sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot má samhliða ákvörðun um refsingu þeirra gera lögaðilanum sekt ef brotið var í þágu hans.
    Gera má upptæka hluti, samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, sem hafa verið notaðir við brot, hafa orðið til við brot eða með öðrum hætti tengjast framningu brots. Þá má gera upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta.
    Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum.

3. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til íslenskra ríkisborgara og útlendinga samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um refsilögsögu en gera að auki íslenskum ríkisborgurum refsiábyrgð fyrir verknað sem þeir fremja erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt lögum þess ríkis þar sem brotið var framið.
    Lögin gilda gagnvart lögaðilum sem eru skráðir eða stofnaðir samkvæmt íslenskum lögum, hvar sem þeir starfa eða eru staðsettir. Nú er lögaðili skráður eða stofnaður erlendis og taka þá lögin til starfsemi hans að því leyti sem hún fer fram innan íslenskrar lögsögu.
    Lög þessi gilda ekki um jarðsprengjur.

4. gr.
Nánari reglur.

    Ríkisstjórninni er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um klasasprengjur frá 30. maí 2008 sem prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

5. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.Fylgiskjal.


Samningur um klasasprengjur.    Aðildarríki samnings þessa,
     sem hafa þungar áhyggjur af því að almenningur og einstakir borgarar haldi áfram að bera hitann og þungann af hernaðarátökum,
     sem eru ákveðin í að binda í eitt skipti fyrir öll enda á þjáningar og mannfall af völdum klasasprengna þegar þeim er beitt, þegar þær virka ekki sem skyldi eða þegar þær eru skildar eftir á víðavangi,
     sem hafa áhyggjur af því að klasasprengjuleifar valdi dauða eða limlestingu óbreyttra borgara, þar á meðal kvenna og barna, standi í vegi fyrir efnahagslegri og samfélagslegri þróun, þar á meðal með því að svipta menn lífsviðurværi sínu, hindri endurhæfingu og enduruppbyggingu að loknum átökum, tefji eða komi í veg fyrir heimkomu flóttamanna og uppflosnaðra manna innan lands, kunni að hafa neikvæð áhrif á innlent og alþjóðlegt friðarstarf og mannúðaraðstoð og hafi aðrar alvarlegar afleiðingar árum saman eftir notkun þeirra,
     sem hafa þungar áhyggjur, þar að auki, af hættunni sem stafar af miklum birgðum klasasprengna í eigu þjóðríkja sem ætlaðar eru til nota í hernaðaraðgerðum og eru staðráðin í að tryggja að þeim verði eytt hratt,
     sem telja að nauðsynlegt sé að þau leggi allt kapp á, með skilvirkum og samræmdum hætti, að leysa það örðuga verkefni að fjarlægja klasasprengjuleifar sem hefur verið komið fyrir um heim allan og tryggja að þeim verði eytt,
     sem eru einnig ákveðin í að tryggja að réttur allra fórnarlamba klasasprengna nái fram að ganga og að mannleg reisn þeirra verði viðurkennd,
     sem eru staðráðin í að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða fórnarlömb klasasprengna, meðal annars veita þeim læknisþjónustu, endurhæfingu og sálrænan stuðning, auk þess að stuðla að félagslegri og efnahagslegri aðlögun þeirra,
     sem sjá mikilvægi þess að veita fórnarlömbum klasasprengna aldurs- og kynjamiðaða aðstoð og að koma til móts við sérþarfir áhættuhópa,
     sem hafa í huga sáttmálann um réttindi fatlaðs fólk sem kveður meðal annars á um að aðildarríki þess samnings skuldbindi sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi nái fram að ganga í einu og öllu gagnvart öllum fötluðum mönnum án mismununar af nokkru tagi sakir fötlunar,
     sem eru minnug nauðsynjar þess að samræma nægilega vel aðgerðir sem unnið er að víða og snúa að réttindum og þörfum fórnarlamba vopna af ólíkum gerðum og eru staðráðin í að forðast að fórnarlömbum slíkra vopna sé mismunað,
     sem árétta að borgarar og stríðsmenn skuli ávallt, í tilvikum sem samningur þessi eða aðrir alþjóðasamningar fjalla ekki um, njóta verndar og áhrifa meginreglna þjóðaréttar sem rekja má til viðtekinna venja, til mannúðarhugsjónarinnar og til boða um almenna samviskuskyldu,
     sem eru staðráðin í að vopnuðum hópum, sem ekki eru hluti af ríkisher, skuli ekki undir neinum kringumstæðum heimilað að aðhafast neitt sem er óheimilt aðildarríkjum samnings þessa,
     sem fagna afar breiðri alþjóðlegri samstöðu um alþjóðlegar reglur sem banna jarðsprengjur og bundnar eru í samningnum frá 1997 um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og yfirfærslu jarðsprengna og um eyðingu þeirra,
     sem fagna einnig samþykkt bókunarinnar um sprengiefnaleifar frá stríðsátökum, sem fylgdi með í viðauka við samninginn um bann við eða takmarkanir á notkun tiltekinna hefðbundinna vopna sem unnt er að flokka sem mjög skaðleg eða hafi tilviljunarkennd áhrif, og gildistöku hennar 12. nóvember 2006 og sem vilja að borgarar njóti aukinnar verndar fyrir áhrifum klasasprengjuleifa í umhverfi þar sem stríðsátökum er lokið,
     sem hafa einnig hugfasta ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1612 um börn í hernaðarátökum,
     sem fagna enn fremur ráðstöfunum, sem hafa verið gerðar á innlendum, svæðisbundnum og hnattrænum vettvangi á undanförnum árum, í því augnamiði að banna, takmarka eða stöðva um stundarsakir notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og yfirfærslu á klasasprengjum,
     sem leggja áherslu á almenna samviskuskyldu til eflingar mannúðarhugsjónarinnar eins og hún birtist í ákalli um heim allan um endalok þjáninga af völdum klasasprengna og viðurkenna starf Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaráðs Rauða krossins, Klasasprengjubandalagsins og fjölmargra annarra frjálsra félagasamtaka í heiminum í þágu þess markmiðs,
     sem árétta yfirlýsingu Óslóarráðstefnunnar um klasasprengjur, en með henni viðurkenndu ríki meðal annars alvarlegar afleiðingar af notkun klasasprengna og skuldbundu sig til að ljúka fyrir 2008 við lagalega bindandi gerning sem mundi banna notkun, framleiðslu, yfirfærslu og birgðasöfnun klasasprengna sem valda borgurum óásættanlegu meini, og mundi setja lagaramma um samvinnu og aðstoð sem tryggir að fórnarlömbum verði veitt fullnægjandi umönnun og endurhæfing, að spillt svæði verði hreinsuð, að boðin verði fram fræðsla til að draga úr áhættu og að birgðum verði eytt,
     sem leggja áherslu á að æskilegt sé að fá öll ríki til þess að gerast aðilar að samningi þessum og eru staðráðin í að vinna ötullega að því að algilda hann og að hann komi að fullu til framkvæmda,
     sem ganga út frá meginreglum og ákvæðum alþjóðlegs mannúðarréttar, sér í lagi þeirri meginreglu að réttur aðila að hernaðarátökum til þess að velja aðferðir eða brögð í ófriði er ekki ótakmarkaður, ásamt þeim reglum að aðilar að vopnuðum átökum skuli ávallt greina á milli almennings og stríðsmanna sem og á milli borgaralegs viðfangs og hernaðarlegra skotmarka og þar af leiðandi að beina aðgerðum sínum eingöngu að hernaðarlegum skotmörkum, að í hernaðaraðgerðum skuli þess stöðugt gætt að hlífa almenningi, borgurum og sérhverju borgaralegu viðfangi og að almenningur og einstakir borgarar njóti almennrar verndar fyrir hættum sem stafa af hernaðaraðgerðum,

    HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT um eftirfarandi:

1. gr.

Almennar skuldbindingar og gildissvið.


1.     Sérhvert aðildarríki skuldbindur sig til þess að gera aldrei neitt af því sem hér fer á eftir:
     a)      að nota klasasprengjur;
     b)      að þróa, framleiða, verða sér úti um með öðrum hætti, safna birgðum af, varðveita eða yfirfæra til einhvers klasasprengjur, beint né óbeint,
     c)      að aðstoða, hvetja eða ýta undir einhvern til að taka þátt í einhverjum þeim aðgerðum sem aðildarríki eru óheimilar samkvæmt samningi þessum.
2.     Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar gilda, að breyttu breytanda, um sprengifimar smásprengjur sem eru sérhannaðar til þess að vera dreift eða sleppt úr skömmturum sem eru áfastir loftförum.
3.     Samningur þessi gildir ekki um jarðsprengjur.

2. gr.

Skilgreiningar.


    Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
1.      „Fórnarlömb klasasprengna“ merkir allir einstaklingar sem hafa týnt lífi eða orðið fyrir líkamlegu eða andlegu tjóni eða efnahagslegu tapi, hefur verið ýtt út á jaðar samfélagsins eða hafa orðið að þola að réttur þeirra sé verulega skertur í framkvæmd vegna notkunar klasasprengna. Meðtaldir eru þeir einstaklingar sem hafa beinlínis orðið fyrir klasasprengjum og þeir aðstandendur þeirra og samfélög sem fyrir áhrifum verða.
2.      „Klasasprengja“ merkir hefðbundið hertól sem er hannað til að dreifa eða sleppa sprengifimum dreifisprengjum og er hvert um sig undir 20 kg að þyngd ásamt þeim sprengifimu dreifisprengjum sem það inniheldur. Það á ekki við um eftirfarandi:
     a)      hertól eða dreifisprengju sem er hönnuð til að gefa frá sér blossa, reyk, flugelda eða ratsjárendurvarpsefni, eða hertól sem er hannað einvörðungu til loftvarna,
     b)      hertól eða dreifisprengju sem er gerð til að framkalla rafmagns- eða rafeindaáhrif,
     c)      hertól sem, til að forðast áhrif á óafmörkuðum svæðum og þá hættu sem stafar af ósprungnum dreifisprengjum, hefur öll eftirtalin einkenni:
                  i.      hvert hertól inniheldur færri en tíu sprengifimar dreifisprengjur,
                  ii.      hver sprengifim dreifisprengja vegur minna en fjögur kíló,
                  iii.      hver sprengifim dreifisprengja er hönnuð í þeim tilgangi að finna og hæfa eitt ákveðið skotmark,
                  iv.      hver sprengifim dreifisprengja er búin rafeindabúnaði til sjálfseyðingar,
                  v.      hver sprengifim dreifisprengja er búin sjálfsónýtandi rafeindabúnaði.
3.      „Sprengifim dreifisprengja“ merkir hefðbundið hertól sem, til að þjóna tilgangi sínum, er dreift eða sleppt úr klasasprengju og gert til að virka með þeim hætti að það tendrar sprengjuhleðslu fyrir, við eða eftir samslátt.
4.      „Gölluð klasasprengja“ merkir klasasprengja sem hefur verið skotið, sleppt, hafin á loft, varpað fram eða send með öðrum hætti og hefði átt að dreifa eða sleppa sprengifimum dreifisprengjum sínum en gerði ekki.
5.      „Ósprungnar dreifisprengjur“ merkir sprengifimar dreifisprengjur sem hefur verið dreift eða sleppt úr, eða með öðrum hætti skildar frá, klasasprengju og hafa ekki sprungið eins og til var ætlast.
6.      „Yfirgefnar klasasprengjur“ merkir klasasprengjur eða sprengifimar dreifisprengjur sem ekki hafa verið notaðar og hafa verið skildar eftir eða hent og eru ekki lengur undir eftirliti þess aðila sem skildi þær eftir eða henti þeim. Þær kunna eða kunna ekki að hafa verið undirbúnar til notkunar.
7.      „Klasasprengjuleifar“ merkir gallaðar klasasprengjur, yfirgefnar klasasprengjur, ósprungnar dreifisprengjur og ósprungnar smásprengjur.
8.      „Yfirfærsla“ merkir, auk eiginlegs flutnings klasasprengna inn á innlent yfirráðasvæði eða út af því, yfirfærsla eignarréttar á og yfirráða yfir klasasprengjum en ekki yfirfærsla yfirráðasvæðis þar sem klasasprengjuleifar er að finna.
9.      „Sjálfeyðingarbúnaður“ merkir innfellt, sjálfvirkt gangvirki sem er viðbót við aðalrásbúnað hertólsins og tryggir að hertólið, sem hann er innfelldur í, eyðileggist.
10.      „Sjálfónýtandi“ merkir það að gera hertól ónothæft á sjálfvirkan hátt með því að ónýta íhlut varanlega, t.d. rafhlöðu, sem nauðsynleg er til að hertólið geti virkað.
11.      „Klasasprengjuspillt svæði“ merkir svæði þar sem vitað er eða grunur leikur á um að klasasprengjuleifar sé að finna.
12.      „Jarðsprengja“ merkir hertól sem koma má fyrir undir, á eða nálægt yfirborði jarðar eða öðrum yfirborðsfleti og er ætlað að springa sakir nærveru, nálægðar eða snertingar manns eða farartækis.
13.      „Sprengifim smásprengja“ merkir hefðbundið hertól, undir 20 kg að þyngd, sem er ekki sjálfknúið og, til að þjóna tilgangi sínum, er dreift eða sleppt úr dreifara og er ætlað að virka með því að tendra sprengjuhleðslu fyrir, við eða eftir samslátt.
14.      „Dreifari“ merkir geymir sem er gerður til að dreifa eða sleppa sprengifimum smásprengjum og er áfestur við loftfar þegar þeim er dreift eða sleppt.
15.      „Ósprungnar smásprengjur“ merkir sprengifimar smásprengjur sem hefur verið dreift eða sleppt úr, eða með öðrum hætti skildar frá dreifara og hafa ekki sprungið eins og til var ætlast.

3. gr.
Geymsla og eyðing birgða.

1.     Sérhvert aðildarríki skal, í samræmi við innlendar reglur, aðskilja allar klasasprengjur, sem lögsaga þess nær til og það ræður yfir, frá hertólum sem bíða þess að verða notaðar í hernaðaraðgerðum og merkja þær til eyðingar.
2.     Sérhvert aðildarríki skuldbindur sig til að eyða öllum klasasprengjum, er um getur í 1. mgr. þessarar greinar, eða tryggja að þeim verði eytt, eins fljótt og auðið er og ekki síðar en átta árum eftir að samningur þessi öðlast gildi gagnvart því. Sérhvert aðildarríki skuldbindur sig til að tryggja að aðferðir við eyðingu séu samkvæmt alþjóðlegum stöðlum um verndun lýðheilsu og umhverfis.
3.     Telji aðildarríki að það muni ekki geta eytt öllum klasasprengjum, er um getur í 1. mgr. þessarar greinar, eða tryggt að þeim verði eytt, innan átta ára eftir að samningur þessi öðlast gildi gagnvart því getur hlutaðeigandi aðildarríki lagt fram beiðni, fyrir fund aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnu, um að frestur til að ljúka eyðingu fyrrnefndra klasasprengna verði framlengdur um allt að fjögur ár. Við óvenjulegar aðstæður getur aðildarríki óskað eftir fresti í allt að fjögur ár til viðbótar. Umbeðinn viðbótarfrestur skal ekki vara lengur í árum talið en bráðnauðsynlegt er til þess að aðildarríkið geti efnt skuldbindingar sínar skv. 2. mgr. þessarar greinar.
4.     Hver beiðni um framlengdan frest skal innihalda eftirfarandi:
     a)      hve lengi hinn ráðgerði, framlengdi frestur skal vara,
     b)      ítarlegan rökstuðning fyrir ráðgerðum, framlengdum fresti, meðal annars það fjármagn og þá tækni sem aðildarríkið hefur yfir að ráða til þess að eyða öllum klasasprengjum er um getur í 1. mgr. þessarar greinar, og, eftir atvikum, þær óvenjulegu aðstæður sem réttlæta hann,
     c)      áætlun um hvernig og hvenær eyðingu birgða verði lokið,
     d)      magn og gerð klasasprengna og sprengifimra dreifisprengna sem fyrir hendi eru þegar samningur þessi öðlast gildi gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki og allar klasasprengjur eða sprengifimar dreifisprengjur þar umfram sem koma í leitirnar eftir þá gildistöku,
     e)      magn og gerð klasasprengna og sprengifimra dreifisprengna sem er eytt á því tímabili er um getur í 2. mgr. þessarar greinar og
     f)      magn og gerð klasasprengna og sprengifimra dreifisprengna sem til stendur að eyða meðan ráðgerður, framlengdur frestur varir og það magn sem áætlað er að eyða á ári hverju.
5.     Fundur aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnan skal, að teknu tilliti til þeirra þátta sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar, taka beiðnina til athugunar og ákveða með meiri hluta greiddra atkvæða þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa á fundinum eða ráðstefnunni hvort orðið skuli við beiðninni um viðbótarfrest. Aðildarríkin geta ákveðið að veita skemmri frest en beðið er um og geta gert tillögu um viðmiðanir fyrir hinn framlengda frest, eftir því sem við á. Beiðni um framlengdan frest skal leggja fram minnst níu mánuðum fyrir fund aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnuna sem taka á hana til umfjöllunar.
6.     Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. samnings þessa er heimilt að geyma eða verða sér úti um takmarkaðan fjölda klasasprengna og sprengifimra dreifisprengna til að vinna að framförum við og þjálfun í að finna klasasprengjur og sprengifimar dreifisprengjur, þróa tækni til að fjarlægja þær eða eyða þeim eða til að þróa gagnráðstafanir vegna klasasprengna. Fjöldi sprengifimra dreifisprengna, sem eru geymdar eða er aflað, skal ekki vera meiri en bráðnauðsynlegur er til fyrrgreindra nota.
7.     Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. samnings þessa er heimilt að yfirfæra klasasprengjur til annars aðildarríkis í því skyni að eyða þeim og í þeim tilgangi sem er lýst í 6. mgr. þessarar greinar.
8.     Aðildarríki sem geyma, verða sér úti um eða yfirfæra klasasprengjur eða sprengifimar dreifisprengjur í þeim tilgangi sem lýst er í 6. og 7. mgr. þessarar greinar skulu leggja fram ítarlega skýrslu um áætlaða og raunverulega notkun þessara klasasprengna og sprengifimu dreifisprengna og gerð þeirra, magn og lotunúmer. Ef klasasprengjur eða sprengifimar dreifisprengjur eru yfirfærðar til annars aðildarríkis í þessum tilgangi skal koma fram í skýrslunni hver viðtakandinn er. Taka ber þess konar skýrslu saman fyrir hvert ár sem aðildarríki geymir, verður sér úti um eða yfirfærir klasasprengjur eða sprengifimar dreifisprengjur og leggja fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna eigi síðar en 30. apríl árið eftir.

4. gr.
Hreinsun og eyðing klasasprengjuleifa og fræðsla til að draga úr áhættu.

1.     Sérhvert aðildarríki skuldbindur sig til að fjarlægja klasasprengjuleifar og eyða þeim á klasaprengjuspilltum svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir, eða tryggja að þær verði fjarlægðar og þeim eytt, með eftirfarandi hætti:
     a)      ef klasasprengjuleifar eru á svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir á gildistökudegi samnings þessa gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki skal slík hreinsun eða eyðing fara fram eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tíu árum frá þeirri dagsetningu,
     b)      ef klasasprengjur hafa, eftir að samningur þessi öðlast gildi gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki, orðið að klasasprengjuleifum á svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir skal slík hreinsun eða eyðing fara fram eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tíu árum eftir að þeim beinu hernaðarátökum þegar slíkar klasasprengjur urðu að klasasprengjuleifum er lokið og
     c)      hlutaðeigandi aðildarríki skal, að efndri annarri hvorri skuldbindingu sem sett er fram í a- og b-lið þessarar málsgreinar, gefa út yfirlýsingu um að settum kröfum hafi verið hlítt til næsta fundar aðildarríkjanna.
2.     Jafnhliða því að efna skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. þessarar greinar skal sérhvert aðildarríki gera eftirfarandi ráðstafanir, eins fljótt og auðið er, að teknu tilliti til ákvæða 6. gr. samnings þessa um alþjóðlega samvinnu og aðstoð:
     a)      kanna, meta og skrásetja þá ógn sem stafar af klasasprengjuleifum, jafnframt því að leggja allt kapp á að finna öll klasasprengjuspillt svæði sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir,
     b)      meta nauðsynlegar aðgerðir og forgangsraða þeim að því er varðar merkingar, vernd almennra borgara, hreinsun og eyðingu og hefjast handa og grípa til úrræða og semja landsáætlun um framkvæmd þessara aðgerða og byggja, eftir atvikum, á ríkjandi skipan, reynslu og aðferðum,
     c)      gera allar ráðstafanir sem henta til að tryggja að ummál allra klasasprengjuspilltra svæða, sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir, sé merkt, þau séu vöktuð og varin með girðingu eða á annan hátt til að tryggt sé að almennir borgarar fari ekki inn á þau; setja ber upp viðvörunarskilti, gerð með þeim hætti að það samfélag þar sem áhrifa sprengjubúnaðar gætir gefi þeim sérstakan gaum þegar merkja á meint hættusvæði; skilti og aðrar merkingar, sem sýna mörk hættusvæða, ættu að vera eins áberandi, læsileg, endingargóð og þolin gagnvart umhverfisáhrifum og frekast er kostur og gefa skýrt til kynna hvoru megin merktra marka talið er að klasasprengjuspillt svæði sé að finna og hvorum megin talið er öruggt að vera á ferð,
     d)      fjarlægja og eyða öllum klasasprengjuleifum sem eru á svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir og
     e)      annast fræðslu til að draga úr áhættu og tryggja að almennir borgarar, sem búa á eða í námunda við klasasprengjuspillt svæði, séu meðvitaðir um þá hættu sem stafar af slíkum leifum.
3.     Sérhvert aðildarríki skal, jafnhliða því að hrinda þeim ráðstöfunum sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar í framkvæmd, taka mið af alþjóðlegum stöðlum, meðal annars alþjóðlegum stöðlum um jarðsprengjuaðgerðir (IMAS).
4.     Þessi málsgrein skal gilda í þeim tilfellum þegar klasasprengjur hafa verið notaðar eða skildar eftir af einu aðildarríki áður en samningur þessi hefur öðlast gildi gagnvart því aðildarríki og hafa orðið að klasasprengjuleifum á svæðum, sem lögsaga annars aðildarríkis nær til eða annað aðildarríki ræður yfir, þegar samningur þessi öðlaðist gildi gagnvart því síðarnefnda.
     a)      Í þeim tilvikum, þegar samningur þessi öðlast gildi gagnvart báðum aðildarríkjunum, er fyrrnefnda aðildarríkið eindregið hvatt til að leggja síðarnefnda aðildarríkinu til aðstoð, meðal annars tæknilega, fjárhagslega og efnislega eða aðstoð í formi mannafla, annað hvort tvíhliða eða fyrir atbeina þriðja aðila sem gagnkvæmt samkomulag er um, þ.m.t. stofnanir Sameinuðu þjóðanna eða önnur viðkomandi samtök, til að auðveldara sé að merkja, fjarlægja og eyða fyrrnefndum klasasprengjuleifum.
     b)      Slík aðstoð skal meðal annars felast í upplýsingagjöf um gerð og magn notaðra klasasprengna, nákvæmlega hvar klasasprengjuárásir voru gerðar og um þau svæði þar sem vitað er að klasasprengjuleifar er að finna, að því tilskildu að slíkar upplýsingar liggi fyrir.
5.     Ef aðildarríki telur sig ófært um að fjarlægja og eyða öllum klasasprengjuleifum, sem getið er um í 1. mgr. þessarar greinar, eða tryggja að þær verði fjarlægðar og þeim eytt, innan tíu ára frá því að samningur þessi öðlast gildi gagnvart því, getur það lagt beiðni fyrir fund aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnu um að frestur til að ljúka við að fjarlægja og eyða slíkum klasasprengjuleifum verði framlengdur um allt að fimm ár. Umbeðinn frestur skal ekki vera lengri en sá tími í árum talið sem rétt nægir til þess að gera aðildarríkinu kleift að uppfylla skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. þessarar greinar.
6.     Beiðni um frekari frest skal leggja fyrir fund aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnu áður en frestur sá er um getur í 1. mgr. þessarar greinar er út runninn fyrir aðildarríkið. Hverja beiðni skal leggja fyrir minnst níu mánuðum fyrir þann fund aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnu sem taka á hana til umfjöllunar. Hver beiðni skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:
     a)      gildistíma fyrirhugaðs viðbótarfrests,
     b)      ítarlegan rökstuðning fyrir fyrirhuguðum viðbótarfresti, meðal annars fjármagn og tækni sem viðkomandi aðildarríki er tiltæk og það þarfnast til að geta fjarlægt og eytt öllum klasasprengjuleifum meðan fyrirhugaður frestur varir,
     c)      upplýsingar um undirbúning fyrirhugaðra aðgerða og um stöðu aðgerða sem þegar er lokið samkvæmt landsáætlunum um að fjarlægja og eyða jarðsprengjum á hinu upphaflega tíu ára tímabili, er um getur í 1. mgr. þessarar greinar, og meðan frekari frestur varir,
     d)      hvert það heildarsvæði þar sem klasasprengjuleifar er að finna þegar samningur þessi öðlast gildi gagnvart viðkomandi aðildarríki og öll önnur svæði þar sem klasasprengjuleifar finnast eftir þá gildistöku,
     e)      allt það svæði þar sem klasasprengjuleifar eru sem hreinsað hefur verið frá gildistöku samnings þessa,
     f)      hvert það heildarsvæði er þaðan sem til stendur að fjarlægja klasasprengjuleifar meðan fyrirhugaður viðbótarfrestur varir,
     g)      þær aðstæður sem hafa aftrað viðkomandi aðildarríki frá því að eyða öllum klasasprengjuleifum á svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir á hinu upphaflega tíu ára tímabili er um getur í 1. mgr. þessarar greinar og þær aðstæður sem kunna að aftra því meðan fyrirhugaður viðbótarfrestur varir,
     h)      mannúðar-, félags-, efnahags- og umhverfisáhrif sem hinn fyrirhugaði viðbótarfrestur hefur í för með sér og
     i)      allar aðrar upplýsingar sem varða beiðnina um hinn fyrirhugaða viðbótarfrest.
7.     Fundur aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnan skal, að teknu tilliti til þeirra þátta sem um getur í 6. mgr. þessarar greinar, meðal annars tilkynnts magns klasasprengjuleifa, leggja mat á beiðnina og ákveða, með meiri hluta greiddra atkvæða þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa á fundinum eða ráðstefnunni, hvort orðið skuli við beiðninni um viðbótarfrest. Aðildarríkin geta ákveðið að veita styttri viðbótarfrest en beðið er um og geta, eftir atvikum, gert tillögu um viðmiðunarreglur um hann.
8.     Heimilt er að endurnýja viðbótarfrestinn í allt að fimm ár að fram kominni nýrri beiðni skv. 5., 6., og 7. mgr. þessarar greinar Með beiðni um frekari viðbótarfrest skal aðildarríki leggja fram viðeigandi viðbótarupplýsingar um framkvæmdir meðan fyrri viðbótarfresturinn, sem var veittur samkvæmt þessari grein, varði.

5. gr.
Aðstoð við fórnarlömb.

1.     Sérhvert aðildarríki skal, að því er fórnarlömb klasasprengna varðar og á svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir, í samræmi við gildandi alþjóðlegan mannúðarrétt og mannréttindalög, veita viðunandi aldurs- og kynjamiðaða aðstoð, þ.m.t. læknisaðstoð, endurhæfingu og sálfræðilegan stuðning, auk þess að stuðla að félags- og efnahagslegri aðlögun þeirra. Sérhvert aðildarríki skal leggja allt kapp á að afla áreiðanlegra gagna sem máli skipta með tilliti til fórnarlamba klasasprengna.
2.     Sérhvert aðildarríki skal, þegar það efnir skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. þessarar greinar:
     a)      meta þarfir fórnarlamba klasasprengna,
     b)      vinna að setningu, framkvæmd og framfylgd nauðsynlegra landslaga og stefnu,
     c)      gera landsáætlun og fjárhagsáætlun, þar sem aðgerðir eru meðal annars tímasettar, í því augnamiði að fella þær inn í rammaáætlanir og fyrirkomulag sem gildir á landsvísu um örorku, uppbyggingu og mannréttindi og jafnframt taka fullt tillit til sérhlutverks og sérframlags hlutaðeigandi aðila,
     d)      hefjast handa og grípa til úrræða, innlendra sem alþjóðlegra,
     e)      sjá til þess að fórnarlömbum klasasprengna sé ekki mismunað, eða mismunað innbyrðis, eða að þau fórnarlömb hljóti sambærilega meðferð og þeir sem hafa meiðst eða örkumlast af öðrum orsökum; mismunandi meðferð ætti eingöngu að miða við þarfir í skilningi læknisfræði, endurhæfingar, sálfræði eða félags- og hagfræði,
     f)      hafa náið samráð við og tryggja virka aðkomu fórnarlamba klasasprengna og samtaka sem koma fram fyrir þeirra hönd,
     g)      tilnefna miðstöð innan stjórnsýslunnar sem hafi það hlutverk að samræma þau mál sem eiga skylt við framkvæmd ákvæða þessarar greinar og
     h)      leitast við að innleiða viðeigandi viðmiðunarreglur og góðar starfsvenjur, meðal annars á sviði læknisþjónustu, endurhæfingar og sálfræðistuðnings, að meðtöldum samfélagslegum og efnahagslegum úrræðum.

6. gr.
Alþjóðleg samvinna og aðstoð.

1.     Sérhvert aðildarríki á rétt á að leita aðstoðar og þiggja hana þegar það efnir skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.
2.     Sérhvert aðildarríki, sem hefur aðstöðu til þess, skal veita aðildarríkjum, sem hafa orðið fyrir áhrifum klasasprengna, tæknilega, efnislega og fjárhagslega aðstoð sem miðar að efndum skuldbindinga sem leiðir af samningi þessum. Unnt er að veita slíka aðstoð, meðal annars fyrir atbeina stofnana Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegra, svæðisbundinna eða innlendra skipulagsheilda eða stofnana, frjálsra félagasamtaka eða stofnana eða á grundvelli tvíhliða samstarfs.
3.     Sérhvert aðildarríki skuldbindur sig til þess að greiða fyrir, og skal eiga rétt á, aðild að skiptum á tækjabúnaði og vísinda- og tækniupplýsingum, viðvíkjandi framkvæmd samnings þessa, í eins ríkum mæli og frekast er unnt. Aðildarríkin skulu ekki, að ástæðulausu, leggjast gegn því að hreinsibúnaður og annar líkur búnaður, ásamt tengdum tækniupplýsingum, sé látinn í té og honum veitt viðtaka til nota í mannúðarskyni.
4.     Sérhvert aðildarríki, sem hefur aðstöðu til þess, skal, auk skuldbindinga sem það kann að hafa undirgengist skv. 4. mgr. 4. gr. samnings þessa, aðstoða við að fjarlægja og eyða klasasprengjuleifum og láta í té upplýsingar um ólíkar leiðir og tækni til að eyða klasasprengjum, ásamt skrám um sérfræðinga, sérhæfðar stofnanir eða innlenda tengiliði sem fást við að fjarlægja og eyða klasasprengjuleifum og stunda aðra tengda starfsemi.
5.     Sérhvert aðildarríki, sem hefur aðstöðu til þess, skal veita aðstoð við eyðingu klasasprengjubirgða og við að skilgreina, meta og forgangsraða þörfum og beinum aðgerðum að því er varðar merkingar, fræðslu til að draga úr áhættu, verndun almennra borgara og hreinsun og eyðingu eins og kveðið er á um í 4. gr. samnings þessa.
6.     Hafi klasasprengjur orðið að klasasprengjuleifum, staðsettum á svæðum sem lögsaga aðildarríkis nær til eða það ræður yfir, eftir að samningur þessi öðlast gildi, skal sérhvert aðildarríki, sem hefur aðstöðu til þess, veita hlutaðeigandi aðildarríki neyðaraðstoð sem allra fyrst.
7.     Sérhvert aðildarríki, sem hefur aðstöðu til þess, skal veita aðstoð til efnda á þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í 5. gr. samnings þessa, þ.e. að veita með viðunandi hætti aldurs- og kynjamiðaða aðstoð, þ.m.t. læknisaðstoð, endurhæfingu og sálfræðilegan stuðning, ásamt því að stuðla að félagslegri og efnahagslegri aðlögun fórnarlamba klasasprengna. Unnt er að veita slíka aðstoð, meðal annars fyrir atbeina Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegra, svæðisbundinna eða innlendra skipulagsheilda eða stofnana, Alþjóðaráðs Rauða krossins, innlendra deilda Rauða krossins og Rauða hálfmánans og alþjóðasambands þeirra og fyrir atbeina frjálsra félagasamtaka eða á grundvelli tvíhliða samstarfs.
8.     Sérhvert aðildarríki, sem hefur aðstöðu til þess, skal veita aðstoð sem miðar að efnahagslegum og félagslegum bata sem er nauðsynlegur í kjölfar notkunar klasasprengna í aðildarríkjum sem hafa orðið fyrir búsifjum af þeirra völdum.
9.     Sérhverju aðildarríki, sem hefur aðstöðu til þess, er heimilt að leggja fram fé til viðeigandi sjóða til þess að greiða fyrir því að aðstoð samkvæmt þessari grein berist.
10.     Sérhvert aðildarríki, sem leitar eftir aðstoð og hlýtur hana, skal gera viðeigandi ráðstafanir til að greiða fyrir tímanlegri og árangursríkri framkvæmd samnings þessa, meðal annars greiða fyrir komu og brottflutningi mannafla, efnis og tækjabúnaðar með þeim hætti sem samrýmist innlendum lögum og reglugerðum, að teknu tilliti til bestu starfsvenja á alþjóðavísu.
11.     Sérhverju aðildarríki er heimilt, við gerð innlendrar aðgerðaáætlunar, að fara þess á leit við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, svæðisbundin samtök, önnur aðildarríki eða aðrar til þess bærar milliríkjastofnanir eða frjáls félagasamtök að þau aðstoði yfirvöld þess við ákvarðanatöku meðal annars viðvíkjandi:
     a)      eðli og umfangi klasasprengjuleifa sem eru staðsettar á svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir,
     b)      fjárhagslegri og tæknilegri aðstoð og mannafla sem þarf til að framfylgja áætluninni,
     c)      áætluðum tíma sem þarf til að fjarlægja og eyða öllum klasasprengjuleifum sem eru á svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir,
     d)      áætlunum um fræðslu til að draga úr áhættu og starfsemi sem miðar að því að vekja vitund um að draga úr slysum eða dauðsföllum af völdum klasasprengjuleifa,
     e)      aðstoð við fórnarlömb klasasprengna og
     f)      því hvernig samhæfingu aðgerða er háttað milli stjórnvalda í hlutaðeigandi aðildarríki og viðkomandi opinberra og óopinberra aðila og milliríkjastofnana sem munu vinna að framkvæmd áætlunarinnar.
12.     Aðildarríki, sem veita og þiggja aðstoð samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skulu vinna saman að því að samþykkt aðstoð nái örugglega fram að ganga, í einu og öllu og með skjótum hætti.

7. gr.
Ráðstafanir til að tryggja gagnsæi.

1.     Sérhvert aðildarríki skal gefa aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skýrslu um eftirfarandi, eins fljótt og unnt er og eigi síðar en 180 dögum eftir að samningur þessi öðlast gildi gagnvart því:
     a)      ráðstafanir á landsvísu er um getur í 9. gr. samnings þessa,
     b)      heildarmagn allra klasasprengna, þ.m.t. sprengifimar dreifisprengjur, er um getur í 1. mgr. 3. gr. samnings þessa, þ.e. yfirlit sundurliðað eftir gerð, magni og, ef unnt er, lotunúmeri hverrar gerðar,
     c)      tæknilega eiginleika hverrar gerðar klasasprengna sem fyrrnefnt aðildarríki framleiddi áður en samningur þessi öðlaðist gildi gagnvart því, eftir því sem vitað er, og þær gerðir sem aðildarríkið á eða hefur til umráða, og allar þær upplýsingar, eftir því sem við verður komið, sem kunna að gera kleift að finna og fjarlægja klasasprengjur. Upplýsingar þessar skulu að lágmarki gefa til kynna ummál, gerð kveikjubúnaðar, sprengiefnisinnihald, málminnihald, litljósmyndir og annað sem kann að gera kleift að fjarlægja klasasprengjuleifar,
     d)      stöðu og framgang áætlana um umbreytingu eða lokun klasasprengjuframleiðslustöðva,
     e)      stöðu og framgang áætlana um eyðingu klasasprengna skv. 3. gr. samnings þessa, þ.m.t. sprengifimar dreifisprengjur, ásamt ítarlegum upplýsingum um förgunaraðferðir, alla þá staði þar sem eyðing þeirra fer fram og viðeigandi öryggis- og umhverfisverndarstaðla sem ber að vinna samkvæmt,
     f)      gerðir og magn klasasprengna, þ.m.t. sprengifimar dreifisprengjur, sem hefur verið eytt skv. 3. gr. samnings þessa, ásamt ítarlegum upplýsingum um förgunaraðferðir sem var beitt, þá staði þar sem eyðing þeirra fór fram og viðeigandi öryggis og umhverfisverndarstaðla sem unnið var samkvæmt,
     g)      birgðir klasasprengna, þ.m.t. sprengifimar dreifisprengjur, sem finnast eftir að tilkynnt er að þeirri áætlun er um getur í e-lið þessarar málsgreinar er lokið, og áætlanir um eyðingu þeirra skv. 3. gr. samnings þessa,
     h)      eftir því sem við verður komið, stærð og staðsetningu allra klasasprengjuspilltra svæða sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir þar sem fram koma sem ítarlegastar upplýsingar um gerð og magn allra klasasprengjuleifa á hverju slíku svæði og hvenær þær voru notaðar,
     i)      stöðu og framgang áætlana um hreinsun og eyðingu klasasprengjuleifa af öllum gerðum og í hvaða magni sem er, þ.e. sem hafa verið fjarlægðar og hefur verið eytt skv. 4. gr. samnings þessa, þar sem fram kemur stærð og staðsetning þess klasasprengjuspillta svæðis sem hreinsað hefur verið, ásamt sundurliðun eftir magni hverrar gerðar klasasprengjuleifa sem hafa verið fjarlægðar og hefur verið eytt,
     j)      ráðstafanir gerðar til að veita fræðslu til að draga úr áhættu, einkum að senda út viðvaranir, tafarlaust og með skilvirkum hætti, til almennings sem býr á klasasprengjuspilltum svæðum sem lögsaga þess nær til eða það ræður yfir,
     k)      stöðu og framgang efnda skuldbindinga sinna skv. 5. gr. samnings þessa, þ.e. að viðunandi aldurs- og kynjamiðuð aðstoð sé veitt, þ.m.t. læknisaðstoð, endurhæfing og sálfræðilegur stuðningur, auk þess að stuðlað sé að félags- og efnahagslegri aðlögun fórnarlamba klasasprengna og að aflað sé áreiðanlegra gagna sem máli skipta með tilliti til fórnarlamba klasasprengna,
     l)      nafn þeirra stofnana sem hafa umboð til að miðla upplýsingum og gera þær ráðstafanir sem er lýst í þessari málsgrein og hvernig megi ná sambandi við þær,
     m)      í hve ríkum mæli innlendum tilföngum, meðal annars fjármagni, efnislegum tilföngum eða ámóta, er úthlutað til að hrinda ákvæðum 3., 4., og 5. gr. samnings þessa í framkvæmd og
     n)      umfang og eðli alþjóðlegrar samvinnu og aðstoðar skv. 6. gr. samnings þessa og hvert henni er beint.
2.     Aðildarríkin uppfæri þær upplýsingar sem eru veittar skv. 1. mgr. þessarar greinar árlega, þannig að þær lýsi almanaksárinu á undan, og leggi fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna eigi síðar en 30. apríl ár hvert.
3.     Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sendir aðildarríkjunum allar slíkar skýrslur sem veitt er viðtaka.

8. gr.
Aðstoð við að efna skuldbindingar og skýringar því viðkomandi.

1.     Aðildarríkin fallast á að hafa samráð og eiga samvinnu sín á milli um að hrinda ákvæðum samnings þessa í framkvæmd og vinna í sameiningu að því að auðvelda aðildarríkjunum að efna skuldbindingar sínar samkvæmt honum.
2.     Vilji eitt aðildarríki eða fleiri skýra vafaatriði og leita svara við spurningum sem tengjast því hvort annað aðildarríki virði ákvæði samnings þessa er því heimilt að senda hlutaðeigandi aðildarríki beiðni, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um að málið verði skýrt. Allar upplýsingar sem máli skipta skulu fylgja beiðninni. Aðildarríkin skulu ekki senda órökstuddar skýringarbeiðnir og skulu gæta þess að misnota ekki aðstöðu sína. Aðildarríki, sem fær beiðni um skýringar, skal, innan 28 daga og fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjórans, láta aðildarríkinu sem óskar skýringa í té allar upplýsingar sem að gagni geta komið við að skýra málið.
3.     Berist aðildarríkinu, sem óskar skýringa, ekki svar fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna innan fyrrnefnds frests, eða telji það svarið við skýringarbeiðninni ófullnægjandi, er því heimilt að beina málinu til næsta fundar aðildarríkjanna fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjórans. Aðalframkvæmdastjórinn skal framsenda öllum aðildarríkjunum málið, ásamt öllum viðeigandi upplýsingum sem lúta að skýringarbeiðninni. Afhenda ber aðildarríkinu, sem fær beiðni um skýringar, allar slíkar upplýsingar og því ber réttur til andsvara.
4.     Þar til fundur aðildarríkjanna er boðaður geta öll hlutaðeigandi aðildarríki farið þess á leit við aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að hann greiði fyrir því að umbeðin skýring fáist.
5.     Hafi mál verið lagt fyrir fund aðildarríkjanna í samræmi við ákvæði 3. mgr. þessarar greinar skal fundurinn fyrst af öllu ákvarða hvort ræða beri málið nánar, með hliðsjón af öllum upplýsingum sem hlutaðeigandi aðildarríki hafa lagt fram. Ákveði fundurinn að ræða málið nánar má benda hlutaðeigandi aðildarríkjum á hvernig skýra megi frekar eða leysa það mál sem er til umfjöllunar, meðal annars með því að hefja viðeigandi málsmeðferð að þjóðarétti. Ef fyrir liggur að rekja megi umfjöllunarefnið til aðstæðna sem eru ekki á valdi þess aðildarríkis sem fær beiðni um skýringar getur fundur aðildarríkjanna mælt með viðeigandi ráðstöfunum, meðal annars þeim sem lúta að samvinnu og um getur í 6. gr. samnings þessa.
6.     Til viðbótar þeirri málsmeðferð er um getur í 2. og 5. mgr. þessarar greinar getur fundur aðildarríkjanna samþykkt aðra þá málsmeðferð eða tilteknar aðferðir til að skýra efndir skuldbindinga, meðal annars málsatvik og lausn mála þar sem ákvæði samnings þessa eru ekki virt, eftir því sem fundurinn telur við eiga.

9. gr.
Ráðstafanir á landsvísu til að hrinda ákvæðum samningsins í framkvæmd.

    Sérhvert aðildarríki skal gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og á öðrum sviðum samningi þessum til framkvæmdar, meðal annars ákveða viðurlög til þess að koma í veg fyrir og bæla niður hvers kyns aðgerðir sem aðildarríki eru óheimilar samkvæmt samningi þessum, af hálfu einstaklinga eða á yfirráðasvæði sem lögsaga þess nær til eða sem lýtur stjórn þess.

10. gr.
Lausn deilumála.

1.     Komi upp deila milli tveggja eða fleiri aðildarríkja í tengslum við túlkun eða beitingu ákvæða samnings þessa skulu hlutaðeigandi aðildarríki ráðgast sín á milli í því skyni að finna skjóta lausn á deilunni með samningaviðræðum eða öðrum friðsamlegum hætti að eigin vali, meðal annars með því að skjóta málinu til fundar aðildarríkjanna og vísa því til Alþjóðadómstólsins í Haag í samræmi við stofnsamþykkt hans.
2.     Fundur aðildarríkjanna getur stuðlað að lausn deilunnar með hverjum þeim hætti sem hann telur við eiga, meðal annars með því að bjóða fram aðstoð, skora á hlutaðeigandi aðildarríki að hefja málsmeðferð að eigin vali til lausnar deilunni og gera tillögu um tímamörk fyrir þá málsmeðferð sem samið er um.

11. gr.
Fundur aðildarríkjanna.

1.     Aðildarríkin skulu funda reglulega í því skyni að fjalla um og, ef þurfa þykir, taka ákvarðanir um öll mál sem varða beitingu eða framkvæmd samnings þessa, meðal annars:
     a)      rekstur og stöðu samnings þessa,
     b)      mál í kjölfar skýrslna sem eru lagðar fram samkvæmt ákvæðum samnings þessa,
     c)      alþjóðlega samvinnu og aðstoð skv. 6. gr. samnings þessa,
     d)      þróun tækni til að hreinsa svæði af klasasprengjuleifum,
     e)      beiðnir frá aðildarríkjunum skv. 8. og 10. gr. samnings þessa og
     f)      beiðnir frá aðildarríkjunum skv. 3. og 4. gr. samnings þessa.
2.     Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal boða fyrsta fund aðildarríkjanna innan árs frá því að samningur þessi öðlast gildi. Aðalframkvæmdastjórinn skal síðan boða fundi árlega uns fyrsta endurskoðunarráðstefnan er haldin.
3.     Heimilt er að bjóða ríkjum, sem eiga ekki aðild að samningi þessum, og Sameinuðu þjóðunum, öðrum viðkomandi alþjóðlegum samtökum eða stofnunum, svæðisbundnum stofnunum, alþjóðanefnd Rauða krossins og viðkomandi frjálsum félagasamtökum að eiga áheyrnarfulltrúa á áðurnefndum fundum í samræmi við starfsreglur sem samþykktar hafa verið.

12. gr.
Endurskoðunarráðstefnur.

1.     Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal boða til endurskoðunarráðstefnu fimm árum eftir að samningur þessi öðlast gildi. Fari eitt eða fleiri aðildarríki þess á leit skal aðalframkvæmdastjórinn boða til endurskoðunarráðstefnu á ný, að því tilskildu að minnst fimm ár líði á milli slíkra ráðstefna. Öllum ríkjum sem eru aðilar að samningi þessum skal boðið að eiga fulltrúa á sérhverri endurskoðunarráðstefnu.
2.     Á endurskoðunarráðstefnu skal:
     a)      yfirfara rekstur og stöðu samnings þessa,
     b)      fjalla um nauðsyn frekari funda aðildarríkjanna, er um getur í 2. mgr. 11. gr. samnings þessa, og hversu langur tími skuli líða milli funda og
     c)      afgreiða sendar beiðnir/skýrslur aðildarríkja, sbr. 3. og 4. gr. samnings þessa.
3.     Heimilt er að bjóða ríkjum, sem eiga ekki aðild að samningi þessum, og Sameinuðu þjóðunum, öðrum viðkomandi alþjóðlegum samtökum eða stofnunum, svæðisbundnum stofnunum, alþjóðanefnd Rauða krossins og viðkomandi frjálsum félagasamtökum að eiga áheyrnarfulltrúa á sérhverri endurskoðunarráðstefnu í samræmi við starfsreglur sem samþykktar hafa verið.

13. gr.
Breytingar.

1.     Sérhverju aðildarríki er heimilt að leggja til að gerðar verði breytingar á samningi þessum hvenær sem er eftir gildistöku hans. Tillögur að breytingum skal senda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem dreifir þeim til allra aðildarríkja og leitar álits þeirra á því hvort kalla beri saman sérstaka ráðstefnu til þess að fjalla um efni þeirra. Tilkynni meiri hluti aðildarríkjanna aðalframkvæmdastjóranum, eigi síðar en 90 dögum eftir að tillögunni er dreift, um stuðning við að fjallað verði frekar um tillöguna ber aðalframkvæmdastjóranum að boða til ráðstefnu um breytingar á samningnum sem öllum aðildarríkjum skal boðið til.
2.     Heimilt er að bjóða ríkjum, sem eiga ekki aðild að samningi þessum, og Sameinuðu þjóðunum, öðrum viðkomandi alþjóðlegum samtökum eða stofnunum, svæðisbundnum stofnunum, alþjóðanefnd Rauða krossins og viðkomandi frjálsum félagasamtökum að eiga áheyrnarfulltrúa á sérhverri ráðstefnu um breytingar á samningnum í samræmi við starfsreglur sem samþykktar hafa verið.
3.     Halda ber ráðstefnuna um breytingar strax eftir fund aðildarríkjanna eða endurskoðunarráðstefnu, nema meiri hluti aðildarríkjanna æski þess að hún verði haldin fyrr.
4.     Breytingar á samningi þessum skal samþykkja með tveimur þriðju hlutum þeirra aðildarríkja sem eiga fulltrúa á ráðstefnunni um breytingar og atkvæði greiða. Vörsluaðilinn skal tilkynna aðildarríkjunum um allar breytingar sem eru samþykktar með þessum hætti.
5.     Breyting á samningi þessum öðlast gildi gagnvart þeim aðildarríkjum sem hafa staðfest breytinguna þann dag þegar meiri hluti þeirra ríkja sem voru aðilar að samningnum þegar breytingin var samþykkt hefur afhent staðfestingarskjöl sín til vörslu. Eftir það öðlast breytingin gildi gagnvart öðrum aðildarríkjum þann dag þegar staðfestingarskjöl þeirra eru afhent til vörslu.

14. gr.
Kostnaður og stjórnsýsla.

1.     Aðildarríkin skulu, ásamt þeim ríkjum sem ekki eiga aðild að samningi þessum en taka þátt í fundum og ráðstefnum honum tengdum, bera kostnað af fundum aðildarríkjanna, endurskoðunarráðstefnum og ráðstefnum um breytingar samkvæmt mælikvarða Sameinuðu þjóðanna með viðeigandi leiðréttingum.
2.     Aðildarríkin skulu bera útlagðan kostnað aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skv. 7. og 8. gr. samnings þessa samkvæmt mælikvarða Sameinuðu þjóðanna með viðeigandi leiðréttingum.
3.     Stjórnsýsla aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem honum er falin samkvæmt samningi þessum, er með fyrirvara um viðeigandi umboð frá Sameinuðu þjóðunum.

15. gr.
Undirritun.

    Samningur þessi, sem er gerður í Dyflinni hinn 30. maí 2008, liggur frammi til undirritunar í Ósló af hálfu allra ríkja hinn 3. desember 2008 og eftir það í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þar til hann öðlast gildi.

16. gr.
Fullgilding, staðfesting, samþykki eða aðild.

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki undirritunaraðila.
2.     Samningur þessi skal liggja frammi til aðildar fyrir öll ríki sem hafa ekki undirritað hann.
3.     Afhenda ber vörsluaðilanum skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.

17. gr.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi sjötta mánaðar eftir þann mánuð er þrítugasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild hefur verið afhent til vörslu.
2.     Að því er varðar ríki, sem afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu eftir afhendingardag þrítugasta skjalsins um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, skal samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi sjötta mánaðar eftir þann dag þegar það ríki afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.

18. gr.
Beiting til bráðabirgða.

    Hverju ríki sem er er heimilt, jafnhliða því að það fullgildir samning þennan, staðfestir hann eða samþykkir eða gerist aðili að honum, að lýsa því yfir að það muni beita 1. gr. samningsins til bráðabirgða meðan þess er beðið að hann öðlist gildi gagnvart því.

19. gr.
Fyrirvarar.

    Ekki er unnt að gera fyrirvara við greinar samnings þessa.

20. gr.
Gildistími og uppsögn.

1.     Gildistími samnings þessa er ótakmarkaður.
2.     Sérhvert aðildarríki skal í krafti fullveldis síns eiga rétt á að segja samningi þessum upp. Uppsögn skal tilkynna öllum hinum aðildarríkjunum, vörsluaðilanum og öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í uppsagnarbréfi skal skýra til fulls þær ástæður sem liggja að baki uppsögn.
3.     Uppsögn tekur fyrst gildi sex mánuðum eftir að vörsluaðili veitir uppsagnarbréfi viðtöku. Eigi aðildarríkið, sem segir samningnum upp, aðild að vopnuðum átökum í lok sex mánaða tímabilsins skal uppsögn eigi taka gildi fyrr en vopnuðum átökum lýkur.

21. gr.
Samskipti við ríki sem ekki eru aðilar að samningi þessum.

1.     Sérhvert aðildarríki skal hvetja ríki, sem eiga ekki aðild að samningi þessum, til þess að fullgilda, staðfesta eða samþykkja samning þennan eða gerast aðilar að honum með það að markmiði að fá öll ríki til að gerast aðilar að samningi þessum.
2.     Sérhvert aðildarríki skal tilkynna ríkisstjórnum allra ríkja, sem eiga ekki aðild að samningi þessum og um getur í 3. mgr. þessarar greinar, um skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum, skal kynna þær reglur sem hann setur og leggja sig fram um að ráða ríkjum, sem eiga ekki aðild að samningi þessum, frá því að nota klasasprengjur.
3.     Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. samnings þessa og í samræmi við reglur þjóðaréttar er aðildarríkjum, hermönnum þeirra og ríkisborgurum heimilt að taka þátt í hernaðarsamstarfi og hernaðaraðgerðum með ríkjum sem eiga ekki aðild að samningi þessum og kynnu að standa í aðgerðum sem aðildarríkjunum er óheimilt að gera.
4.     Ekkert í 3. mgr. þessarar greinar heimilar aðildarríki að:
     a)      þróa, framleiða eða útvega sér með öðrum hætti klasasprengjur,
     b)      safna birgðum af klasasprengjum eða yfirfæra klasasprengjur,
     c)      nota sjálft klasasprengjur eða
     d)      fara ótvírætt fram á að nota klasasprengjur í þeim tilfellum þegar það eitt ræður því hvaða hergögnum er beitt.

22. gr.
Vörsluaðili.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er hér með tilnefndur vörsluaðili samnings þessa.

23. gr.
Jafngildir textar.

    Textar samnings þessa á arabísku, kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spænsku eru jafngildir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í utanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við innanríkisráðuneytið. Það gerir Íslandi kleift að fullgilda samninginn um klasasprengjur frá 2008 með því að gera breytingu á gildandi refsilögsögu í samræmi við ákvæði hans.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Klasasprengjur eru vopn sem er dreift yfir stór svæði sem gerir þau afar ónákvæm. Margar sprengnanna springa ekki og því skapa þær hættu fyrir óbreytta borgara mörgum árum eftir að átökum lýkur. Reynslan sýnir að allar tegundir klasasprengja sem hafa verið notaðar hingað til skapa óásættanlega hættu fyrir óbreytta borgara. Mörg ríki hafa talið að klasasprengjur væru nauðsynlegur þáttur í hernaðarstefnu þeirra en stækkandi fjöldi þeirra hefur sannfærst um að slík stefna samrýmist ekki alþjóðaskuldbindingum þeirra, enda getur hún hamlað enduruppbyggingu og þróun. Þess vegna samþykktu meira en 100 ríki klasasprengjusamninginn árið 2008 sem bannar með öllu þessi vopn.
    Mörg ríki og félagasamtök hafa lengi barist gegn notkun klasasprengna, sem bitna hvað verst á óbreyttum borgurum, sem fyrr segir, sérstaklega á konum og börnum. Málið var til umræðu á ráðstefnu alþjóðasamnings um hefðbundin vopn (CCW) í Genf í nóvember 2006. Þar talaði Svíþjóð fyrir hönd 25 ríkja um að hefja skyldi undirbúning alþjóðasamnings gegn klasasprengjum. Tillagan fékkst ekki samþykkt, aðallega vegna andstöðu ríkja sem framleiða og nota klasasprengjur. Tilkynntu þá Norðmenn að þeir mundu boða til slíkrar ráðstefnu í samvinnu við Rauða krossinn. Stefnt skyldi að því að samningurinn kvæði á um bann við notkun, framleiðslu og sölu á klasasprengjum og fæli einnig í sér aðgerðir sem miðuðu að því að veita fórnarlömbum klasasprengja aðstoð og áætlanir um hreinsun á svæðum þar sem klasasprengjur er að finna. Klasasprengjur hafa verið notaðar í ríflega fjóra áratugi í 23 löndum. Árið 2007 var talið að yfir 70 ríki hefðu átt klasasprengjur og 34 ríki framleiddu slík vopn.
    Alþjóðasamtök fatlaðra (Handicap International) hafa áætlað að 400 milljónum manna stafi hætta af klasasprengjum sem hafa ekki sprungið. Síðastliðin 40 ár hafi orðið 13.000 fórnarlömb af völdum þessara vopna, þar af 98% almennir borgarar. Alþjóðasamtök kvenna (Women's International League for Peace and Freedom) hafa talið að klasasprengjur bitni af mestum þunga á konum. Gallaðar klasasprengjur ógna ekki eingöngu almennum borgurum, heldur einnig friðargæsluliðum og sprengjuleitarsveitum. Klasasprengjur hafa meðal annars verið notaðar í Afganistan, Írak, Kósóvó, Nagorno-Karabakh, Víetnam og Líbanon þar sem sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið við störf við hreinsun á klasasprengjum.
    Samningsgerðin um klasasprengjusamninginn fór fram utan vébanda Sameinuðu þjóðanna, en stærstu vopnaveldin, Bandaríkin, Rússland og Kína, voru ekki þátttakendur í henni. Hún er stundum kennd við Óslóarferlið sem hófst með ráðstefnu Norðmanna í febrúar 2007. Samningafundir voru haldnir í Líma í Perú, Vín í Austurríki, Wellington á Nýja-Sjálandi og í Dyflinni þar sem samkomulag náðist 30. maí 2008. Samningurinn var undirritaður í Ósló 3. desember 2008, meðal annars af Íslandi. Hann tók gildi 1. ágúst 2010.
    Ísland studdi gerð klasasprengjusamnings frá upphafi og tók þátt í samningaferlinu. Mannúðarsjónarmið eru meginástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld leggjast gegn notkun klasasprengna. Engar klasasprengjur eru til á Íslandi, en íslensk stjórnvöld hafa kostað hreinsun á svæðum sem eru menguð af klasasprengjum, með hreinsunaraðgerðum sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar, sem fyrr sagði. Til þess að Ísland geti fullgilt samninginn er nauðsynlegt að setja þau lög sem lögð eru til með frumvarpi þessu.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með samþykkt frumvarps þessa verða klasasprengjur bannaðar á Íslandi. Bannið tekur einnig til háttsemi sem fellur undir samninginn og íslenskir aðilar fremja erlendis, óháð því hvort klasasprengjur eru bannaðar í því landi eða ekki.

IV. Samráð og mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta er unnið í samráði við innanríkisráðuneytið, sem fyrr segir, en einnig refsiréttarnefnd. Áhrif þess innan lands verða lítil sem engin þar sem hér finnast ekki klasasprengjur. Mat á kostnaði er í fylgiskjali. Frumvarpið kemur ekki í veg fyrir að íslenskir aðilar komi að hreinsun svæða erlendis þar sem klasasprengjur finnast.

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við gerð frumvarpsins var þess gætt að það samrýmdist bæði stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum. Samningurinn um klasasprengjur verður birtur sem fylgiskjal með lögunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Þetta ákvæði tilgreinir þá háttsemi sem bönnuð er með klasasprengjusamningnum, sbr. 1. gr. samningsins.

Um 2. gr.


    Sá sem brýtur gegn boði eða banni sem mælt er fyrir um í lögunum eða reglugerð sem er sett á grundvelli þeirra skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sé brotið stórfellt varðar það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.
    Hafi brot sem vísað er til í 1. mgr. verið framið af stórfelldu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum eru refsiverðar skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Sjá nánar um lögaðila í athugasemdum við 3. gr.

Um 3. gr.


    Samkvæmt 9. gr. samningsins skal tryggja að bannákvæðum hans verði beitt gagnvart íslenskum ríkisborgurum hvort sem þeir eru staddir innan eða utan landamæra Íslands. Þannig verður t.d. hægt að gera þeim refsiábyrgð þó að þeir séu erlendis í ríki sem hefur ekki bannað klasasprengjur.
    Lögin ná einnig til íslenskra lögaðila með útibú eða starfsemi erlendis. Gildissvið laganna gagnvart erlendum lögaðilum takmarkast við athafnir þeirra hér á landi. Útlendingar eru bundnir af lögunum í samræmi við ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Um 4. gr.


    Með samþykkt þessa frumvarps verður ríkisstjórninni gert kleift að fullgilda samninginn um klasasprengjur frá 2008.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um framkvæmd samnings um klasasprengjur.

    Frumvarp þetta er lagt fram til að Ísland geti fullgilt samning um bann við framleiðslu og notkun á klasasprengjum. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að Ísland hafi frá upphafi stutt gerð samningsins og tekið þátt í samningaferlinu. Mannúðarsjónarmið séu meginástæða þess að íslensk stjórnvöld leggist gegn notkun klasasprengja. Engar klasasprengjur séu til á Íslandi en íslensk stjórnvöld hafi kostað hreinsun á svæðum sem eru menguð af klasasprengjum með hreinsunaraðgerðum sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar. Til þess að Ísland geti fullgilt samninginn sé nauðsynlegt að setja þau lög sem lögð eru til með frumvarpinu.
    Samkvæmt klasasprengjusamningnum skulu aðildarríkin, ásamt ríkjum sem ekki eiga aðild að samningnum en taka þátt í fundum og ráðstefnum honum tengdum, bera kostnað af fundum og ráðstefnum aðildarríkjanna. Aðildarríkin skulu bera útlagðan kostnað aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við ráðstafanir til að tryggja gagnsæi og aðstoð við að efna skuldbindingar og skýringar því viðkomandi. Ætla má að hlutdeild Íslands í útgjöldum við þessa þætti verði óveruleg og að hún verði látin rúmast innan núverandi útgjaldaramma utanríkisráðuneytis. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins og fullgilding samningsins hafi að öðru leyti í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð.