Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1098  —  581. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og
tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum
(undantekningar frá tryggingavernd).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Brynjar Kristjánsson og Gunnar Viðar frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, Jón Gunnar Jónsson frá Bankasýslu ríkisins, Róbert Bender og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Sigurð Guðmundsson frá Lögmannafélagi Íslands og Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur og Helgu Rut Eysteinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu.
    Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja og Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Markmið frumvarpsins er að kveða skýrt á um að innstæður í eigu fjármálafyrirtækja og fjármálafyrirtækja í slita- og gjaldþrotaskiptameðferð njóti ekki verndar innstæðutryggingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, TIF.
    Erindi barst ráðuneytinu frá TIF þar sem vakin var athygli á að sjóðurinn liti svo á að fjármálafyrirtæki í slitameðferð teldust ekki fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002 og nytu innstæður þeirra því tryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999. Jafnframt var vakin athygli ráðuneytisins á lagaóvissu um stöðu þessara innstæðna. Í 6. mgr. 9. gr. laganna er að finna upptalningu á þeim innstæðum sem ekki falla undir vernd innstæðutryggingakerfisins. Þar segir í 1. tölul. að innstæður fjármálafyrirtækja séu undanskildar tryggingavernd. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar leggur til breytingu á þessari grein með það að markmiði að eyða þeirri óvissu sem er um stöðu þessara innstæðna og taka af öll tvímæli um að fjármálafyrirtæki í slita- og gjaldþrotameðferð falli ekki undir vernd innstæðutryggingakerfisins.
    Vakin var athygli nefndarinnar á nokkrum sjónarmiðum við vinnslu málsins.
     Í fyrsta lagi tilvísun í 1. gr. frumvarpsins til innstæðna fjármálafyrirtækja í skilameðferð þar sem núgildandi lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, kveða ekki sérstaklega á um skilameðferð fjármálafyrirtækja. Í ljósi þessa leggur nefndin til að fella brott tilvísun í skilameðferð í frumvarpinu.
    Í öðru lagi var bent á tilvísun frumvarpsins til fyrirtækja sem misst hafa starfsleyfi sín sem fjármálafyrirtæki en það er t.d. ekki útilokað að slitameðferð fjármálafyrirtækja ljúki með nauðasamningum þannig að fyrirtækið haldi áfram annars konar starfsemi að lokinni slitameðferð. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að það sé ekki tilgangur frumvarpsins að undanskilja innstæður þeirra fyrirtækja tryggingavernd. Nefndin áréttar að það er megintilgangur frumvarpsins að taka á stöðu innstæðna þeirra fyrirtækja sem voru fjármálafyrirtæki en eru það ekki lengur hvernig sem slita- og gjaldþrotameðferð lauk.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Orðið „skila-“ í 1. gr. falli brott.

    Árni Páll Árnason og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. mars 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Willum Þór Þórsson. Guðmundur Steingrímsson. Steingrímur J. Sigfússon.
Sigríður Á. Andersen.