Ferill 644. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1107  —  644. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,
nr. 25/1993 , með síðari breytingum (leyfisveiting færð
til Matvælastofnunar, innleiðing reglugerða).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Matvælastofnun heimilt að leyfa innflutning á vörum þeim sem eru taldar upp í a–e-lið enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að ákvæði 1. mgr. skuli ekki gilda fyrir einstakar vörutegundir sem þar eru taldar upp ef varan sótthreinsast við tilbúning eða sérstök sótthreinsun er framkvæmd fyrir innflutning og vörunni fylgir fullnægjandi vottorð um uppruna, vinnslu og sótthreinsun sé varan frá framleiðanda utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ráðherra er heimilt að banna með reglugerð innflutning á vörum, óháð uppruna, sem hætta telst á að smitefni geti borist með og hætta telst geta stafað af varðandi heilbrigði dýra.

2. gr.

    29. gr. a laganna orðast svo:
    Heimilt er ráðherra að innleiða með reglugerð reglugerðir Evrópusambandsins um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Á undanförnum árum hefur innflutningur verið óheimill á vörum sem taldar eru upp í a–e-lið 1. mgr. 10. gr. laganna. Ráðherra hefur þó verið heimilt að veita undanþágur til innflutnings á þeim að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að fengnum meðmælum Matvælastofnunar. Umsækjendur hafa hingað til þurft að senda beiðni til ráðuneytisins og í framhaldinu hefur beiðnin verið send Matvælastofnun til umsagnar. Ráðuneytið hefur síðan gefið út leyfi til innflutnings að fengnum meðmælum stofnunarinnar. Ákvörðun um innflutningsleyfi hefur byggst á meðmælum Matvælastofnunar. Árið 2014 veitti ráðuneytið alls um 350 leyfi til innflutnings á hráu kjöti auk þess að árita um 350 aðflutningsskýrslur vegna kjötinnflutnings.
    Með hliðsjón af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið, sem samþykkt var í ríkisstjórn 24. maí 2013, er nú verið að færa allt umsóknarferlið til Matvælastofnunar. Breytingin snýr að innra skipulagi stjórnsýslunnar. Með þessum breytingum verður aðkoma ráðuneytisins óþörf auk þess sem nýja tilhögunin sparar innflytjendum tíma og fjármuni. Matvælastofnun fær ferlið til sín sem það hefur í raun haft en eftir lagabreytinguna þarf stofnunin ekki að eiga í samskiptum við ráðuneytið. Ferlið verður því kostnaðarminna fyrir bæði stjórnvöld og innflytjendur. Breytingin mun hafa í för með sér betri stjórnsýslu enda verða ákvarðanir teknar á lægra stjórnsýslustigi og því kæranlegar til ráðuneytisins. Lagabreytingin snertir fyrst og fremst Matvælastofnun og innflytjendur. Breytingin verður til hagræðingar fyrir þessa aðila og er Matvælastofnun samþykk breytingunni. Ekki var talin þörf á samráði við aðra aðila.
    Breytingin á 29. gr. a er nauðsynleg því að gildandi lagaákvæði veitir ekki heimild til ráðherra til að innleiða nýjar reglugerðir í landsrétt í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og því er þörf á að uppfæra heimildarákvæði þetta til að ráðherra hafi slíka heimild. Mælst er til þess að ákvæðið sé orðað með almennum hætti svo að ekki verði þörf á lagabreytingum í hvert sinn sem nýjar reglur um þessi mál verða settar á vettvangi Evrópusambandsins. Að öðru leyti hafa þessar breytingar ekki áhrif á stöðu laganna gagnvart stjórnarskrá eða alþjóðlegum skuldbindingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 2. gr.


    Gildandi lagaákvæði veitir ráðherra heimild til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 frá 3. október 2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis. Á þessu ári er fyrirhugað að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gildandi reglugerðir Evrópusambandsins um heilbrigðisreglur er varða aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis. Þar ber helst að nefna reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009 frá 21. október 2009 um heilbrigðisreglur er varða aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1774/2002 (reglugerð um aukaafurðir úr dýrum) og reglugerð (ESB) nr. 142/2011 um framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009 um heilbrigðisreglur, er varða aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis, og um framkvæmd tilskipunar ráðsins 97/78/EB að því er varðar tiltekin sýni og hluti sem eru undanþegin heilbrigðiseftirliti með dýrum og dýraafurðum á landamærum samkvæmt þeirri tilskipun. Auk þessara tveggja reglugerða er fjöldi reglugerða sem gera breytingar á þessum grunngerðum og bíða upptöku í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ljóst er að gildandi lagaheimild veitir ekki heimild ráðherra til handa til að innleiða þessar reglugerðir í landsrétt í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Því er þörf á að uppfæra heimildarákvæði þetta til að ráðherra hafi slíka heimild.
    Mælst er til þess að ákvæðið sé orðað með almennum hætti til að ekki verði þörf á lagabreytingu verði nýjar reglur settar um þessi mál á vettvangi Evrópusambandsins.
    Þá segir í frumvarpsgreininni að ráðherra verði heimilt að innleiða, með reglugerð, reglugerðir Evrópusambandsins. Í texta þessum er talað um reglugerðir Evrópusambandsins til þess að heimildin nái jafnt til reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins sem reglugerða framkvæmdastjórnarinnar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum (leyfisveiting færð til Matvælastofnunar, innleiðing reglugerða).

    Samkvæmt núgildandi lögum er ráðherra heimilt að veita undanþágur frá banni við innflutningi á tilteknum vörutegundum sbr. 10. gr. laganna, að fengnum meðmælum Matvælastofnunar. Umsækjendur hafa hingað til þurft að senda beiðni til ráðuneytisins og í framhaldinu hefur beiðnin verið send til Matvælastofnunar til umsagnar. Þá hefur ráðuneytið gefið út leyfi til innflutnings að fengnum meðmælum stofnunarinnar. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að leyfisveiting þessi verði alfarið færð til Matvælastofnunar með það að markmiði að gera ferlið einfaldara og skilvirkara.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð þar sem vinna við umsóknarferlið er nú þegar að langmestu leyti á hendi Matvælastofnunar.