Ferill 662. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1129  —  662. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum
(skilyrði símahlustunar og sambærilegra úrræða).

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson.


1. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. mgr. 83. gr.“ í 80. gr. laganna kemur: 83. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 83. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: og að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi.
     b.      2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þær breytingar á lögum um meðferð sakamála sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru til komnar til að mæta gagnrýni um að íslenskir dómstólar veiti nánast undantekningarlaust heimild til hlustunar og skoðunar á fjarskiptagögnum þegar óskað er eftir því. Af svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar (þskj. 547 í 116. máli) má ljóst vera að dómstólar veita heimild til hlustunar í 99,31% tilvika, sbr. töflu 1.

Tafla 1. Fjöldi beiðna um hlustun, fjöldi úrskurða og fjöldi mála þar sem heimild var veitt til símahlustunar 2009–2013 (ártal máls og ártal úrskurðar
í sama máli þurfa ekki ávallt að fara saman).

2009 2010 2011 2012 2013
Fjöldi beiðna 171 165 166 118 100
Fjöldi úrskurða 170 165 163 118 99
Fjöldi mála (málsnúmera) 41 36 25 24 19

    Af töflu 6 í sama svari má draga ályktanir af gagnsemi hlustunar eins og henni er beitt en í meiri hluta tilvika þar sem hlustun er beitt er rannsókn hætt ýmist á rannsóknar- eða ákærustigi.
Tafla 6. Fjöldi mála (málsnúmera) þar sem lögreglu var heimiluð hlustun
á árunum 2008–2013, greint eftir tegund brots (yfirflokks) og niðurstöðu.

Hætt hjá ákæruvaldi Hætt hjá lögreglu Enn til meðferðar Sakfelling Sýkna
Auðgunarbrot 7 6 6
Brenna, íkveikja 1
Brot gegn valdstjórninni 1
Efnahagsbrot 1 2 4 1
Fíkniefni 11 48 9 30 1
Hótanir 1
Kynferðisbrot 6
Manndráp og líkamsmeiðingar 1 5
Mansal 1 1 2

    Þá er einnig ljóst að rök fyrir heimild til hlustunar eru í fæstum tilvikum byggð á því að brot varði átta ára fangelsi eða meira heldur vísa þau til ríkra almannahagsmuna eins og núgildandi lög heimila. Almannahagsmunir hafa hins vegar verið túlkaðir mjög vítt sem leiðir til nær undantekningalausra úrskurða lögreglunni í vil. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gagnrýnt sambærilega venju í Moldovíu í Iordachi o.fl. gegn Moldavíu nr. 25198/02, frá 10. febrúar 2009, og lýst því yfir að hún standist ekki ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. Er þetta líka í samræmi við meðalhófskröfur sem Evrópudómstóllinn lagði upp með í dómi sínum frá 8. apríl 2014 um tilskipun Evrópusambandsins um gagnageymd í málum nr. C-293/12 og C-594/12 (Digital Rights Ireland og Seitlinger o.fl.).
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur ákvæðum XI. kafla laga um meðferð sakamála. Breytingarnar lúta að skilyrðum sem þurfa að vera uppfyllt til að lögregla geti fengið aðgang að upplýsingum um símtöl og önnur fjarskipti í þágu sakamálarannsóknar. Lagt er til að skilyrði 2. mgr. 83. gr. um að brot það sem til rannsóknar er þurfi að varða átta ára fangelsi eigi líka við um aðgang að fjarskiptaupplýsingum skv. 80. gr. en ekki eingöngu símahlustun, upptökur, myndatökur o.fl. sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. Með þessari breytingu er brostinn grundvöllur til að hafa 83. gr. í tveimur málsgreinum og er því lagt til að 1. og 2. mgr. 83. gr. verði sameinaðar. Þá er lögð til sú breyting á núgildandi 2. mgr. 83. gr. að brot sem til rannsóknar er þurfi að varða allt að átta ára fangelsi og ekki verði lengur unnt að vísa til ríkra almanna- eða einkahagsmuna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að orðin „1. mgr.“ í tilvísun til 83. gr. falli brott enda lagt til að 83. gr. verði aðeins ein málsgrein en ekki tvær eins og nú er.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að málsgreinar 83. gr. verði sameinaðar í eina málsgrein. Þá er lagt til að það verði fortakslaust skilyrði fyrir þeim rannsóknarheimildum sem um ræðir að brotið sem til rannsóknar er varði allt að átta ára fangelsi og að ekki verði lengur unnt að vísa til ríkra almanna- eða einkahagsmuna.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.