Ferill 669. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1139  —  669. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi hæstaréttardómara).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    46. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. skal tala hæstaréttardómara frá 1. september 2015 vera 10 en ekki skal skipa í embætti hæstaréttardómara sem losna eftir 31. desember 2016 fyrr en þess gerist þörf til að ná þeirri tölu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 4. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Er í því lagt til að dómurum við Hæstarétt Íslands verði fjölgað tímabundið um einn frá og með 1. september 2015. Er með þessum tillögum brugðist við því mikla álagi sem enn er á réttinum.
    Samkvæmt lögum um dómstóla skal fjöldi dómara við Hæstarétt Íslands vera níu. Með lögum nr. 12/2011 var dómurum í Hæstarétti fjölgað um þrjá. Var það gert með þeim hætti að frá og með 1. janúar 2013 skyldi ekki skipað í þau embætti dómara sem losnuðu eftir 1. janúar 2013. Voru dómarar í Hæstarétti 12 talsins frá 2011 til 2014.
    Með lögum nr. 138/2012 sem tóku gildi 1. janúar 2013 var gerð sú breyting að heimilt varð vegna anna í Hæstarétti að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum. Var það gert til að takast á við þann fjölda mála sem til meðferðar voru í Hæstarétti. Var sú heimild tímabundin og fellur hún úr gildi í árslok 2015. Í athugasemdum við frumvarpið þar sem þessar breytingar voru lagðar til er gerð grein fyrir því hvers vegna sú leið að setja varadómara í einstök mál var valin fram yfir að framlengja heimildina um fleiri fasta dómara við réttinn. Er þar tekið fram að ef fleiri dómarar yrðu skipaðir við réttinn væri hætta á að á næstu árum yrðu ekki næg verkefni fyrir þann fjölda dómara þegar það álag er fylgdi fjármálaáfallinu sem varð haustið 2008 væri að mestu gengið yfir. Þá væri þess einnig að gæta að yrði millidómstig að veruleika mundi málum sem til meðferðar væru í Hæstarétti fækka verulega. Því þótti fullnægjandi að setja varadómara í einstök mál í stað þess að fjölga skipuðum dómurum.
    Dómarar í Hæstarétti eru nú níu talsins og hefur svo verið frá því í febrúar 2014. Enn er mikið álag á Hæstarétti sökum málafjölda sem og þess að mál eru þyngri í vinnslu en áður. Málum sem eiga upphaf sitt í hruni fjármálakerfisins og afleiðingum þess er enn ekki lokið. Í ársskýrslu réttarins fyrir árið 2014 kemur fram að á síðasta ári hafi nýjum málum fjölgað frá árinu 2013. Þá kemur fram að ef tekið sé mið af meðaltali fjölda mála á árunum 2008– 2013 hafi málum á síðasta ári fjölgað um 111 mál eða 13%. Kærum í einkamálum hafi fjölgað verulega, um 96 mál, eða 33% miðað við sama mælikvarða. Þannig hafa spár um að draga mundi úr málafjölda í Hæstarétti ekki gengið eftir. Þá hefur sú tilhögun að setja varadómara í einstök mál ekki náð fullkomlega tilgangi sínum. Nauðsynlegt er því að mati réttarins að fjölga föstum dómurum um einn. Er lagt til að það sé gert á sama hátt og áður þannig að ekki verði skipað í þær stöður dómara sem losna eftir 31. desember 2016 þar til tilskildum fjölda dómara verður náð.
    Nefnd um millidómstig hefur skilað drögum að frumvarpi til breytinga á lögum um dómstóla og lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Er þar gert ráð fyrir að dómarar í Hæstarétti verði sex talsins. Frumvarpsdrögin eru nú til skoðunar en ljóst er að nokkurn tíma mun taka að innleiða millidómstig hér á landi verði slíkt frumvarp að lögum. Ekki er því að fullu ljóst hvenær hið nýja dómstig gæti tekið til starfa. Í ljósi þess mikla álags sem er á Hæstarétti og mikilvægis þess að málshraða sé haldið í skikkanlegu horfi þykir ekki óeðlilegt að fjölga dómurum um einn á þann hátt sem lagt er til í frumvarpi þessu þrátt fyrir að unnið sé að nýju fyrirkomulagi í dómskerfinu.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi hæstaréttardómara).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að dómurum í Hæstarétti Íslands verði fjölgað tímabundið úr níu í tíu frá og með 1. september 2015 til að bregðast við miklu álagi á réttinum. Heimildin er sem fyrr segir tímabundin á þann hátt að gert er ráð fyrir að hún falli niður 31. desember 2016. Þannig verði ekki skipað í embætti dómara sem losnar eftir þann tíma nema nauðsynlegt sé til að dómarar verði níu talsins. Er það sama aðferð og viðhöfð hefur verið áður við fjölgun dómara bæði í Hæstarétti og héraðsdómi. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er kostnaður við hvern hæstaréttardómara 22,1 m.kr. á ári en kostnaður vegna dómara Hæstaréttar er annars vegar greiddur af fjárlagalið 00-401 og hins vegar af 06-201.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs geti aukist tímabundið um 22,1 m.kr. vegna fjölgunar hæstaréttardómara um einn. Erfitt getur verið að meta hvenær dregur úr þessari fjárþörf því að allmörg ár getur tekið að fækka dómurum aftur í samræmi við ákvæði frumvarpsins eftir 31. desember 2016 með því einu að ráða ekki í stöður sem losna.