Ferill 674. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1144  —  674. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og lögum um loftferðir, með síðari breytingum (gjaldskrárheimildir, lagastoð fyrir EES-innleiðingu).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála,
nr. 119/2012, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um innleiðingu EES-gerða sem varða stofnun og störf Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA).
    Ráðherra er einnig heimilt að setja reglugerð um innleiðingu EES-gerða sem varða verkefni á sviði Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og stofnuninni hafa verið falin á grundvelli stofngerða hennar, sbr. 2. mgr.

2. gr.

    Við 12. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Gjald fyrir útgáfu lofthæfisskírteinis til útflutnings er helmingur gjalds fyrir fyrstu útgáfu.
    Gjald fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis loftfars sem ekki er vélknúið er 25% af gjaldi fyrir vélknúin loftför.

II. KAFLI
Breyting á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við 3. mgr. 57. gr. c laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: greiðslu kostnaðar vegna starfa samræmingarstjóra. Jafnframt færist orðið „og“ í lok g-liðar aftast í h-lið.

4. gr.

    Við 146. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem felur í sér innleiðingu EES-gerða sem varða verkefni á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) og stofnuninni hafa verið falin á grundvelli stofngerða hennar, sbr. 2. mgr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, með síðari breytingum, og lögum nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum. Breytingar þessar eiga að mestu leyti rætur að rekja þess að eftir að starfsemi nýrrar sjórnsýslustofnunar á sviði samgangna, Samgöngustofu, hófst kom í ljós að við setningu laga nr. 119/2012 höfðu verið felldar út gjaldskrárheimildir sem áður voru til staðar. Samgöngustofa sendi ráðuneytinu erindi vegna þess og óskaði eftir því að umræddum heimildum yrði komið fyrir að nýju.
    Jafnframt er gert ráð fyrir í frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um greiðslu kostnaðar af starfsemi samræmingarstjóra en það ákvæði stafar af breytingum á fyrirkomulagi úthlutunar á afgreiðslutímum eftir athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að veita ráðherra heimild til að setja reglugerðir um innleiðingu á reglugerðum sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og varða starfsemi og verkefni Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA, og Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, EMSA.
    Drög að frumvarpi þessu voru kynnt á vef ráðuneytisins og hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum veitt tækifæri að veita umsögn um þau en engar athugasemdir bárust.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Um er að ræða efnislega sambærilegt ákvæði og var áður í 8. gr. laga um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, sbr. 2. gr. laga nr. 29/2003. Við setningu laga nr. 119/2012 féll heimild ráðherra út en ljóst er að á grundvelli EES-samningsins hafa íslensk stjórnvöld undirgengist að innleiða gerðir er varða stofnun og verkefni Siglingaöryggisstofnunar Evrópu. Um Siglingaöryggisstofnun Evrópu og verkefni hennar, auk aðkomu íslenskra sérfræðinga að stofnuninni, var fjallað í frumvarpi því er varð að lögum nr. 29/2003, sjá þingskjal 884 í 539. máli á 128. löggjafarþingi 2002–2003.

Um 2. gr.


    Við gildistöku laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, féllu brott tvær gjaldskrárheimildir sem var að finna í 9. gr. laga nr. 100/2006, um Flugmálastjórn Íslands, sbr. 1. gr. laga nr. 171/2006. Í tengslum við endurskoðun Samgöngustofu á gjaldskrám hennar sendi stofnunin ráðuneytinu erindi þar sem óskað var eftir því að bætt yrði að nýju við þeim gjaldskrárheimildum sem féllu brott. Er það lagt til hér en um er að ræða gjaldskrárheimildir útgáfu lofthæfisskírteinis til útflutnings og fyrir útgáfu fyrsta lofthæfisskírteinis loftfars sem ekki er vélknúið.
    Lofthæfisskírteini til útflutnings er veitt að beiðni flugrekanda sem hyggst flytja loftfar úr landi. Slíkt felur í sér talsverða vinnu fyrir Samgöngustofu og getur jafnframt kallað á að senda þurfi starfsmenn stofnunarinnar úr landi þar sem íslenskir flugrekendur halda úti starfsemi víða um heim á grundvelli íslenskra flugrekstrarskírteina. Umrædd skírteini eru valkvæð en algengt er að flugrekendur sem leigja loftför eða selja úr landi semji um að skila loftfari, eða afhenda til kaupanda, með slíku skírteini.
    Varðandi útgáfu lofthæfisskírteina loftfara sem ekki eru vélknúin er það að segja að óvélknúin loftför eru fyrst og fremst notuð í grasrótarstarfi hér á landi og því yrði mjög íþyngjandi að innheimta gjald fyrir slíkt skírteini á grundvelli útseldrar vinnu Samgöngustofu. Er því talið rétt að bæta við þeirri heimild að nýju sem lögð er til skv. 2. mgr.

Um 3. gr.


    Á grundvelli reglugerðar ráðsins (EB) nr. 95/93, um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum, ber aðildarríkjum að tryggja sjálfstæði samræmingarstjóra þegar flugvöllur hefur verið tilnefndur sem flugvöllur með takmarkaða afkastagetu. Eftir athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA varðandi stöðu og sjálfstæði samræmingarstjóra hér á landi var ábyrgð á samræmingarstjóra færð í hendur Samgöngustofu. Með þessu ákvæði er lagt til að ráðherra sé heimilt að mæla fyrir um greiðslu kostnaðar vegna starfa samræmingarstjóra með reglugerð. Þar sem ákvæðið er afmarkað við kostnað sem leiðir af störfum samræmingarstjóra mun ákvæðið ekki hafa í för með sér aukinn kostnað umfram þann kostnað sem rekstraraðili flugvallar bar af því fyrirkomulagi sem í gildi var í tíð eldri reglugerðar nr. 1050/2008, sem innleiddi ákvæði reglugerðar (EB) nr. 95/93. Þá er með heimild ráðherra tryggður nægjanlegur sveigjanleiki til að gera breytingar á fyrirkomulagi greiðslu kostnaðar ef þurfa þykir.

Um 4. gr.


    Ísland hefur undirgengist á grundvelli EES-samningsins að innleiða þær reglugerðir sem varða stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA. Ljóst er að á grundvelli reglugerðar um stofnun EASA er framkvæmdastjórninni falið að setja reglugerðir um nánar tilgreind verkefni stofnunarinnar og framkvæmd þeirra. Er því rétt að setja inn sérstaka heimild til handa ráðherra til að innleiða reglugerðir er varða verkefni sem EASA eru falin á grundvelli stofngerðar um stofnunina. Er því lagt til með þessu ákvæði að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um innleiðingu EES-gerða er varða verkefni EASA. Heimild ráðherra takmarkast við að innleiða reglugerðir sem varða verkefni sem rúmast innan reglugerðar um stofnun EASA, sbr. 2. mgr., og teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og lögum um loftferðir, með síðari breytingum (gjaldskrárheimildir, lagastoð fyrir EES-innleiðingu).

    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að lögfestar verði að nýju gjaldskrárheimildir sem áður var að finna í 9. gr. laga nr. 100/2006, um Flugmálastjórn Íslands. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins féllu gjaldskrárheimildirnar út fyrir mistök þegar gjaldskrárheimildir þeirra stofnana sem sameinaðar voru í Samgöngustofu voru sameinaðar með lögum nr. 119/2012. Annars vegar er um að ræða gjald fyrir útgáfu lofthæfisskírteina til útflutnings sem nema skal helmingi gjalds fyrir fyrstu útgáfu. Hins vegar er um að ræða gjald fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis loftfars sem ekki er vélknúið og skal nema 25% af gjaldi fyrir vélknúin loftför. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er ekki um verulegar tekjur að ræða en á árunum 2010–2012 námu árlegar tekjur Samgöngustofu af gjöldunum um 0,5–3 m.kr. en tekjurnar flokkast sem skatttekjur ríkissjóðs.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um greiðslu kostnaðar af starfsemi samræmingarstjóra en það ákvæði stafar af breytingum á fyrirkomulagi úthlutunar á afgreiðslutímum eftir athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA. Sá kostnaður var áður greiddur beint af rekstraraðila flugvallar, þ.e. Isavia, sem jafnframt bar ábyrgð á gerð samnings við samræmingarstjóra á grundvelli reglugerðar þar um. Reglugerð þessi var síðan felld úr gildi eftir athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA eins og áður segir og var Samgöngustofu falið, með nýrri reglugerð, að gera samning við samræmingarstjóra á tilnefndum flugvöllum. Isavia hefur þannig greitt kostnað samræmingarstjóra beint en með nýrri reglugerð er samningssamband flutt til Samgöngustofu sem endurheimtir síðan kostnaðinn frá Isavia. Er því með ákvæðinu verið að renna styrkari stoð undir núverandi fyrirkomulag. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur kostnaður Isavia vegna þessa verið um 7–8 m.kr. á ári að meðtöldum ferðakostnaði.
    Jafnframt er að finna í frumvarpinu ákvæði er snúa að heimildum ráðherra til að innleiða reglugerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og varða starfsemi Flugöryggisstofnunar Evrópu og reglugerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og varða stofnun og verkefni Siglingaöryggisstofnunar Evrópu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það eigi að hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.