Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1145  —  675. mál.
Viðbót.
Tillaga til þingsályktunar


um viðurkenningu á þjóðarmorði á Armenum.


Flm.: Halldóra Mogensen, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal,
Óttarr Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að það viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–17 og virði minningu þeirra Armena sem urðu fórnarlömb þess glæps.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 141. löggjafarþingi (187. mál) og 140. löggjafarþingi (730. mál) en hefur ekki verið útrædd.
    Fyrir 100 árum eða hinn 24. apríl 1915 hófst fyrsta þjóðarmorð 20. aldar. Á þessum degi ár hvert minnast Armenar voðaverka Tyrkja sem framin voru á árunum 1915 til 1917. Árið 1948 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 260 um sáttmálann um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð. Í sáttmálanum felst fordæming á þjóðarmorðum og skyldur gagnvart ríkjum til að refsa fyrir þau. Sáttmálinn skilgreinir þjóðarmorð sem einhvern eftirtalinna verknaða sem framdir eru í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki, sem slíkum:
     a.      að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi;
     b.      að valda einstaklingum úr viðkomandi hópi alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða;
     c.      að þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins eða hluta hans;
     d.      að beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum;
     e.      að flytja börn með valdi úr hópnum til annars hóps.
    Undir lok 19. aldar stóð Ottómanaveldið höllum fæti. Armenar innan þess höfðu lengi þráð sjálfstjórn og margir töldu að þeir gætu sóst eftir sjálfstæði með frekari veikingu Ottómanaveldisins. Árið 1894 gerðu Armenar uppreisn gegn Tyrkjum sem barin var niður af mikilli hörku og í kjölfarið varð útskúfun hinna kristnu Armena að meðvitaðri pólitískri stefnu. Á árunum 1894–1897 voru tugþúsundir Armena teknar af lífi vegna þjóðernis síns og trúarskoðana. Tölum ber ekki saman; þær tyrknesku segja að um 20–30 þúsundir hafi látist en þær armensku að nær 300 þúsundir hafi týnt lífi. Þetta var þó aðeins forleikurinn.
    Ungtyrkir náðu völdum árið 1908 með stuðningi Armena enda börðust þeir gegn soldáninum og fyrir breyttum stjórnarháttum. Fljótlega klofnaði hópurinn þó og sá hluti (Committee of Union and Progress) sem vildi að Ottómanaveldið væri aðeins fyrir Tyrki og múslima náði völdum. Útrýma skyldi minnihlutahópum sem stóðu í vegi fyrir altyrknesku ríki. Í fyrri heimsstyrjöldinni gafst færi til aðgerða sem miðuðu að því að fækka þeim í ríkinu.
    Opinberlega byggðust aðgerðirnar á þvinguðum fólksflutningum hinna óæskilegu, ekki síst Armena sem hvorki voru tilbúnir til að gefa upp trú sína né menningu, til arabahéraðanna en hið raunverulega markmið var að drepa sem flesta. Aðgerðirnar fólu m.a. í sér pyntingar og aftökur, auk þess sem fólkið var rekið fótgangandi langar vegalengdir, um þúsund kílómetra, með þeim afleiðingum að margir létust eða hlutu örkuml. Algengt var að aldraðir og veikir væru drepnir á leiðinni því þeir hægðu á hópunum og líkin lágu meðfram vegum Anatólíu mánuðum saman. Þeim sem lifðu var komið fyrir í stórum útrýmingarbúðum – fáir lifðu þær af. Fólk var einnig skilið eftir matar- og vatnslaust í eyðimörkinni. Ekki eru vitað með vissu hve margir týndu lífi en talið er að tala þeirra liggi á bilinu 600.000–1.500.000 manna.
    Þrátt fyrir að þessir atburðir uppfylli skilgreiningu sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1948 á þjóðarmorði og hafi verið kallaðir fyrsta þjóðarmorð 20. aldar hefur það reynst Armenum erfitt að öðlast viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á þeim sem slíkum. Vegur þar þyngst að Tyrkir hafa ekki viðurkennt þau sem þjóðarmorð, enn er viðvarandi ágreiningur á milli tyrknesku og armensku þjóðanna og auk þess hafa margar þjóðir ekki viljað styggja Tyrki.
    Þó hafa um 20 þjóðir samþykkt ályktanir sem viðurkenna að þjóðarmorðið hafi átt sér stað, mörg fylki Bandaríkjanna, Evrópuþingið og þing Evrópuráðsins, þá hefur atburðunum verið lýst sem þjóðarmorði í skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn mismunun og verndun minnihlutahópa frá 1985.
    Áhrif þjóðarmorðsins á Armenum eru ekki bundin við hina eiginlegu atburði. Sem dæmi má nefna að fræðimenn hafa leitt að því líkur að hópmorðið á Armenum, og það refsileysi sem gerendur þess nutu í kjölfar þess, hafi haft áhrif þegar kom að framkvæmd þjóðarmorða og annarra voðaverka af hálfu þriðja ríkisins.
    Það er gríðarlega mikilvægt að heimsbyggðin viðurkenni þau voðaverk sem framin voru á armensku þjóðinni sem þjóðarmorð. Þótt langt sé um liðið var þetta glæpur gegn mannkyni – gegn okkur öllum. Þau voðaverk sem framin eru í öllu hernaðarbrölti heimsins, í nútíð og framtíð, byggjast nefnilega á því sem áður hefur verið gert. Það er löngu tímabært að Ísland viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–17 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni.

Viðauki:
    Eftirfarandi alþjóðastofnanir hafa þegar viðurkennt þjóðarmorðið á Armenum:
          2. júlí 1985    Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn mismunun og verndun minnihlutahópa birti skýrslu þar sem fjöldamorðunum á Armenum er lýst sem hópmorði
          8. júní 1987    Evrópuþingið
          24. apríl 1998    Evrópuráðið
          19. nóvember 2007    Þing Mercosur, viðskiptabandalags Suður-Ameríku

    Ríki sem hafa viðurkennt þjóðarmorðið á Armenum:
          20. apríl 1965    Úrúgvæ
          29. apríl 1982    Kýpur
          14. apríl 1995    Rússland
          25. apríl 1996    Grikkland
          26. mars 1998    Belgía
          11. maí 2000    Líbanon
          10. nóvember 2000    Vatíkanið
          17. nóvember 2000    Ítalía
          29. janúar 2001    Frakkland
          13. júní 2002    Kanada
          16. desember 2003    Sviss
          31. mars 2004    Argentína
          30. nóvember 2004    Slóvakía
          21. desember 2004    Holland
          19. apríl 2005    Pólland
          14. júlí 2005    Venesúela
          15. desember 2005    Litháen
          5. júní 2007    Síle
          11. mars 2010    Svíþjóð
          26. mars 2014     Bólivía