Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
2. uppprentun.

Þingskjal 1157  —  430. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrotamála o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Ragnhildi Hjaltadóttur, Þórunni J. Hafstein, Hinriku Söndru Ingimundardóttur, Arn­heiði Ingjaldsdóttur og Valgerði Maríu Sigurðardóttur frá innanríkisráðuneyti, Sigurð Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Reimar Pétursson frá Lögmannafélagi Íslands, Skúla Magnússon og Kolbrúnu Sævarsdóttur frá Dómarafélagi Íslands, Höllu Bergþóru Björnsdóttur frá Lögreglustjórafélagi Íslands, Ólaf Þór Hauksson og Björn Þorvaldsson frá embætti sérstaks saksóknara, Sigríði Friðjónsdóttur og Helga Magnús Gunnarsson frá ríkissaksóknara, Pál Heiðar Halldórsson og Björn Halldórsson frá ríkislögreglustjóra, Ólaf Helga Kjartansson frá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum, Sigríði Björk Guðjónsdóttur og Jón H. B. Snorrason frá lögreglustjóraembættinu á höfuð­borgar­svæðinu og Jónu Björk Guðnadóttur og Guðmund Ingólfsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Lögmannafélagi Íslands, lögreglunni á höfuð­borgar­svæðinu, lögreglunni á Suðurnesjum, Lögreglustjórafélagi Íslands, Persónuvernd, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Samtökum fjármálafyrirtækja og embætti sérstaks saksóknara.
    Megintilgangur frumvarpsins er annars vegar að ákvörðun um málshöfðun flytjist að mestu frá embætti ríkissaksóknara til lögreglustjóra og héraðssaksóknara og hins vegar að verkefni embættis sérstaks saksóknara flytjist til héraðssaksóknara. Þá felst í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að áfram verði tveggja þrepa ákæruvald hér á landi en ekki þriggja eins og gert var ráð fyrir í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Æðsti handhafi ákæruvalds verður ríkissaksóknari en embætti héraðssaksóknara verður saksóknar- og lögregluembætti á lægra ákæruvaldsstigi. Embætti héraðssaksóknara mun annast þau verkefni á sviði rannsóknar og ákærumeðferðar efnahagsbrota sem embætti sérstaks saksóknara annast nú, auk viðbótarrannsókna sem þörf er á í málum frá embætti skattrannsóknarstjóra. Gert er ráð fyrir að héraðssaksóknari annist móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að þetta verkefni verði flutt frá peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að eitt af verkefnum héraðssaksóknara verði að vinna að endurheimt og upptöku ólögmæts ávinnings af hvers kyns refsiverðri háttsemi í tengslum við lögreglu­rannsóknir við embætti hans og önnur lögregluembætti. Gert er ráð fyrir að verkefni ríkissaksóknara við stjórn rannsókna á kærum vegna meintrar refsiverðrar háttsemi starfsmanna lögreglu verði fært til héraðssaksóknara og verkefni sem snúa að rannsóknum á brotum gegn valdstjórninni verði færð frá almennu lögregluembættunum til embættis héraðssaksóknara.

Lögreglu­rannsóknir.
    Í 25. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 8. gr. lögreglulaga. Í 1. mgr. a-liðar er kveðið á um að lögregla annist rannsókn brota undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra. Ekki er um efnislega breytingu að ræða á ákvæðinu. Í ákvæðinu segir jafnframt að ráðherra setji samkvæmt tillögu ríkissaksóknara nánari reglur um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn sakamála. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að gera þyrfti skýrari grein fyrir samvinnu milli héraðssaksóknara og lögreglustjóra, svo sem heimildum héraðssaksóknara og lögreglustjóra til framsendinga mála á milli embætta. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingar á ákvæðinu.
    Í 3. mgr. a-liðar 25. gr. frumvarpsins er kveðið á um að það verði verkefni héraðssaksóknara að annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í umsögn ríkislögreglustjóra var bent á það að í frumvarpinu væri hvorki með skýrum hætti gert ráð fyrir úrvinnslu slíkra tilkynninga, né eftir atvikum miðlun upplýsinga til annarra þar til bærra yfirvalda. Var vísað til tilskipana Evrópusambandsins um peningaþvætti og tilmæla frá alþjóðlegum framkvæmdahópi, Financial Action Task Force (FATF), sem eru alþjóðleg og leiðandi viðmið um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun brotastarfsemi. Einnig var bent á hvernig grundvallarverkefni peningaþvættisskrifstofa hafa verið flokkuð á þrennan hátt, þ.e. í móttöku peningaþvættistilkynninga, greiningu þeirra og miðlun. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram komu um að peningaþvættisskrifstofur séu í raun greiningardeildir á afmörkuðu sviði og þeim þurfi því að búa ákveðin starfsskilyrði. Meiri hlutinn tekur undir þær ábendingar að skilgreina megi betur hlutverk fyrirhugaðrar peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara og leggur til breytingar því að lútandi. Þessu tengt var bent á að gera þyrfti sambærilegar breytingar á 1. mgr. 17. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, en þar er kveðið á um að tilkynningarskyldum aðilum sé skylt að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti og fyrirhuguð viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka og tilkynna lögreglu um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi. Meiri hlutinn bendir á að í ákvæðinu er mælt fyrir um tilkynningar til lögreglu. Við embætti héraðssaksóknara verða lögreglu­rannsóknir, m.a. á sviði skatta og efnahagsbrota, og embættið því ótvírætt lögregluembætti. Meiri hlutinn telur því ekki þörf á því að gera breytingar á 17. gr. laga nr. 64/2006.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var bent á að nauðsynlegt væri að kveða á um aðskilnað milli þeirra starfsmanna héraðssaksóknara sem vinna við móttöku, greiningu og rannsókn tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og annarra starfsmanna embættisins, áður en slíkar tilkynningar hafa verið metnar og sendar formlega til rannsóknar vegna ætlaðra refsilagabrota. Meiri hlutinn bendir á að í 2. mgr. a-liðar 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins er héraðssaksóknara m.a. falin sömu verkefni og sérstökum saksóknara hafa verið falin með 1. gr. laga nr. 135/2008, um sérstakan saksóknara. Ekki eru því gerðar neinar breytingar í þeim efnum, þ.e. verkefni fyrirhugaðs embættis héraðssaksóknara á sviði rannsókna skatta- og efnahagsbrota verða hin sömu og eru nú á höndum embættis sérstaks saksóknara eftir að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra var flutt til þess embættis á árinu 2011. Héraðssaksóknari mun því taka við þeim verkefnum á sviði skatta- og efnahagsbrota sem sérstakur saksóknari hefur borið ábyrgð á síðastliðin ár. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu á fyrirkomulagi rannsókna í skattamálum. Eftir sem áður hefjast rannsóknir í skattamálum að jafnaði hjá skattrannsóknarstjóra. Nú er framkvæmdin þannig að ef grunur vaknar um skattalagabrot við rannsókn efnahagsbrotamáls hjá embætti sérstaks saksóknara þá sendir það embætti málið til skattrannsóknarstjóra. Að lokinni rannsókn skattrannsóknarstjóra er máli ýmist lokið með sektargerð hjá því embætti eða málið er sent til yfirskattanefndar til ákvörðunar um sekt. Ef um er að ræða meiri háttar skattalagabrot er málið sent til embættis sérstaks saksóknara sem tekur málið til frekari rannsóknar ef þurfa þykir og tekur ákvörðun um hvort gefa eigi út ákæru. Nokkur samvinna er á milli embættanna. Sú framkvæmd sem hefur verið viðhöfð síðastliðin ár á sviði skatta- og efnahagsbrotarannsókna hefur reynst nokkuð vel og við vinnslu frumvarpsins var ekki talin þörf á að breyta frekar þeirri framkvæmd að svo stöddu. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið.
    Við rannsókn skattalagabrota vakna iðulega grunsemdir um annars konar refsiverða háttsemi, svo sem efnahagsbrot. Á sama hátt vakna iðulega grunsemdir um skattalagabrot við rannsókn efnahagsbrota. Auðgunarbrot og skattalagabrot eru hvoru tveggja hagnaðarbrot og oft getur verið örðugt að afmarka hvort í háttsemi felist fremur auðgunarbrot en skattalagabrot. Meiri hlutinn telur með öllu útilokað að setja girðingar á milli rannsókna skattalagabrota og efnahagsbrota enda verður ekki séð hvaða ástæða væri til þess þar sem um getur verið að ræða samtengda brotastarfsemi og nauðsynlegt getur verið fyrir rannsakendur að skoða heildarmyndina fremur en að skoða aðskilið mismunandi þætti, en það getur að auki leitt til réttarspjalla fyrir grunaðan mann sem þarf að sæta tveimur óháðum rannsóknum vegna sömu eða tengdrar háttsemi. Meiri hlutinn bendir hins vegar á að lögregla og skattrannsóknarstjóri þurfa að gæta að því að þær heimildir sem skattrannsóknarstjóri hefur og lögregla hefur ekki séu ekki nýttar ein­göngu í þágu efnahagsbrotarannsókna sem ekki tengjast skattalagabrotum. Ekkert er hins vegar því til fyrirstöðu að gögn sem skattrannsóknarstjóri hefur aflað með lögmætum hætti í þágu rannsóknar skattalagabrots verði síðar nýtt sem sönnunargögn í efnahagsbrotamáli, að því gefnu að heimildir skattyfirvalda hafi ekki verið misnotaðar til að afla slíkra gagna. Sem fyrr segir hefur frumvarpið engar breytingar í för með sér á samspili skattrannsóknarstjóra og lögreglu varðandi rannsóknir skattamála frá því sem nú er.

Handhafar lögregluvalds.
    Í 26. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði sem kveður á um handhafa lögregluvalds. Þar sem embætti héraðssaksóknara er ætlað að annast rannsókn sakamála þykir nauðsynlegt að lögreglumenn við embættið og löglærðir starfsmenn þess fari með lögregluvald. Með frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, verði breytt til samræmis við það. Meiri hlutinn bendir á að í lögum er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu lögregluvald. Í athugasemdum við 9. gr. lögreglulaga kemur fram að fræðilega er lögregluvald ein teg­und opinbers valds sem stjórnvöld fara með. Nánar telst lögregluvald til réttarvörsluvalds, eins og fullnustuvald sýslumanna, enda felst í hvoru tveggja valdbeitingarheimild ef þörf krefur. Með „lögregluvaldi“ er nánar átt við vald sem lögreglunni einni er falið til að gefa fyrirskipanir og til að grípa til aðgerða gagnvart þegnunum, með valdbeitingu ef nauðsynlegt er. Slíkt vald hafa aðeins þeir starfsmenn lögreglu sem beinlínis hafa það hlutverk að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu frá degi til dags og þeir sem eru í stöðum æðstu yfirmanna, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Rétt er að taka fram að ákvæðið felur í sér að lögregluvald fylgir aðeins nánar tilgreindum störfum innan lögreglunnar.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að ákærendur eigi almennt ekki að fara með lögregluvald. Bent var á það mikilvæga hlutverk ákærenda að fara yfir lögmæti lögreglurannsókna og lögregluaðgerða og fylgjast með því hvernig lögregla virðir mannréttindareglur. Af þeim sökum væri ekki nauðsynlegt, né æskilegt, að ákærendur/löglærðir starfsmenn héraðssaksóknara og lögreglustjóra hefðu lögregluvald og tækju þátt í lögregluaðgerðum, eins og húsleit eða handtöku. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Meiri hlutinn bendir á að saksóknurum, lögreglumönnum og löglærðum starfsmönnum sérstaks saksóknara við embættið var falið lögregluvald með 2. gr. laga nr. 80/2009, um breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, með síðari breytingum, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er ekki vikið frá þeirri skipan. Rök fyrir því að löglærðir fulltrúar lögreglustjóra fari með lögregluvald hafa m.a. verið að margir hverjir löglærðir fulltrúar lögreglustjóra hafa þau verkefni að stjórna, skipuleggja og aðstoða við rannsókn mála og vinna því náið með lögreglu við rannsókn. Af þeim sökum hefur verið talið mikilvægt að þeir fari með lögregluvald. Þá hefur verið talið mikilvægt við minni lögregluembætti að löglærðir fulltrúar fari með lögregluvald.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að þverfagleg teymisvinna við rannsókn efnahagsbrota hafi gefist afar vel. Reynslan hefur sýnt að við rannsókn flókinna brota, eins og efnahagsbrota, þá er til þess fallið að auka skilvirkni að ákærandi fylgist með rannsókn frá upphafi og taki þátt í afmörkun sakarefna og ákvörðunum um framgang rannsóknar og rannsóknaraðgerðir. Það er mat meiri hlutans að erfitt sé að sjá fullnægjandi rök fyrir því að löglærðir starfsmenn sem komi að slíkum ákæruvaldsverkefnum á rannsóknarstigi hafi ekki lögregluvald.

Kærur á hendur lögreglu.
    Í 28. gr. frumvarpsins er lagt til að héraðssaksóknara verði falið það verkefni ríkissaksóknara skv. 35. gr. lögreglulaga, að taka við kæru um refsivert brot starfsmanns lögreglu við framkvæmd starfa hans og fara með rannsókn málsins. Ákvarðanir héraðssaksóknara í slíkum málum verða þá kæranlegar til ríkissaksóknara með sama hætti og aðrar ákvarðanir héraðssaksóknara og lögreglustjóra. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þau sjónarmið að brýnt væri að koma á virku eftirliti með störfum lögreglu og fyrirkomulagi málsmeðferðar þegar borgararnir telja að lögreglan hafi ekki fylgt réttum reglum í störfum sínum og samskiptum. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Innra eftirlit lögreglu í víðasta skilningi er þríþætt. Í fyrsta lagi er eftirlit lögreglunnar sjálfrar, þ.e. ríkislögreglustjóra og yfirmanna lögregluembætta á framkvæmd lögreglustarfa. Í öðru lagi er meðferð kæra á hendur starfsmönnum lögreglu um refsiverða háttsemi í starfi og í þriðja lagi meðferð kvartana á hendur lögreglu vegna framkvæmdar einstakra starfa eða starfshátta lögreglu almennt. Í frumvarpinu er tekið á einum af þessum þáttum, þ.e. að það verkefni ríkissaksóknara skv. 35. gr. lögreglulaga að annast rannsókn á brotum starfsmanna lögreglu færist til héraðssaksóknara nema starfsmenn þess embættis eigi í hlut. Það er mat nefndarinnar að vegna eðlis lögreglustarfa sé þörfin fyrir virkt eftirlit með starfsemi lögreglunnar enn ríkari en ella. Meiri hlutinn bendir á að 30. desember 2013 sendi umboðsmaður Alþingis innanríkisráðherra, sem æðsta yfirmanni lögreglu í landinu, bréf þar sem komið er á framfæri ábendingum er lúta að eftirliti með störfum lögreglu. Í janúar sl. skipaði innanríkisráðherra nefnd um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Nefndinni er falið að leggja mat á núverandi kerfi og lagareglur og gera tillögur að breyttu verklagi og lagabreytingum, eftir því sem við á. Þá er nefndinni falið það hlutverk að gera tillögu að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem felst í móttöku og afgreiðslu kvartana og kæra vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni vegna athugasemda ríkissaksóknara við störf lögreglu og eftir atvikum frumkvæðiseftirlit með störfum lögreglu. Þá ber nefndinni einnig að horfa til þess hvernig þessum málum er háttað hjá nágrannaríkjum okkar. Meiri hlutinn fagnar því að umrætt ákvæði sé til skoðunar og áréttar mikilvægi þess að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er.

Fjárhagsleg áhrif.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram athugasemdir við kostnaðarmat skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á breytingum á skipan ákæruvaldsins samkvæmt frumvarpinu. Það var álit nokkurra umsagnaraðila að frekari fjárheimildir þyrftu að koma til, m.a. vegna þess að lögreglustjórum verði falið að höfða sakamál vegna fleiri brota en þeir gera nú og að mikil málahalli væri hjá embætti ríkissaksóknara en embættið hefði ekki um langa hríð verið í stakk búið að sinna stórum og brýnum verkefnum sökum mannfæðar og fjárskorts. Einnig kom fram að miklu máli skipti að nýju embætti héraðssaksóknara væru tryggð nægileg úrræði og nægur mannskapur með sem mesta þekkingu og reynslu af rannsóknum og saksókn í skattalaga- og efnahagsbrotamálum, og í þeim verkefnaflokkum sem flytjast til embættisins þannig að framgangur mála yrði innan hæfilegs málsmeðferðartíma.
    Nefndin fjallaði um málið og bendir meiri hlutinn á að sú fjárveiting sem embætti sérstaks saksóknara er ætluð á árinu 2015 mun einungis standa undir óhjákvæmilegum rekstri embættisins þar til það verður lagt niður 1. júlí 2015 er nýtt embætti héraðssaksóknara tekur til starfa. Nauðsynlegt er að hinu nýja embætti verði tryggðar fullnægjandi fjárheimildir frá gildistöku laganna 1. júlí og til ársloka. Í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að ekki liggur fyrir heildstæð greining og rekstraráætlun um starfsemi embættis héraðssaksóknara af hálfu innanríkisráðuneytisins en samkvæmt lauslegri áætlun er gert ráð fyrir að kostn­aður við rekstur embættisins verði um 750 millj. kr. á ári. Með hliðsjón af afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015, þeirra fjárheimilda sem koma frá öðrum stofnunum og að teknu tilliti til varanlegra og tímabundinna fjárheimilda sérstaks saksóknara á árinu 2015 er viðbótarfjárþörf nýs embættis héraðssaksóknara frá 1. júlí 2015 nú metin á 325 millj. kr.
    Meiri hlutinn bendir á að meginefni frumvarpsins er m.a. að ákvörðun um málshöfðun mun flytjast að mestu frá embætti ríkissaksóknara til lögreglustjóra og héraðssaksóknara og sömuleiðis rannsókn á meintum brotum starfsmanna lögreglu. Ljóst er að þessi verkefni eru afar stór hluti af verkefnum ríkissaksóknara. Á hinn bóginn verður að líta til þess að verði frumvarpið að lögum er fyrirséð að við þær réttarbætur sem það felur í sér, hvað varðar kærumöguleika innan ákæruvaldsins á ákvörðunum um að höfða ekki sakamál eða falla frá saksókn, muni kærum til ríkissaksóknara fjölga verulega og verkefni embættisins aukast sem því nemur. Þá verður einnig að líta til þess að megintilgangur ákvæða frumvarpsins er að styrkja eftirlitshlutverk ríkissaksóknara með framkvæmd ákæruvalds hjá lægra settum ákæruvaldshöfum. Þetta aukna eftirlitshlutverk felur einnig í sér aukin verkefni hjá embættinu. Það er mat nefndarinnar að ef gert verður ráð fyrir minni tilfærslu fjárheimilda frá ríkissaksóknara til hins nýja embættis, þá verði að mæta því með enn meiri nýjum fjárheimildum hins nýja héraðssaksóknaraembættis. Meiri hlutinn telur að fjárþörf ákæruvaldsins í heild eftir þær breytingar sem frumvarpið felur í sér sé metin með varfærnum hætti. Telur meiri hlutinn brýnt að þessar forsendur sem kostnaðarmatið byggir á séu endurmetnar þegar lögin eru komin til framkvæmda.
    Það er álit meiri hlutans að frumvarpið feli í sér jákvæðar breytingar á skipan ákæruvaldsins og aukið réttaröryggi borgaranna. Meiri hlutinn áréttar sérstaklega mikilvægi þess að yfirfærsla þeirra mála sem nú eru hjá embætti sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara gangi hnökralaust fyrir sig og þekking og reynsla við úrvinnslu þeirra flytjist yfir til nýs embættis.
    Í 22. gr. frumvarpsins er ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að eftir 1. apríl 2015 sé ráðherra heimilt að skipa héraðssaksóknara og skal hann hefja undirbúning að stofnun embættis héraðssaksóknara. Í ljósi þess hve skammur tími er til stefnu leggur meiri hlutinn til þá breytingu að miðað verði við 15. júlí.
    Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar lagatæknilegs eðlis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „vegna brota“ í 2. mgr. 2. gr. komi: vegna annarra brota.
     2.      Við 4. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað tilvísunarinnar „skv. 6. mgr. 23. gr.“ í 5. mgr. kemur: skv. 7. mgr. 23. gr.
     3.      Efnismálsgrein 15. gr. orðist svo:
                  Í málum þar sem héraðssaksóknari eða lögreglustjóri fer með ákæruvald getur hann fallið frá saksókn. Nú telur hann ástæðu til að falla frá saksókn skv. 2.–4. mgr. en vafa leika á heimild til þess og skal hann þá senda ríkissaksóknara málið til ákvörðunar.
     4.      Í stað orðanna „1. apríl“ í 22. gr. komi: 15. júlí.
     5.      Við 25. gr.
              a.      Í stað orðanna „samvinnu lögreglustjóra“ í 4. málsl. 1. mgr. a-liðar komi: samvinnu héraðssaksóknara og lögreglustjóra.
              b.      Við 3. mgr. a-liðar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Héraðssaksóknari annast einnig greiningu á tilkynningum og miðlun upplýsinga sem fengnar eru með þeim hætti til annarra stjórnvalda að því marki sem nauðsynlegt er.

    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ritar undir álitið með fyrirvara er lýtur að fjármögnun embættis héraðssaksóknara.
    Guðbjartur Hannesson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 26. mars 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, með fyrirvara. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.