Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
Þingskjal 1159 — 685. mál.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið,
nr. 34/1944
, með síðari breytingum (notkun fánans
við markaðssetningu á vöru og þjónustu).
(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.
Við 8. gr. laganna bætist: sbr. þó 7. mgr. 12. gr. um eftirlit Neytendastofu.2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:a. 4. mgr. orðast svo:
Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Vara telst íslensk að uppruna ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Vara sem hefur verið framleidd hér á landi í a.m.k. 30 ár undir sama vörumerki telst jafnframt íslensk að uppruna þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti og sama gildir um matvöru sem er framleidd hér á landi samkvæmt íslenskri hefð. Hönnunarvara telst íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki þótt hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni, enda sé ekki um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika. Hugverk telst íslenskt að uppruna ef það er samið af íslenskum aðila. Neytendastofa veitir leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skal skrásetja. Óheimilt er að nota fánann í firmamerki.
b. Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
Neytendastofa fer með eftirlit með notkun almenna þjóðfánans skv. 2.–6. mgr. Um málsmeðferð Neytendastofu, úrræði og viðurlög vegna brota á tilgreindum ákvæðum og um kærurétt til áfrýjunarnefndar neytendamála fer að öllu leyti eftir ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Ráðherra sem fer með málefni neytendamála er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Frumvarpið er samið í forsætisráðuneytinu og er byggt á þingmannafrumvarpi sama efnis sem Alþingi samþykkti á fundi sínum 16. maí 2014 að vísa til ríkisstjórnarinnar, sbr. 13. mál á 143. löggjafarþingi. Í frumvarpi því sem vísað var til ríkisstjórnarinnar var lögð til breyting á 12. gr. laganna er hafði það að markmiði að rýmka heimildir til notkunar á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Í samræmi við forsetaúrskurð nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, samþykkti ríkisstjórnin að fela forsætisráðherra og ráðuneyti hans að taka frumvarpið til skoðunar. Er frumvarpið nú lagt fram að nýju sem stjórnarfrumvarp. Frumvarpið felur í sér sambærilegar breytingar og framangreint frumvarp en þó hefur orðalagi og framsetningu verið breytt.
Frumvörp um þetta efni voru einnig lögð fram á 141. löggjafarþingi (39. mál), 139. löggjafarþingi (532. mál) og á 138. löggjafarþingi (532. mál).
II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Eins og rakið er í inngangskafla athugasemdanna er tilefni lagasetningarinnar frumvarp sem Alþingi vísaði til ríkisstjórnarinnar til nánari skoðunar á 143. löggjafarþingi. Í greinargerð með því frumvarpi kemur m.a. fram að Bændasamtök Íslands og Samtök iðnaðarins hafi sent Alþingi erindi og ályktað um mikilvægi þess að unnt verði að nota þjóðfána Íslendinga til að auðkenna íslenska framleiðslu. Samtökin telja það styrkja íslenska framleiðslu og þar með atvinnulífið.
Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. gildandi laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið er heimilt, að fengnu sérstöku leyfi forsætisráðuneytisins, að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu enda sé sú starfsemi sem í hlut á að gæðum samkvæmt því sem forsætisráðuneytið mælir fyrir um með reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Þessi málsgrein var lögfest með lögum nr. 67/1998 sem voru undirbúin af nefnd sem falið hafði verið að endurskoða lögin, einkum 12. gr. þeirra. Markmið breytingalaganna var að rýmka heimild til notkunar fánans. Þrátt fyrir lögfestingu ákvæðisins hefur þetta markmið ekki náðst og hefur sú reglugerð sem ákvæðið mælir fyrir um ekki verið sett. Verða ástæður þess aðallega raktar til þess að örðugt hafi reynst að skilgreina hlutlægar gæðaviðmiðanir í slíkum reglum eins og gerð er krafa um í ákvæðinu. Hafa að svo stöddu ekki verið forsendur til að verða við beiðnum um notkun fánans í þeim tilgangi sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Er frumvarpi því sem hér er lagt fram ætlað að bæta úr annmörkum á gildandi löggjöf og opna fyrir það að nýta megi þjóðfánann til auðkenningar á vöru og þjónustu sem er íslensk að uppruna.
III. Efni frumvarpsins.
Með frumvarpinu er lagt til að rýmkaðar verði heimildir til notkunar á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á vöru og þjónustu og er lagt til að heimilt verði að nota fánann við markaðssetningu vöru og þjónustu sem er íslensk að uppruna án þess að sérstaklega sé sótt um leyfi til þess og felur frumvarpið þannig í sér tiltekna einföldun á regluverkinu að því leyti. Undantekning frá þessu er þegar fáninn er notaður í vörumerki sem skal skrásetja hjá Einkaleyfastofunni en þá þarf leyfi Neytendastofu fyrir notkun fánans að liggja fyrir.
Orðalagið „íslensk að uppruna“ er nýtt í lögunum og er nánar skilgreint í 2. gr. frumvarpsins hvað felst í því. Samkvæmt þeirri skilgreiningu telst vara íslensk að uppruna ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Vara þarf samkvæmt þessu að uppfylla eftirfarandi tvö skilyrði: Annars vegar að vera framleidd hér á landi og hins vegar þarf hún að vera framleidd úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Með innlendu hráefni er átt við hvers kyns hráefni sem ekki er innflutt, svo sem íslenskar landbúnaðarafurðir, íslenskar sjávarafurðir, þ.e. afurðir af Íslandsmiðum sem landað er hér á landi, eldisfisk, íslenskt grænmeti og aðrar jurtir sem ræktaðar eru hér á landi, einnig hvers kyns jarðefni sem numin eru hér á landi, íslenskt vatn o.s.frv. Auk þess er lagt til að vara sem framleidd hefur verið hér á landi í a.m.k. 30 ár undir íslensku vörumerki teljist jafnframt íslensk að uppruna enda þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti og að sama gildi um matvöru sem framleidd er samkvæmt íslenskri hefð, t.d. kleinur, laufabrauð o.fl. Álitaefni er við hvaða árabil skuli miðað í framangreindu tilliti. Í frumvarpi því sem vísað var til ríkisstjórnarinnar var í sambærilegu ákvæði miðað við 50 ár en samkvæmt breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis var tímamarkið fært niður í 30 ár og er sú tillaga lögð til grundvallar í frumvarpinu. Þá er lagt til að hönnunarvara teljist íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki jafnvel þótt hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni, enda sé ekki um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika. Dæmi um hráefni sem mundi falla hér undir væri íslenska ullin. Loks er kveðið á um að hugverk teljist íslenskt að uppruna ef það er samið af íslenskum aðila. Með íslenskum aðila í frumvarpinu er átt við einstaklinga og lögaðila með íslenskar kennitölur.
Þau sjónarmið sem búa að baki frumvarpinu lúta fyrst og fremst að því að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna í þeim skilningi sem kveðið er á um í frumvarpinu. Enn fremur að þeir sem setja slíka vöru á markað og vilja koma íslenskum uppruna vörunnar á framfæri með skýrum hætti, t.d. til að ná athygli erlendra ferðamanna, geti merkt hana þjóðfána Íslendinga.
Samkvæmt framansögðu er lagt til að almenn leyfisskylda fyrir notkun fánans sé aflögð en í stað þess verði byggt á eftirfarandi eftirliti. Áfram er þó gert ráð fyrir að leyfi þurfi til ef skrásetja á vörumerki þar sem fáninn er notaður. Þykir það fyrirkomulag æskilegt og í betra samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamþykkt um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar að samþykki stjórnvalds þurfi fyrir notkun þjóðfánans í skrásett vörumerki, sbr. umsagnir Einkaleyfastofunnar um fyrri frumvörp sama efnis. Þótt heimilt sé að nota fánann í vörumerki er áfram óheimilt að nota fánann í firmamerki enda ólíku saman að jafna.
Samkvæmt 8. gr. laga um þjóðfánann og ríkisskjaldarmerkið fer um rannsókn mála vegna ágreinings um rétta notkun þjóðfánans að hætti sakamála en úrskurðarvaldið er hjá forsætisráðuneytinu. Í frumvarpinu er lagt til að annar háttur verði hafður á varðandi eftirlit með notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu skv. 12. gr. laganna. Er lagt til að Neytendastofu, sem starfar samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, verði falið eftirlit á því sviði. Er ljóst að eftirlit á þessu sviði fellur vel að lögbundnu eftirlitshlutverki stofnunarinnar að öðru leyti. Er mikilvægt að eftirlit verði skilvirkt þannig að einungis þeir sem með réttu er heimilt að nota þjóðfánann í þessu skyni geri það. Verður talið að Neytendastofa sé best til þess fallin að halda uppi slíku skilvirku eftirliti og er lagt til að sömu reglur gildi um eftirlit stofnunarinnar að því er varðar málsmeðferð, úrræði og viðurlög sem og kærurétt til áfrýjunarnefndar neytendamála og almennt gildir um eftirlit stofnunarinnar, sbr. ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
IV. Samráð við samningu frumvarpsins.
Við samningu frumvarpsins var haft samráð og óskað umsagna frá innanríkisráðuneytinu, Neytendastofu, Sambandi garðyrkjubænda, Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Einkaleyfastofu, Íslandsstofu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Félagi atvinnurekenda og Hönnunarmiðstöð Íslands. Af niðurstöðu samráðs og umsagna sem bárust er ljóst að það er almennur stuðningur meðal hagsmunaaðila við breytingar í þá veru sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þá liggur fyrir jákvæð afstaða Neytendastofu til þess aukna eftirlitshlutverks sem henni er falið samkvæmt frumvarpinu.
V. Mat á áhrifum.
Eins og nánar er rakið í III. kafla eru með frumvarpinu lagðar til breytingar sem fela í sér rýmkun á heimildum til notkunar á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Lagt er til að heimilt verði að nota fánann að skilyrðum uppfylltum án þess að sótt sé um sérstakt leyfi til þess, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Frumvarpið, verði það að lögum, mun því fela í sér einföldun á regluverkinu að því leyti.
Fylgiskjal.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu).
Gert er ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á útgjöld ríkissjóðs verði óveruleg. Neytendastofa telur að umsýsla með verkefninu gæti svarað til 10% úr stöðugildi, auk þess sem stofnunin telur að geri megi ráð fyrir tímabundnu auknu álagi á fyrsta ári verkefnisins vegna ábendinga, fyrirspurna og ákvarðana en viðbótarrekstrarkostnaður vegna þess ætti varla heldur að verða teljandi.
Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi að öðru leyti í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð.