Ferill 704. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1178  —  704. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, með síðari breytingum (heimagisting og flokkar veitingastaða).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „gegn endurgjaldi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: þó ekki lengur en til 30 daga,
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks eða í einni annarri fasteign í þeirra eigu, sem ekki eru boðnar til leigu lengur en í átta vikur samtals á ári hverju.
     c.      Í stað flokka IV og V í 3. mgr. kemur einn nýr flokkur, svohljóðandi: Flokkur IV: Gististaður með áfengisveitingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „og afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23“ í skilgreiningu á flokki II falla brott.
     b.      Orðin „og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23“ í skilgreiningu á flokki III falla brott.

3. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skráningarskylda.

    Rekstur heimagistingar skv. 3. gr. er skráningarskyld starfsemi. Einstaklingi, hjónum eða sambýlisfólki ber að tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hefja eigi starfsemi, greiða skráningargjald og uppfylla kröfur um brunavarnir á heimili og/eða í fasteign. Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd og skilyrði fyrir skráningu á heimagistingu.
    Sýslumanni er heimilt að afskrá heimagistingu verði aðili uppvís að því að leigja út eign sína til lengri tíma en átta vikna á ári hverju og einnig að synja um skráningu heimagistingar hafi aðili orðið uppvís að því að misnota skráningu. Enn fremur er sýslumanni heimilt að synja um skráningu hafi heimagisting ítrekað verið afskráð eða aðili ítrekað misnotað skráningu sína.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Orðið „annarra“ í 2. málsl. a-liðar 1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „500.000 kr.“ í g-lið 1. mgr. kemur: 1.000.000 kr.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Hafa lagt fram skriflega staðfestingu um gerð öryggisáætlunar og um að hann skuldbindi sig til að fara eftir henni í daglegri starfsemi.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 4. mgr. orðast svo: Sveitarstjórnar sem m.a. staðfestir að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála sem og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu. Einnig ber sveitarstjórn að staðfesta að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
     b.      5. tölul. 4. mgr. fellur brott.
     c.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fari gististarfsemi í flokkum II–IV fram í fjöleignarhúsi gilda ákvæði laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, um samþykki annarra eigenda.

6. gr.

    Við 20. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Leyfisveitandi skal halda skrá yfir skráða heimagistingu skv. 3. gr. og 7. gr. a í miðlægu kerfi og birta skráningar með aðgengilegum hætti á heimasíðu sinni.

7. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hver sá sem rekur heimagistingu án skráningar skv. 7. gr. a skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

8. gr.

    Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
    Lögreglustjóri skal án fyrirvara eða aðvörunar stöðva skráningarskylda starfsemi sem fer fram án skráningar skv. 7. gr. a.

9. gr.

    Á eftir orðinu „Um“ í 24. gr. laganna kemur: skráningargjald og.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara bætist nýr töluliður við 13. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, sem orðast svo: Skráning heimagistingar skv. 7. gr. a laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, 8.000 kr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Rekstrarleyfi fyrir heimagistingu í flokki I halda gildi sínu fram að endurnýjun samkvæmt útgefnu leyfisbréfi. Að loknum gildistíma er leyfishafa mögulegt að skrá starfsemi sína í samræmi við 7. gr. a og ákvæði í reglugerð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði í ágúst 2013. Málefni veitingastaða, gististaða og skemmtanahalds höfðu þá um vorið flust til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá innanríkisráðuneytinu. Starfshópurinn hefur fundað alls 18 sinnum síðan þá og fengið til sín ýmsa gesti. Í starfshópnum sitja Brynhildur Pálmarsdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Helena Karlsdóttir frá Ferðamálastofu, Gunnar Valur Sveinsson frá Samtökum aðila í ferðaþjónustu, Helga Björk Laxdal sem situr fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga og nokkrir aðilar hafa komið að málinu sem fulltrúar innanríkisráðuneytis. Þeir eru Gunnlaugur Geirsson og Margrét Kristín Sigurðardóttir frá innanríkisráðuneyti og Óskar Sigurðarson og Sigurður G. Hafstað frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
    Hópurinn sendi í byrjun árs 2014 bréf til ýmissa aðila og haghafa þar sem óskað var eftir ábendingum um hvað mætti betur fara í löggjöf veitinga-, gisti- og skemmtistaða. Tillögur hópsins byggjast m.a. á þessum svörum ásamt skýrslu um einföldun regluverks í ferðaþjónustu sem kom út í maí 2014. Þess ber að geta að starfshópurinn er enn að störfum og mun leggja fram fleiri frumvörp til frekari einföldunar á regluverki veitinga, gisti- og skemmtistaða.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á undanförnum árum hafa leyfisveitingar í veitinga- og gistirekstri verið töluvert til umræðu og m.a. í tengslum við meint flækjustig leyfisferilsins. Einnig hefur umræða um leyfislausa gististarfsemi verið hávær og mikil aukning hefur orðið á því að einstaklingar leigi út húsnæði sitt til ferðamanna tiltekinn tíma úr árinu og að það sé gert t.d. með milligöngu sérstakra aðila eða gegnum sérstakar vefsíður. Þá er einnig orðið mjög algengt að einstaklingar og lögaðilar eigi fjölda íbúða sem leigðar eru út til ferðamanna.
    Í skýrslu Rannsóknarstofnunar atvinnulífsins 1 kemur fram að stærsta vandamálið í gistiþjónustu sé fjöldi óskráðra og leyfislausra gististaða sem líklega standi ekki skil á öllum sköttum. 2 Þá hefur Íslandsbanki skoðað fjölda gistinátta á landinu og nýtingu þeirra. 3 Í samantekt bankans kemur m.a. fram að fjöldi gistinátta á hvern ferðamann hefur dregist nokkuð saman frá árinu 2010 sem bendir til þess að ferðamenn nýti sér í auknum mæli annars konar gistiþjónustu en þá sem skilar inn upplýsingum um fjölda gistinátta. 4 Einnig segir að aukning ferðamanna hafi undanfarin ár verið talsvert yfir fjölgun hótelherbergja og að mismuninum hafi m.a. verið mætt með framboði af gistirými í íbúðum í miðbæ Reykjavíkur. 5 Á sama tíma hefur ferðamönnum fjölgað og því er hægt að draga þá ályktun að hluti ferðamannastraumsins gisti annars staðar en á skráðum gististöðum. Einnig telja leyfisveitendur gististaða á landinu, sýslumannsembættin, að fjöldi gististaða sé ranglega skilgreindur og hafi m.a. leyfi í röngum flokki. Til dæmis séu margir sem skrái starfsemi sína í flokki I fyrir heimagistingu þegar í raun sé um að ræða gistiheimili eða íbúðagistingu sem fellur í flokk II.
    Í frumvarpi þessu er áhersla lögð á að bregðast við þróun í gistiframboði og þeirri leyfislausu starfsemi sem áður var getið. Nauðsyn var talin á að gera breytingar á löggjöfinni ásamt því að endurskoða reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá er ljóst að eftirlit með málaflokknum er umfangsmikið verkefni og þörf á að tryggja fjármagn og mannafla til þess.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að bregðast við breytingum í samsetningu gististaða á landinu ásamt því að leiðrétta ýmis atriði í löggjöfinni sem komið hefur í ljós að eru til vandkvæða í framkvæmd. Þá er að auki stigið eitt skref til einföldunar á leyfisveitingum, þ.e. með því að fækka umsögnum sem nauðsynlegt er að afla svo að rekstrarleyfi fáist gefið út.

III. Meginefni frumvarps.
    Ákveðið var að frumvarp þetta tæki aðeins á takmörkuðum þáttum í núgildandi lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og má líta á frumvarpið sem fyrsta skref í átt að einföldun og endurbótum á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Hér á eftir fara helstu atriði frumvarpsins.

Breytt notkun flokks og skilgreining á heimagistingu.
    Í frumvarpinu er lögð til tiltekin útvíkkun á flokki heimagistingar en hann er flokkur I samkvæmt núgildandi lögum. Nú eru gerðar allar sömu kröfur í umsóknarferli til að öðlast rekstrarleyfi sem heimagisting og gerðar eru um aðra gististaði, svo sem hótel eða gistiheimili. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki verði heimilt að starfrækja heimagistingu hafi þeir skráð sig á vefsvæði sýslumanns á viðkomandi stað. Lögaðilum er ekki heimilt að skrá sig í flokk heimagistingar, einungis einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki. Þessir aðilar fara þannig ekki í sama umsagnarferli og umsækjendur um gistileyfi í öðrum flokkum. Aðilum ber þó að uppfylla kröfur um brunavarnir sem fram munu koma í reglugerð, svo sem varðandi fjölda reykskynjara og annarra brunavarna. Þá er gististarfsemi, þar með talin heimagisting, starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og því verður enn nauðsynlegt að afla sér starfsleyfis frá heilbrigðiseftirliti á viðkomandi svæði.
    Útvíkkun heimagistingar felst enn fremur í því að aðilum verður nú heimilt að leigja út lögheimili sitt auk einnar annarrar fasteignar í eigu viðkomandi. Er þar komið til móts við einstaklinga sem vilja geta leigt út sumarhúsið sitt eða frístundaíbúð. Á móti kemur að þeim aðilum sem eru skráningarskyldir verður aðeins heimilt að leigja út viðkomandi eignir í átta vikur samtals á ári hverju. Þannig er heildartíminn samtals átta vikur á ári hverju fyrir báðar eignir eða alls átta vikur ef aðeins er leigð út ein eign.
    Þetta nýmæli er tilraun til þess að auðvelda einstaklingum að leigja út heimili sitt hluta úr árinu og eins er markmiðið að skilja skýrlega milli slíkra einstaklinga og þeirra einstaklinga eða lögaðila sem hafa gististarfsemi að aðalstarfsemi sinni allt árið og ber að hafa rekstrarleyfi sem gististaður í flokkum II, III eða IV.

Breytt flokkun veitingastaða.
    Með frumvarpinu eru felld úr gildi viðmið og skil milli flokka byggð á opnunartíma veitingastaða til klukkan 23. Stafar þessi breyting af ákveðnum vandkvæðum sem skapast þegar umfangslitlir veitingastaðir óska eftir að hafa eldhús sín opin lengur en til kl. 23. Slíkir veitingastaðir hafa allir þurft rekstrarleyfi í flokki III sem hugsaður er fyrir umfangsmikla veitinga- og skemmtistaði. Með því að fjarlæga viðmiðið um tímann er það sett í hendur leyfisveitanda og umsagnaraðila á hverjum stað að meta hvort starfsemi veitingastaðar teljist umfangsmikil eða umfangslítil. Einnig hafa sveitarfélög heimild til þess að hafa áhrif á opnunartíma veitingastaða í skipulagi sínu eins og Reykjavíkurborg hefur gert. Þessi breyting mun hvetja fleiri sveitarfélög til þess að leggja skýrar línur um staðsetningu og opnunartíma veitingastaða á hverjum stað í skipulagi sínu.

Umsagnir sameinaðar.
    Í ljósi markmiða um einföldun regluverks felst í frumvarpinu sameining á umsögnum sveitarfélags og byggingarfulltrúa enda starfar byggingarfulltrúi innan sveitarfélagsins og því þykir eðlilegt að frá sveitarfélaginu komi aðeins ein umsögn og að umsækjendur þurfi aðeins að leita til eins aðila vegna umsagna þaðan.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki þótti ástæða til að meta samræmi við stjórnarskrá að öðru leyti en því að tryggja að ákvæði frumvarpsins gangi ekki gegn ákvæðum um atvinnufrelsi í 75. gr. og eignarrétt í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í frumvarpinu felast breytingar á skilgreiningu flokka gististarfsemi og eru sett upp úrræði fyrir einstaklinga, hjón og sambúðarfólk sem hafa ekki áhrif á atvinnufrelsi og eignarrétt þessara aðila. Heimagisting samkvæmt frumvarpinu er ívilnandi úrræði sem þó getur ekki verið takmarkalaust. Því er mælt fyrir um að sé starfsemi svo umfangsmikil að hún vari lengur en átta vikur á ári eða taki til fleiri eigna en tveggja þá falli starfsemin í aðra þá flokka sem lögin mæla fyrir um.
    Að sama skapi er gert ráð fyrir því að þeir sem í dag hafa gild rekstrarleyfi í flokki I muni halda þeim þar til kemur að endurnýjun, lengst til fjögurra ára. Eftir þann tíma geta leyfishafar sótt um að nýju í flokkum II–IV eða skráð eign sína í flokk I uppfylli þeir skilyrði laganna. Slíkar breytingar á grundvelli rekstrarleyfa geta ekki talist brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi eða eignarrétt þar sem almennt er viðurkennt að löggjafanum sé heimilt að breyta almennum skilyrðum leyfis ef þörf þykir, svo sem vegna almannahagsmuna og þannig að almenn og hlutlæg sjónarmið ráði þar ferðinni. Þá er frumvarpið ekki í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í málaflokknum.

V. Samráð.
    Eins og áður sagði var frumvarp þetta unnið af starfshópi sem ráðherra málaflokksins skipaði haustið 2013. Hópurinn sendi í byrjun árs 2014 bréf til ýmissa aðila og haghafa þar sem óskað var eftir ábendingum um hvað mætti betur fara í löggjöf veitinga-, gisti- og skemmtistaða. Þessir aðilar voru: lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglustjórafélag Íslands, Sýslumannafélag Íslands, Þjóðskrá, Ferðaþjónusta bænda, velferðarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök verslunar og þjónustu og Ferðamálasamtök landshlutanna. Tillögur hópsins byggjast m.a. á þessum svörum ásamt skýrslu um einföldun regluverks í ferðaþjónustu sem kom út í maí 2014. Við vinnslu þeirrar skýrslu var haft samráð við alla aðila innan ferðaþjónustunnar auk fleiri aðila og ljóst að þar var um að ræða víðtækt samráð. Þá hefur starfshópurinn hitt fjölmarga haghafa á fundum sínum frá ágúst 2013. Þar á meðal eru Samtök heilbrigðiseftirlita, Mannvirkjastofnun, Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu og leyfasvið lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur hópurinn hitt starfsfólk Vinnueftirlitsins, fulltrúa úr gististaðanefnd SAF og veitingahúsanefnd SAF og Ketil Berg sem komið hefur fram fyrir hönd þeirra aðila sem selja heimagistingu og íbúðagistingu. Enn fremur fékk hópurinn greinargóða kynningu á aðalskipulagi Reykjavíkur auk þess að hitta ríkisskattstjóra til þess að ræða sameiginlega skattaundanskot í greininni. Þá hefur verið haft samráð við velferðarráðuneytið vegna breytinga á húsaleigulögum, nr. 36/1994, en frumvarp þess efnis verður lagt fram á vorþingi 2015. Samráð var haft um skilgreiningu á skammtímaleigu og það hvenær lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eiga við og hvenær leiga húsnæðis fellur undir húsaleigulögin. Enn fremur var samráð haft við Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fyrir framlagningu frumvarpsins vegna brunavarna í heimagistingu. Í samráðsferlinu komu fram ýmsar athugasemdir sem nú eru til skoðunar hjá starfshópnum. Tekið er tillit til hluta þeirra í frumvarpi þessu en aðrar breytingar munu líta dagsins ljós síðar. Sem dæmi má nefna að bent var á ósamræmi í skilgreiningu á heimagistingu milli byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, og laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem tekið verður á í reglugerð í málaflokknum. Einnig má, að hluta, rekja nýja útfærslu á heimagistingu til samráðs og samtals við hagsmunaaðila.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum mun starfsemi sem nú er leyfisskyld verða skráningarskyld. Fyrirhugað er að sýslumenn annist skráningu á vefsíðu sinni og einnig hluta eftirlits með skráningu og starfsemi heimagistinga. Þessi nýjung mun kalla á vinnu, mannafla og fjárframlag af hálfu sýslumannsembættanna svo að fyrirkomulagið virki. Þar sem í frumvarpinu felst ívilnun fyrir einstaklinga sem vilja leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign má enn fremur gera ráð fyrir auknum fjölda skráninga, bæði í hið nýja skráningarferli og eins að aðrir rekstraraðilar verði rétt skráðir og greiði þar af leiðandi rétt leyfisgjald.
    Þá mun frumvarpið hafa áhrif á það hvernig opnunartímar veitingastaða verða ákvarðaðir og slíkt ákvörðunarvald fært til sveitarstjórnar á hverjum stað. Afleiðingar annarra breytinga eru minni háttar. Að öðru leyti vísast til kostnaðarumsagnar fjármála- og efnahagsráðuneytis.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Breytingar í 1. gr. frumvarpsins varða skilgreiningu á gististað en í núgildandi lögum segir að gististaður sé staður þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi og svo rakin dæmi um gististaði.
    Í húsaleigulögum, nr. 36/1994, segir í 7. mgr. 1. gr. að lögin gildi ekki um samninga hótela, gistihúsa og sambærilegra aðila við gesti sína. Þá gildi ákvæðin ekki um skammtímaleigu á húsnæði, svo sem orlofsheimilum, sumarhúsum, samkomuhúsum, íþróttasölum, herbergjum og geymsluhúsnæði, þegar leigugjald er miðað við viku, sólarhring eða skemmri tíma. Borið hefur á að aðilar sem ákveða að leigja út heimili sitt, íbúð eða sumarhús hafi gert leigusamning sem miðast við átta daga í þeim tilgangi að komast undan því að slíkur samningur falli undir lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og falli fremur undir ákvæði húsaleigulaga. Með breytingu í a-lið 1. gr. er tiltekið að lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eigi við um gistingu sem boðin er ekki lengur en til 30 daga í senn. Samhliða þessari breytingartillögu verður gerð breyting á áðurnefndu ákvæði í húsaleigulögum í frumvarpi sem lagt verður fram af félags- og húsnæðismálaráðherra.
    Í b-lið greinarinnar er að finna breytingu á skilgreiningu heimagistingar. Samkvæmt gildandi lögum er heimagisting skilgreind sem gisting á heimili leigusala gegn endurgjaldi. Ekki hefur verið ljóst af lagaákvæðinu hvort krafa er gerð um lögheimili leigusala eður ei en með breytingu þessari er fest í sessi fyrirkomulag sem bæði sýslumenn og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa viðhaft síðustu ár. Í því felst að til þess að um heimagistingu sé að ræða verði hið leigða húsnæði að vera lögheimili einstaklings. Þá er enn fremur bætt við skilgreiningu á flokknum og heimilað að einstaklingar, hjón eða sambúðarfólk leigi einnig út eina aðra fasteign í eigu sinni. Er þannig komið til móts við þá aðila sem eiga t.d. tiltekið lögheimili og síðan aðra fasteign, svo sem sumarhús eða íbúð til nota í frítíma, en nokkuð algengt er að einstaklingar, hjón og sambúðarfólk eigi tvær fasteignir. Þá er þetta fyrirkomulag í samræmi við tillögur í frumvarpi til nýrra laga um leigu skráningarskyldra ökutækja í þingskjali 629, 421. mál á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem lagt er til að einstaklingar geti leigt út tvö ökutæki í eigu sinni með milligöngu leigumiðlunar. Eins og áður hefur komið fram er aðeins gert ráð fyrir því að einstaklingar geti skráð eignir sínar í flokk heimagistingar en ekki lögaðilar.
    Ákveðin þrenging er gerð á flokknum þar sem heimiluð leiga í þessum flokki verður takmörkuð við átta vikur samtals á hverju almanaksári. Er þar átt við að ákveði einstaklingur að leigja út bæði lögheimili sitt og eina aðra fasteign þá geti slík leiga lengst verið til samtals átta vikna á ári hverju. Ákveði einstaklingur að leigja aðeins út eina fasteign er hámarkstími einnig átta vikur á ári hverju. Þannig er heildartímamarkið alltaf átta vikur hvort sem leigð er út ein fasteign eða tvær. Þessi takmörkun kemur til af því að í nýjan flokk heimagistingar á að falla starfsemi einstaklinga sem bundin er við hluta af árinu en ekki leiga gistirýmis í atvinnuskyni sem fer fram allt árið. Tímalengdin ræðst af þeim tíma sem almennt er að einstaklingar nýti sem orlof yfir árið og var því ákveðið að miða við átta vikur þó ekki sé skilyrði að eign sé leigð út á orlofstíma eiganda. Þá verður einstaklingur sem skráir fasteign sína eða lögheimili sem heimagistingu að uppfylla nánari kröfur um brunavarnir í reglugerð, svo sem varðandi fjölda reykskynjara og annarra brunavarna.
    Að auki verður gerð breyting á reglugerð nr. 585/2007 hvað varðar skilgreiningu heimagistingar en hún verður miðuð við útleigu á mest fimm herbergjum og gistingu með mest tíu rúmum. Í gildandi reglugerð er miðað við átta herbergi eða 16 rúm. Breyting þessi er í samræmi við ákvæði nýrrar byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sem gerir aðrar og ríkari kröfur til húsnæðis fyrir fleiri en tíu manns.
    Að lokum eru í c-lið sameinaðir tveir flokkar gististaða með áfengisveitingum undir heitinu: Gististaður með áfengisveitingum. Ekki þykir lengur ástæða til þess að hafa sérstakan flokk fyrir gististaði sem hafa minibar á herbergjum sínum heldur falla slíkir gististaðir í flokkinn gististaður með áfengisveitingum.

Um 2. gr.

    Í greininni eru gerðar breytingar á ákvæðum laganna sem varða flokkun og skilgreiningu veitingastaða. Í flokki I eru veitingastaðir án áfengisveitinga en í flokkum II og III eru veitingastaðir með áfengisveitingum, annars vegar umfangslitlir áfengisveitingastaðir og hins vegar umfangsmiklir veitingastaðir. Einnig er skilgreiningin bundin við að opnunartími veitingastaða í flokki II sé ekki lengri en til kl. 23 og í flokki III að opið sé lengur en til kl. 23. Þessi skilgreiningin á opnunartíma í lögunum hefur valdið því að nokkur fjöldi veitingastaða hefur verið skráður í flokk III þó að starfsemi sé í eðli sínu ekki umfangsmikil og kalli ekki á mikið eftirlit eða löggæslu. Sem dæmi má nefna veitingastað sem vill hafa opið lengur en til 23 sem veldur þó ekki miklu ónæði. Margir veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu hafa nú t.d. opið til kl. 01 um helgar. Með því að fella tilvísun til tímans út úr ákvæðunum er það lagt í hendur leyfisveitanda á hverjum stað að meta hvaða veitingastaðastarfsemi er umfangsmikil og hver er umfangslítil. Þá geta sveitarfélög einnig kveðið á um heimilan opnunartíma í aðalskipulagi sínu og stýrt þannig veitinga- og skemmtanahaldi.

Um 3. gr.

    Hér er gert ráð fyrir nýju ákvæði sem fjallar um skráningarskyldu í stað leyfisskyldu skv. 7. gr. laganna. Breytingar sem felast í þessu eru þær að einstaklingar, hjón eða sambúðarfólk sem ætla að bjóða upp á heimagistingu samkvæmt nýrri skilgreiningu þurfi aðeins að skrá sig hjá sýslumanni á viðkomandi stað en þurfi ekki lengur að fá rekstrarleyfi útgefið og fara í gegnum umsagnarferli samkvæmt lögunum. Þrátt fyrir þetta verður þessum aðilum ennþá skylt að afla sér starfsleyfis frá heilbrigðiseftirliti í samræmi við lög og reglugerðir um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Fyrirkomulagið verður þannig að telji aðili sig uppfylla skilyrði til þess að reka heimagistingu samkvæmt frumvarpinu þá geti viðkomandi skráð sig á vef sýslumannsembættisins, greitt skráningargjald og staðfest að eignin uppfylli tilteknar kröfur um brunavarnir. Þá er einnig gert ráð fyrir því að viðkomandi skrái inn í kerfið þann tíma sem lögheimili eða ein viðbótarfasteign verður í útleigu hverju sinni. Nánar verður kveðið á um fyrirkomulagið í reglugerð, bæði hvað varðar brunavarnir og skráningarferlið. Gert er ráð fyrir því að skráningargjald vegna heimagistingar verði mjög hóflegt og að einstaklingur þurfi að skrá sig á hverju almanaksári hyggist hann nýta möguleika á útleigu það árið.
    Enn fremur er gert ráð fyrir heimild til sýslumanna til þess að afskrá heimagistingu hafi einstaklingur orðið uppvís að því að leigja eignir út til lengri tíma en átta vikna á ári hverju eða misnota með öðrum hætti skráninguna. Eins hefur sýslumaður heimild til að synja um skráningu hafi tiltekin skráning ítrekað verið afskráð eða aðili ítrekað misnotað skráningu.

Um 4. gr.

    Í greininni eru gerðar breytingar sem varða í fyrsta lagi skilyrðið um búsetu á Íslandi sem umsækjandi um rekstrarleyfi þarf að uppfylla. Í a-lið 1. mgr. 8. gr. segir að umsækjandi skuli hafa búsetu á Íslandi. Þá segir í 2. málsl. að ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, svo og Færeyingar og lögaðilar í Færeyjum, séu undanþegnir búsetuskilyrðinu. Þetta orðalag getur skilst svo að sé umsækjandi íslenskur ríkisborgari en hafi ekki búsetu á Íslandi þá sé honum ómögulegt að gerast rekstraraðili á grundvelli laganna meðan öðrum ríkisborgurum innan EES og Færeyja sé það mögulegt. Slík mismunun er ekki talin hafa verið vilji eða ásetningur löggjafans við setningu laganna auk þess sem svipuð ákvæði í öðrum lagabálkum eru ekki orðuð á sama hátt og leiða ekki til sömu stöðu. Með því að fella orðið „annarra“ út, þ.e. ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan EES og Færeyja, verður skilningur ákvæðisins annar og leiðir ekki til mismununar milli íslenskra ríkisborgara og annarra ríkisborgara innan EES.
    Í öðru lagi er hér lögð til hækkun á viðmiði vegna skuldastöðu umsækjanda gagnvart skattyfirvöldum og lífeyrissjóðum. Í núgildandi ákvæði er miðað við að ekki megi skulda skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr. Lagt er til í ákvæðinu að þessi tala verði 1.000.000 kr. enda er algengt að umsækjendur skuldi meira en 500.000 kr. á hverjum tímapunkti og þykir slíkt ekki tiltökumál.
    Þá er nýmæli að umsækjendum sé gert að hafa í starfsemi sinni öryggisáætlun og er með því verið að bregðast við ákalli um auknar kröfur um öryggi í ferðaþjónustu. Ætlunin er að öryggisáætlanir séu á ábyrgð rekstraraðilanna sjálfra og nægilegt er að umsækjandi staðfesti að öryggisáætlun sé til staðar. Aðilar í Vakanum, gæða- og öryggiskerfi ferðaþjónustunnar, leggja fram öryggisáætlun sem samanstendur af áhættumati, verklagsreglum, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu. Við gerð áætlana fyrir veitingastaði og gististaði verður hægt að notast við viðmið Vakans og mun slíkt mögulega hvetja aðila til þess að óska eftir fullri skráningu í Vakann og tryggja þannig gæða- og öryggisstaðal síns fyrirtækis.

Um 5. gr.

    Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald gera í 10. gr. kröfu um að leyfisveitandi leiti umsagna nokkurra aðila í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð. Þessir aðilar eru sveitarstjórn á hverjum stað sem m.a. staðfestir að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um. Einnig skal óska eftir umsögn frá heilbrigðiseftirliti, slökkviliði, vinnueftirliti og byggingarfulltrúa ásamt lögreglu. Ákvæðið gerir ráð fyrir sameiningu umsagna frá sveitarfélagi og byggingarfulltrúa enda er byggingarfulltrúi hluti af stjórnkerfi sveitarfélagsins. Því þótti eðlilegt að sameina þessar tvær umsagnir og gera þá kröfu að viðkomandi sveitarfélag skili aðeins einni sameiginlegri umsögn. Með þessu er stigið eitt skref í átt að einföldun á umsóknarferlinu fyrir rekstrarleyfi.
    Að auki kemur fram í ákvæðinu að sé gististarfsemi í flokkum II–IV stunduð í fjölbýli þá fari um starfsemina eftir ákvæðum laga um fjöleignarhús. Er þar átti við ákvæði 27. gr. laganna þar sem fram kemur að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Um nánari reglur um samþykki íbúa vísast til áðurnefnds ákvæðis í lögum um fjöleignarhús, framkvæmdar þeirra og úrskurða kærunefndar húsamála.

Um 6. gr.

    Í greininni felst krafa um að leyfisveitendur, þ.e. sýslumenn á landinu, haldi sams konar skrá yfir skráningarskylda starfsemi og gert er yfir starfsemi sem er leyfisskyld. Slík skrá skal vera miðlæg og uppfærð svo þar sé að finna skráningar á hverjum tíma og eins er nauðsynlegt að slík skrá sé aðgengileg á heimasíðum embættanna.

Um 7. gr.

    Á grundvelli ákvæðisins er lögreglu heimilt að beita sektum, nema þyngri refsing liggi við, hafi einstaklingur nýtt lögheimili sitt eða eina aðra fasteign til útleigu sem heimagisting án skráningar skv. 7. gr. a.

Um 8. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er lögreglu skylt að loka heimagistingu án fyrirvara eða aðvörunar ef sú starfsemi fer fram án skráningar skv. 7. gr. a. Nauðsynlegt þykir að lögreglan geti brugðist við með skjótum og áhrifaríkum hætti þegar þannig stendur á sem rakið er í ákvæðinu.

Um 9. gr.

    Í ákvæðinu felst að um skráningargjald vegna heimagistingar fari samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, eins og er um rekstrarleyfi samkvæmt lögunum.

Um 10. gr.

    Síðari málsgrein ákvæðisins felur í sér breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, nánar tiltekið á 13. gr. laganna þar sem fjallað er um gjöld fyrir ýmsar skráningar. Er lagt til að við ákvæðið bætist nýr töluliður þar sem fram kemur að skráningargjald vegna heimagistingar skuli nema 8.000 kr.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að þeir sem hafa aflað sér rekstrarleyfis fyrir heimagistingu á grundvelli laganna muni halda leyfum sínum fram að endurnýjun samkvæmt útgefnu leyfisbréfi nema komi til niðurfellingar eða sviptingar á leyfinu fyrir þann tíma. Að gildistíma loknum er aðila síðan heimilt að skrá sig á vefsíðu sýslumannsembættanna eða sækja um leyfi í öðrum flokkum gististaða samkvæmt lögunum.Fylgiskjal I.


Mat á áhrifum frumvarps til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, með síðari breytingum, á fjárhag sveitarfélaga, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga.

    Í frumvarpi þessu eru gerðar nokkrar breytingar á gildandi lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
    Meginefni frumvarpsins varðar breytingu á skilgreiningu og notkun flokksins heimagistingar skv. 3. gr. laganna. Þá eru einnig lagðar til breytingar á flokkum veitingastaða ásamt því að sameina umsagnir sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa skv. 10. gr. Enn fremur eru gerðar nokkrar minni háttar breytingar, svo sem á skilyrðum sem umsækjandi þarf að uppfylla til þess að fá útgefið rekstrarleyfi.
    Þær breytingar sem helst varða málefni sveitarfélaganna eru annars vegar breytingar á flokkum veitingastaða og hins vegar sameining umsagna.

Flokkar veitingastaða.
    Með frumvarpinu eru felld úr gildi viðmið og skil milli flokka byggð á opnunartíma veitingastaða til klukkan 23. Stafar þessi breyting af ákveðnum vandkvæðum sem skapast þegar umfangslitlir veitingastaðir óska eftir að hafa eldhús sín opin lengur en til kl. 23. Slíkir veitingastaðir hafa allir þurft rekstrarleyfi í flokki III sem hugsaður er fyrir umfangsmikla veitinga- og skemmtistaði. Með því að fjarlæga viðmiðið um tímann er það sett í hendur leyfisveitanda og umsagnaraðila á hverjum stað að meta hvort starfsemi veitingastaðar teljist umfangsmikil eða umfangslítil. Einnig hafa sveitarfélög heimild til þess að hafa áhrif á opnunartíma veitingastaða í skipulagi sínu eins og Reykjavíkurborg hefur gert. Þessi breyting ætti því að hvetja fleiri sveitarfélög til þess að leggja skýrar línur um staðsetningu og opnunartíma veitingastaða á hverjum stað í skipulagi sínu.

Sameining umsagna.
    Í ljósi markmiða um einföldun regluverks felst í frumvarpinu sameining á umsögnum sveitarfélags og byggingarfulltrúa enda starfar byggingarfulltrúi innan sveitarfélagsins og því þykir eðlilegt að frá sveitarfélaginu komi aðeins ein umsögn og að umsækjendur þurfi aðeins að leita til eins aðila vegna umsagna þaðan. Þar sem fyrirkomulagið er sums staðar þannig að sami byggingarfulltrúi starfar fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög mun sameining umsagna leiða til þess að hvert sveitarfélag þarf að ákveða ferli fyrir umsagnagerð innan þess.
    Í ljósi ofangreinds má gera ráð fyrir að sveitarfélögin þurfi nú meira að beita huglægum mælikvörðum við mat á því hvort veitingastaður teljist umfangsmikill eða umfangslítill og eins að meta hversu langur opnunartími er eðlilegur ef opnunartími veitingastaða er ekki frjáls í viðkomandi sveitarfélagi. Reykjavíkurborg hefur markað sér skýran ramma með aðalskipulagi sínu og væri ákjósanlegt að fleiri sveitarfélög ynnu slíka skipulagsvinnu, m.a. með tilliti til starfsemi veitingastaða og gististaða. Ekki er þó endilega gert ráð fyrir að af þessu leiði aukin fjárútgjöld af hálfu sveitarfélaganna.
    Enn fremur má gera ráð fyrir að sameining umsagna byggingarfulltrúa og sveitarstjórnar geti orðið vinnusparandi þegar sveitarfélögin hafa þróað verklag um það og muni þar af leiðandi ekki leiða til kostnaðarauka fyrir þau.
    Þessi niðurstaða ráðuneytisins hefur verið kynnt fyrir Sambandi íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við hana.


Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, með síðari breytingum (heimagisting og flokkar veitingastaða).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar með það að markmiði að bregðast við breytingum í samsetningum gististaða á landinu og þróun gistiframboðs, m.a. í ljósi mikils fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tiltekinni útvíkkun á flokki heimagistingar en samkvæmt núgildandi lögum eru gerðar allar sömu kröfur í umsóknarferli til að öðlast rekstrarleyfi fyrir heimagistingu og gilda um aðra gististaði, svo sem hótel eða gistiheimili. Með frumvarpinu er lagt til að þeir einstaklingar sem óska eftir að starfrækja heimagistingu þurfi ekki lengur að fá rekstrarleyfi heldur nægi þeim að skrá sig og fasteignina á vefsvæði sýslumanns. Með þessu móti þarf viðkomandi aðili ekki að fara í gegnum sama umsóknar- og umsagnarferli og umsækjendur um gistileyfi í öðrum flokkum. Aðilum ber þó sem fyrr að uppfylla kröfur um brunavarnir og starfsemin verður áfram starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að flokkur heimagistingar verði takmarkaður við lögheimili viðkomandi aðila eða aðra fasteign í eigu viðkomandi, auk þess sem leigutími fasteignar verði að hámarki átta vikur á ári. Gert er ráð fyrir að telji aðili sig uppfylla skilyrði til þess að reka heimagistingu samkvæmt frumvarpinu skuli hann greiða skráningargjald að fjárhæð 8.000 kr. Samkvæmt lauslegri áætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu geti orðið í kringum 4-8 m.kr. á ári en þær munu renna í ríkissjóð samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki gildi sem lög við samþykkt þess.
    Aðrar helstu breytingar í frumvarpinu eru þær að gert er ráð fyrir að felld verði út viðmið og skil milli flokka sem byggjast á opnunartíma veitingastaða og þá er gert ráð fyrir að umsagnir sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa verði sameinaðar þannig að viðkomandi sveitarfélag skili aðeins einni sameiginlegri umsögn. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að leyfisveitandi leiti umsagna nokkurra aðila í því umdæmi þar sem starfsemin er fyrirhuguð, þ.e. hjá sveitarstjórn, heilbrigðiseftirliti, slökkviliði, vinnueftirliti og byggingarfulltrúa. Markmiðið með þessu er að einfalda umsóknarferlið fyrir rekstrarleyfi.
    Gert er ráð fyrir allt að heilu stöðugildi hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna aukinnar umsýslu og eftirlits er lýtur að skráningum heimagistingar. Þá er áætlað að tímabundinn kostnaður sýslumanns vegna forritunar- og kerfisvinnu í tengslum við vefsíðugerð fyrir skráningar verði um 3 m.kr. Á móti þessum kostnaði er gert ráð fyrir tekjum af skráningargjöldum þannig að samanlögðu má gera ráð fyrir að áhrif á afkomu ríkissjóðs verði óveruleg verði frumvarpið lögfest óbreytt.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Árni Sverrir Hafsteinsson og Jón Bjarni Steinsson. Skattsvik í ferðaþjónustu. Umfang og leiðir til úrbóta. Rannsóknastofnun atvinnulífsins, Bifröst. Maí 2014. www.saf.is/wp-content/uploads/Skattsvik-%C3%AD-fer%C3%B0a%C3%BEj%C3%B3nustu.pdf
Neðanmálsgrein: 2
    2 Skattsvik í ferðaþjónustu. Umfang og leiðir til úrbóta, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Íslensk ferðaþjónusta. Íslandsbanki. Mars 2015. www.islandsbanki.is/library/Myndir/Greining/Morgunkorn/Ferdatjonustuskyrsla.PDF
Neðanmálsgrein: 4
    4 Íslensk ferðaþjónusta, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Íslensk ferðaþjónusta, bls. 19.