Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1201  —  580. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um bann við mismunun.


     1.      Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna og/eða frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði á yfirstandandi þingi líkt og þingmálaskrá ríkisstjórnar kveður á um? Telur ráðherra mikilvægt að frumvörpin nái fram að ganga og verði að lögum sem fyrst?
    Líkt og fram kemur í áætlun ríkisstjórnar Íslands um framlagningu þingmála á 144. löggjafarþingi 2014–2015 hefur ráðherra haft í hyggju að leggja fram tvö frumvörp er lúta að jafnri meðferð einstaklinga. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna og hins vegar frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þá hefur ráðherra ítrekað þessa fyrirætlan í svari við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um viðbrögð við aldurstengdri mismunun á vinnumarkaði, sbr. þskj. 978 í 509. máli á yfirstandandi þingi.
    Vegna mikilla anna í velferðarráðuneytinu hefur hins vegar ekki náðst að ljúka vinnu við smíði frumvarpanna en fyrirhugað er að leggja þau fram á 145. löggjafarþingi haustið 2015.

     2.      Telur ráðherra að hér á landi skorti heildstæð jafnræðislög sem feli í sér bann við hvers kyns mismunun á öllum sviðum daglegs lífs, sbr. athugasemdir Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) í úttekt sem birtist 24. febrúar 2015?

    Ráðherra telur mikilvægt að hér á landi sé einstaklingum ekki mismunað, beint eða óbeint, svo sem á grundvelli kyns, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna eða annarra þátta. Á þetta við á öllum sviðum samfélagsins, þ.m.t. á vinnumarkaði.
    Almenna leiðbeiningarreglu um bann við mismunun er að finna í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem ávallt ber að hafa að leiðarljósi. Þessi jafnræðisregla er orðuð mjög rúmt en ekki má líta á atriðin sem þar eru nefnd sem tæmandi talningu enda er í ákvæðinu lagt bann við að mismuna einstaklingum eftir stöðu þeirra að öðru leyti. Er reglunni ætlað að gilda á öllum sviðum löggjafar og veita öllum jafna lagavernd. Í athugasemdum við 3. gr. stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, er þó tekið fram að hafa verði í huga að reglan sé öðrum þræði stefnuyfirlýsing sem varasamt sé að taka of bókstaflega án tillits til aðstæðna sem geta réttlætt eðlilegt frávik frá þessu jafnræði fyrir lögunum. Jafnframt kemur fram að markmið jafnræðisreglunnar sé framar öllu að koma í veg fyrir manngreinarálit.
    Verður því að ætla að almennt sé óheimilt að mismuna fólki á öllum sviðum samfélagsins, enda þótt frávik kunni að vera fyrir hendi frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli tiltekinna þátta, séu færð fyrir því málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði og ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná settu markmiði.
    Enn fremur eru í gildi lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, en meðal þess sem fram kemur í 1. gr. þeirra laga er að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Jafnframt kemur fram að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.
    Auk þess er ýmsum lögum sem sett hafa verið hér á landi sérstaklega ætlað að tryggja jafna meðferð á vinnumarkaði. Má þar nefna lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum, lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, lög nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lög nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum, lög nr. 10/2004, um starfsmenn í hlutastörfum, með síðari breytingum, lög nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, með síðari breytingum, og lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.
    Þá hafa íslensk stjórnvöld fullgilt milliríkjasamninga sem ætlað er að stuðla að jafnri meðferð í samfélaginu en þar má nefna mannréttindasáttmála Evrópu, samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og Félagsmálasáttmála Evrópu.
    Að mati ráðherra eru því í gildi hér á landi ýmis lög sem ætlað er að tryggja jafna meðferð einstaklinga á hinum ýmsu sviðum samfélagsins.
    Þess ber jafnframt að geta að við gerð þeirra frumvarpa sem fjallað er um í 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur m.a. verið litið til athugasemda Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi 1 (e. European Commission against Racism and Intolerance, ECRI) sem beint hefur verið að íslenska ríkinu og nefndar eru í 2. tölul. fyrirspurnarinnar sem og einnig til löggjafar annarra ríkja um þetta efni. Sérstaklega hefur verið litið til norrænnar löggjafar í þessu sambandi en afar mismunandi er með hvaða hætti önnur ríki hafa fjallað um bann við mismunun í löggjöf sinni.
    Þau frumvörp sem ráðherra hefur í hyggju að leggja fram á Alþingi á næsta löggjafarþingi og fjallað er um í 1. tölul. eru að mati ráðherra mikilvæg viðbót við þau lög sem þegar hafa verið sett hér á landi í umræddum tilgangi.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.coe.int/t/dghl/monitoring/ecri/Country-by-country/Iceland/ISL-IFU-IV-2015-003-ENG.pdf