144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1211  —  555. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni         
um birtingu gagna um endurreisn viðskiptabanka.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Á grundvelli hvaða laga, reglna, úrskurða eða ákvarðana er hægt að birta opinberlega eftirfarandi gögn hins opinbera sem vísað er til í kafla 3.3 í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um endurreisn viðskiptabankanna (694. mál 139. þings):
     a.      samning um stofnfjármögnun,
     b.      rammasamning og samning um útgáfu skuldabréfa,
     c.      upphafleg skuldabréf,
     d.      skilyrt skuldabréf,
     e.      tryggingar,
     f.      samning um meðferð krafna um skuldajöfnun,
     g.      hluthafasamning?

    Í fyrirspurninni er vísað til kafla 3.3 í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskipta bankanna sem lögð var fyrir Alþingi hinn 30. mars 2011. Í kaflanum er gerð grein fyrir niður stöðum samninga í tengslum við stofnun Landsbankans hf.
    Helstu upplýsingar um samningana eru birtar í áðurnefndri skýrslu fjármálaráðherra. Auk þess hefur hluti þeirra gagna sem vísað er til verið birtur opinberlega í heild sinni eða aðgangur veittur að þeim á grundvelli upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá er rétt að nefna að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í nokkur skipti fjallaði um málefni tengd samningum af sama toga á milli Nýja Kaupþings hf. (nú Arion banka hf.) og slitabús Kaupþings.
    Íslenska ríkið átti ekki aðild að öllum samningunum og m.a. vegna þess var nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá nefndinni að hvaða marki væri heimilt að veita upplýsingar sem snertu fjárhagslega hagsmuni þeirra einkaaðila sem áttu aðild að samningunum, þ.e. gömlu og nýju bankanna. Þá þurfti að leggja mat á sjónarmið um þagnarskyldu samkvæmt lögum um fjár málafyrirtæki, nr. 161/2002, og þagnarskyldu samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Rétt er að nefna að Hagsmunasamtök heimilanna óskuðu eftir aðgangi hjá Fjármálaeftir litinu að öllum gögnum sem vörðuðu yfirfærslu eigna gömlu bankanna til hinna nýju og lyktaði því máli með úrskurði úrskurðarnefnda um upplýsingamál hinn 30. maí 2014 í máli nr. 531/2014 . Sá úrskurður tekur á flestum álitaefnum sem fjallað er um í fyrirspurninni og má almennt vísa til hans um lagagrundvöll fyrir afhendingu viðkomandi samninga.
    Upplýsingaréttur almennings og heimildir stjórnvalda til að gera upplýsingar aðgengilegar opinberlega sæta hliðstæðum takmörkunum. Stjórnvöld geta birt opinberlega upplýsingar að því marki sem slík birting er ekki háð takmörkunum vegna lögmætra hagsmuna einstaklinga og annarra lögaðila eða mikilvægra almannahagsmuna. Heimildir stjórnvalda til þess að birta upplýsingar og takmarkanir á þeim fara þannig saman við heimildir almennings til þess að óska eftir aðgangi að upplýsingum. Þau gögn sem tilgreind eru í fyrirspurninni og heimilt er að birta hafa annaðhvort þegar verið birt eða aðgangur veittur að þeim.
    Verður nú vikið að úrlausnum um afhendingu þeirra gagna sem talin eru upp í fyrirspurn inni.
     a.      Aðgangur að samningi LBI og Landsbankans um stofnfjármögnun Landsbankans og um uppgjör milli bankanna tveggja („Capitalisation Agreement“) frá 15. desember 2009 hefur verið veittur í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 30. maí 2014 í máli nr. A-531/2014. Engar takmarkanir eru því á heimildum til birtingar skjalsins.
     b.      Rammasamningur um útgáfu skuldabréfa. Í samningnum er kveðið á um innbyrðis til högun á uppgjöri á milli LBI og Landsbankans hf. og ekki er um eiginlega ráðstöfun opinberra eigna að ræða, eins og staðfest var í áðurnefndum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Sagði nefndin að um væri að ræða upplýsingar sem þessir aðilar ættu rétt á að ekki yrði upplýst um, með eftirfarandi röksemdum: „Að áliti úrskurðarnefndar um upplýsingamál er samkvæmt framangreindu um að ræða samninga og gögn sem varða mikilvæg viðskipta- og fjárhagsmálefni bankanna, eftirlitsskyldra aðila skv. 2. gr. laga nr. 87/1998, sbr. 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002. Þagnarskylda bankanna samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu færðist til Fjármálaeftirlitsins þegar stofn unin tók við gögnunum skv. 2. mgr. Tekið skal fram að mjög víða í umræddum gögnum er einnig að finna upplýsingar sem falla myndu undir 9. gr. upplýsingalaga ætti hin sér staka þagnarskylda ekki við um þær. Þetta á við um svo stóran hluta gagnanna að ekki kemur til greina að leggja fyrir Fjármálaeftirlitið að veita aðgang að því sem eftir stendur, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.“
     c.      Upphafleg skuldabréf. Á sömu forsendum og áður greinir (í b-lið) er óheimilt að veita aðgang að skuldabréfum samkvæmt rammasamningi um útgáfu skuldabréfa.
     d.      Skilyrt skuldabréf. Nefndin staðfesti að óheimilt væri að afhenda gögnin, á sama grundvelli (sbr. b-lið), enda mæla þau fyrir um „viðkvæma þætti varðandi aðferðir sem viðhafðar voru við uppgjör fjárhagslegra skuldbindinga“ á milli gamla og nýja bankans.
     e.      Tryggingar. Á sömu forsendum og áður greinir er óheimilt að veita aðgang að veðsamn ingum til tryggingar útgáfu skuldabréfa á milli gamla og nýja bankans.
     f.      Samningur um meðferð krafna um skuldajöfnun. Nefndin staðfesti að óheimilt væri að afhenda samning um skuldajöfnun (Agreement in relation to set-off arrangements and inter-company claims), á sama grundvelli og áður greinir, enda er í samningnum mælt fyrir um „viðkvæma þætti varðandi aðferðir sem viðhafðar voru við uppgjör fjárhags legra skuldbindinga“ á milli gamla og nýja bankans.
     g.      Hluthafasamningur („Shareholders' Agreement“) á milli NBI hf. (nú Landsbankans hf.), Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.) og fjármálaráðuneytisins f.h. ríkisstjórnar Íslands frá 15. desember 2009 var birtur með frétt á vef ráðuneytisins hinn 11. janúar 2012.
    Hagsmunir lögaðila af fjárhags- eða viðskiptalegum toga njóta, líkt og aðrir einkahags munir, verndar samkvæmt upplýsingalögum, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um eftir lit með fjármálastarfsemi. Stjórnvöldum er ekki heimilt að veita aðgang að eða birta upplýs ingar sem varða slíka hagsmuni nema samkvæmt samþykki þeirra lögaðila sem í hlut eiga.