Ferill 728. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1238  —  728. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þátttöku í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stórefla þátttöku Íslands í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi, með endurgjaldslausu útláni á varðskipi til björgunaraðgerða og með áætlun um móttöku flóttamanna af svæðinu.

Greinargerð.

    Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (United Nations High Commissioner for Refugees, UNHCR) drukknuðu yfir 3.500 flóttamenn í Miðjarðarhafi á leið sinni frá Afríku til Evrópu árið 2014. Á árinu 2015 er óttast að nú þegar hafi látist um 1.600 manns, þar af um 700 manns helgina 18.–19. apríl. Mestmegnis var þar um að ræða flóttamenn frá Afríku sem margir hverjir voru að flýja hörmulegar aðstæður í Líbíu eftir borgarastríðið þar í landi árið 2011. Ísland var meðal þeirra þjóða sem studdi loftárásirnar á Líbíu, eins og kunnugt er, og ber því siðferðilega ábyrgð á örlögum þeirra flóttamanna sem fara yfir Miðjarðarhafið.
    Viðbrögð Evrópusambandsins við auknum straumi flóttamanna yfir Miðjarðarhaf hafa fyrst og fremst verið fólgin í að auka landamæraeftirlit og koma í veg fyrir ferðir flóttamanna yfir Miðjarðarhaf. Aðildarríki Evrópusambandsins hafa ekki komið sér saman um mannúðlega stefnu varðandi móttöku flóttamanna á sama tíma og straumur flóttamanna yfir Miðjarðarhaf hefur aukist hröðum skrefum. Viðbrögð sambandsins hafa í allt of ríkum mæli falist í að safna flóttamönnum saman í suðurhluta álfunnar í von um að geta sent þá aftur til upprunalands.
    Haustið 2013 hóf ítalski sjóherinn Mare Nostrum-aðgerðina, þar sem lögð var áhersla á að koma þeim til hjálpar sem hafa lent í óförum á Miðjarðarhafi og hlaut til þess fjárhagsstuðning frá framkvæmdastjórn ESB. Þeim aðgerðum lauk haustið 2014 og við tók Triton- aðgerð Frontex, landamærastofnunar ESB. Mannúðarstofnanir hafa lýst áhyggjum af þeim breytingum, þar sem fjárveitingar til Triton eru lægri en þær voru til Mare Nostrum. Vöktunin nær því aðeins til hafsvæðisins 30 sjómílur suður af Ítalíu, í stað Miðjarðarhafsins alls áður, og óttast er að aukin áhersla á landamæraeftirlit geti komið niður á björgunarstörfum. Búast má við að ástandið versni til muna á næstu mánuðum þar sem sumarið er sá tími þegar flestir freista gæfunnar á hafinu.
    Íslenska varðskipið Týr hefur undanfarið verið leigt út til Frontex og hafa skipverjar bjargað fjölda fólks úr hafinu í tengslum við Triton-aðgerðina. Leigutími skipsins rennur hins vegar út nú í maí og því ekki horfur á öðru en að skipið hverfi af svæðinu. Von er á að þúsundir flóttamanna muni á næstu mánuðum gera tilraun til að komast yfir Miðjarðarhaf á yfirfullum skipum líkum þeim sem farist hafa að undanförnu, og því ljóst að þörfin á viðveru varðskipsins hefur sjaldan eða aldrei verið meiri.
    Hér er lagt til að veitt verði fé til Landhelgisgæslunnar svo varðskip geti sinnt björgunarstörfum á Miðjarðarhafi út sumarið, án endurgjalds. Flutningsmenn tillögunnar leggja áherslu á að þessi aðstoð verði ekki á forsendum landamæravörslu Evrópusambandsins heldur á forsendum mannúðaraðstoðar og því í samstarfi við hjálparsamtök fremur en landamærastofnanir. Bent er á í því samhengi að samtökin Læknar án landamæra hafa tilkynnt að þau muni skipuleggja björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafinu í sumar til að mæta þeirri brýnu þörf sem fyrirsjáanlegt er að skapist.
    Enn fremur er hér lagt til að mótuð verði áætlun um móttöku flóttamanna frá hinum stríðshrjáðu löndum í kringum Miðjarðarhafið, þar á meðal Sýrlandi og Líbíu. Íslandi ber skylda til að leggja sitt af mörkum til að veita fórnarlömbum stríðsátaka skjól og hæli, líkt og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert með myndarlegum hætti. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að Ísland ber sérstaka ábyrgð á flóttamönnum frá Líbíu í krafti þess að hafa verið meðal stuðningsþjóða loftárásanna þar í landi árið 2011.