Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1252  —  648. mál.
Texti felldur brott.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um kröfur Evrópusambandsins um að íslensk stjórnvöld skýri stöðu aðildarviðræðna.


1.      Hverjar hafa kröfur Evrópusambandsins verið er lúta að því að íslensk stjórnvöld skýri stöðu aðildarviðræðna eftir að samninganefndin var leyst frá störfum í september 2013?
2.      Hvenær og hvernig var þessum kröfum komið á framfæri af hálfu Evrópusambandsins og hver voru viðbrögð ráðuneytisins? Hvaða gögn liggja þessum samskiptum til grundvallar og hvert er efni þeirra?
    Frá því hlé var gert á aðildarviðræðum í janúar 2013 og í kjölfar ríkisstjórnarskipta síðar sama ár hafa talsmenn Evrópusambandsins talið mikilvægt að skýrleiki fengist í afstöðu íslenskra stjórnvalda til aðildarferilsins. Hinn 13. júní 2013, skömmu eftir að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum, átti utanríkisráðherra fund með Stefan Füle, þáverandi stækkunarstjóra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Brussel þar sem honum var greint frá því hvað fælist í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á aðildarviðræðum. Á blaðamannafundi í kjölfarið sagði stækkunarstjórinn mikilvægt að ríkisstjórn Íslands ætlaði sér ekki ótakmarkaðan tíma í að endurmeta viðræðurnar. Í Brussel átti utanríkisráðherra einnig fund með Linas Linkevicius, litháenskum starfsbróður sínum sem tók við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins 1. júlí 2013, og kynnti fyrir honum ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Nokkrum vikum síðar átti forsætisráðherra fundi í Brussel með José Manuel Barroso, þáverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Herman Van Rompuy, þáverandi forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, þar sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar var einnig skýrð. Á þessum fundum kom fram eindregin ósk Evrópusambandsins um að eyða óvissu í málinu sem var ítrekuð á blaðamannafundum í tilefni af fundunum. Þar sagði til að mynda forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins að það væri hagur beggja að forðast að við tæki langur tími óvissu. Fundir þessir voru byggðir á samtölum og ekki skipst á neinum gögnum að því er varðar ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í bréfi utanríkisráðherra til stækkunarstjóra framkvæmdastjórnarinnar í september sama ár var sá síðarnefndi upplýstur um, með vísan í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, að þess hefði verið óskað af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að hún gerði úttekt á stöðu aðildarviðræðnanna sem og þróun mála innan Evrópusambandsins frá því að Ísland sótti um. Var stækkunarstjórinn enn fremur upplýstur um að í ljósi þess að aðildarviðræður hefðu verið stöðvaðar og alls óljóst um hvort, hvenær eða hvernig þær yrðu teknar upp aftur, þá hefðu samninganefndir verið leystar frá störfum.

3.      Í hverju fólst það samráð sem átti sér stað við Evrópusambandið í aðdraganda þess að ráðherra afhenti bréf um stöðu aðildarviðræðna 12. mars sl., bæði af hálfu ráðherra og embættismanna ráðuneytisins? Hvaða gögn liggja þessum samskiptum til grundvallar og hvert er efni þeirra?
    Lengi hafa legið fyrir eindregnar óskir forsvarsmanna Evrópusambandsins um að eyða sem fyrst allri óvissu um viðræðurnar, eins og fram kemur í 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Í ljósi þessa hafði utanríkisráðherra í febrúar sl. frumkvæði að því að taka næstu skref í málinu. Ráðherra átti samtal við lettneskan starfsbróður sinn, sem gegnir formennsku ráðherraráðs Evrópusambandsins, þar sem rætt var á hvern hátt endi yrði bundinn á aðildarferli Íslands. Í fram­haldi þess var haldinn einn fundur embættismanna með fulltrúum formennsku Evrópusambandsins í Brussel og annar fundur með fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Að þessu loknu fóru fram óformleg samskipti þar sem Ísland upplýsti fulltrúa formennskunnar og framkvæmdastjórnarinnar um frekari framvindu málsins. Að þessum málaleitunum loknum ákvað ríkisstjórnin að senda bréf til formennsku ráðherraráðs Evrópusambandsins 12. mars sl. Engin skipti á gögnum fóru fram á þessum fundum.