Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
2. uppprentun.

Þingskjal 1259  —  420. mál.
Leiðrétt dagsetning.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Thorsil ehf.
um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Jón Ásgeir Tryggvason frá embætti ríkisskattstjóra og Hákon Björnsson frá Thorsil ehf. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Byggðastofnun, Landvernd og Náttúruverndarsamtökum Suð­vesturlands, embætti ríkisskattstjóra og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er ráðherra veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Thorsil ehf. sem var undirritaður 30. maí 2014. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal við frumvarpið en verði það að lögum mun samningurinn hafa lagagildi hér á landi.
    Fyrirtækið áætlar að reisa og reka kísilmálmverksmiðju til að framleiða allt að 54 þúsund tonn af kísilmálmi á ári. Í fjárfestingarsamningnum er kveðið á um ívilnanir sem felast í tilteknum frávikum frá sköttum og gjöldum. Að undanskildum þeim frávikum er gert ráð fyrir því að félagið verði starfrækt í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
    Þau takmörk eru á framangreindum ívilnunum að þær skulu samtals ekki nema hærri fjárhæð en 769,4 milljónum íslenskra króna, að núvirði. Samningurinn gildir í 13 ár frá staðfestingu ráðherra á honum en með þeirri undantekningu að umræddar ívilnanir gilda að hámarki í 10 ár frá því að til viðkomandi gjaldskyldu eða skattskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í þau 13 ár sem fjárfestingarsamningurinn er í gildi.
    Við umfjöllun um málið kom fram að gerður hefði verið viðauki við fjárfestingarsamninginn hinn 17. febrúar sl. Í honum felst að 13. gr. og B-liður gr. 20.1 samningsins falli brott þar sem aðilar hans telja efni hans falla undir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/ 2014 frá 21. maí 2014 um almenna hópundanþágu og þarfnist því ekki samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Meiri hlutinn telur að verkefnið muni gagnast vel á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er talsvert og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Við 1. málsl. bætist: sem og viðaukasamning sem undirritaður var 17. febrúar 2015.
                  b.      2. málsl. orðist svo: Samningurinn og viðauki við hann eru birtir sem fylgiskjal með lögum þessum og hafa lagagildi hér á landi.
     2.      Við fylgiskjal bætist nýr viðauki, svohljóðandi:

VIÐAUKI VIÐ FJÁRFESTINGARSAMNING MILLI
RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS OG THORSIL EHF.


    Þann 30. maí 2014 var undirritaður fjárfestingarsamningur á milli ríkisstjórnar Íslands og Thorsil ehf.
    Í 13. gr. samningsins er tekið fram að tilgangur Thorsil sé að framleiða vöru, sem fellur innan vörusviðs EES-samningsins. Því verði ákvörðun um fjárfestingu ekki tekin fyrr en ríkisaðstoð, sem samningurinn felur í sér, hafi verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og hún fallist á að ríkisaðstoð sem í samningum felst samrýmist EES-samningnum.
    Í B-lið gr. 20.1. í samningnum er kveðið á um að samningurinn öðlist gildi þegar Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki sitt við þeirri ríkisaðstoð sem í samningnum felst.
    Það er mat samningsaðila að fjárfestingarsamningurinn og efni hans falli undir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 21. maí 2014 um almenna hópundanþágu (GBER) sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 152/2014 frá 27. júní 2014. Með hliðsjón af framangreindu þarfnast samningurinn og þær ívilnanir sem þar er kveðið á um ekki samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Af framangreindri ástæðu eru samningsaðilar sammála því að fella skuli brott úr fjárfestingarsamningnum ákvæði 13. gr. og B-liðar gr. 20.1. Með undirritun viðauka þessa eru framangreind ákvæði felld brott úr fjárfestingarsamningnum.
    Fjárfestingarsamningurinn skal að öðru leyti standa óbreyttur.

Reykjavík 17. febrúar 2015


f. h. ríkisstjórnar Íslands

Ragnheiður Elín Árnadóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

f. h. Thorsil ehf.

John Fenger
stjórnarformaður
Vottar:

________________________________________


________________________________________



    Haraldur Benediktsson og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Kristján L. Möller.
Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson.