Ferill 593. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1276  —  593. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Á. Andersen
um undanþágur frá EES-gerðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu oft og í hvaða tilvikum hefur Ísland á árabilinu 2000–2014 óskað eftir undanþágum frá innleiðingu EES-gerða á vettvangi sam­eigin­legu EES-nefndarinnar? Hversu oft hefur verið fallist á slíkar undanþágur?
     2.      Hversu oft hafa Noregur og Liechtenstein óskað eftir sambærilegum undanþágum á sama tímabili og hversu oft hefur verið fallist á slíkt?


    Um 10.460 gerðir hafa verið teknar upp í EES-samninginn frá upphafi en í dag eru um 4.500 þeirra enn í gildi. Til þess að ESB-gerðir verði hluti af EES-samningnum þarf sam­eigin­lega EES-nefndin að fella þær sérstaklega inn í EES-samninginn með sérstökum ákvörðunum þar að lútandi og hafa gerðir ESB þannig ekki bein lagaáhrif í EES/EFTA-ríkjunum. Í ýmsum tilfellum er í slíkum ákvörðunum sérstaklega samið um hvort og með hvaða hætti ESB-gerð taki til EES/EFTA-ríkja á grundvelli EES-samningsins. Í því ferli er m.a. unnt að semja um aðlaganir og undanþágur af ýmsu tagi, jafnt tæknilegar sem efnislegar. Tæknilegar aðlaganir fela ekki í sér efnislegar breytingar heldur er að öllu jöfnu einungis verið að bæta upptalningu á t.d. lögbærum yfirvöldum á Íslandi eða íslenskum sérfræðiheitum við lista yfir lögbær yfirvöld eða sérfræðiheiti ESB-ríkjanna í viðkomandi gerðum. Efnislegar aðlaganir geta hins vegar falið í sér breytingar á gerðum vegna sérstakra aðstæðna. Þá er einnig unnt að undanþiggja ríki innleiðingu gerðar að heild eða að hluta.
    Þá kalla ekki allar gerðir sem teknar eru upp í EES-samninginn á innleiðingu hérlendis, en bæði fer það eftir eðli viðkomandi gerða (reglugerðir, tilskipanir, ákvarðanir, tilmæli) að hvaða skapi um bindandi skuldbindingu er að ræða. Auk þess er ekki skylt að innleiða gerðir sem teknar eru upp í viðauka 31 við EES-samninginn um samstarf utan fjórfrelsisins, jafnvel þótt um reglugerðir eða tilskipanir sé að ræða.
    Ekki liggja fyrir tölur yfir óskir um aðlaganir eða undanþágur frá gerðum, hvorki hérlendis, hjá hinum EES/EFTA-ríkjunum né hjá EFTA-skrifstofunni. Ráðherra mun óska þess að lagt verði fram á lestrarsal Alþingis yfirlit frá 17. ágúst 2011 yfir efnislegar aðlaganir og undanþágur Íslands fram að þeim tíma og veitir það skjal vissa yfirsýn. Frá þeim tíma hafa um 1.800 gerðir verið felldar inn í EES-samninginn með 902 ákvörðunum sam­eigin­legu EES-nefndarinnar.
    Ísland hefur þannig samið um ýmsar aðlaganir og undanþágur, hvort sem er að hluta eða í heild. Sem dæmi um nokkrar undanþágur sem Ísland hefur samið um eru t.d. veigamiklar undanþágur frá gerðum um reglur er varða dýraheilbrigði og lifandi dýr. Einnig gilda sérgreindar undanþágur í þessu tilliti, svo sem að því er varðar heimildir til að fóðra jórturdýr hér á landi með fiskmjöli og að því er varðar reglur um viðbrögð við riðu í sauðfé. Jafnframt er Ísland undanskilið tilskipun um orkunýtni bygginga, tilskipun um sumartíma og gerðum sem varða jarðgas. Þá er Ísland einnig undanþegið sam­eigin­legum reglum um flugvernd í almenningsflugi að hluta, þ.e. hvað innanlandsflug varðar. Eins og að framan greinir er auk slíkra undanþága unnt að semja um aðlaganir og sérlausnir af ýmsum toga, svo sem aðlaganir sem Ísland hefur samið um í tengslum við upptöku orkupakka ESB í EES-samninginn sem og við upptöku á ýmsum tilskipunum ESB á sviði um­hverfismála. Þá má bæta við að Ísland þarf hvorki að innleiða gerðir á sviði lestarsamgangna né um skipgengar vatnaleiðir.