Ferill 723. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1283  —  723. mál.




Svar


um­hverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um vistvæn ökutæki.


     1.      Hefur ráðherra mótað framtíðarstefnu um notkun vistvænna ökutækja í starfsemi ríkisins, þ.e. ökutækja sem nota endurnýjalega orkugjafa? Ef svo er, hver er stefnan í stuttu máli?
    Í mars árið 2007 setti ríkisstjórnin fram þau markmið að í lok árs 2008 yrðu 10% bifreiða í eigu ríkisins knúnar vistvænum orkugjöfum, 20% í lok árs 2010 og 35% í lok árs 2012. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er ein af tíu svokölluðum lykilaðgerðum að efla notkun ríkis og ­sveitarfélaga á sparneytnum og vistvænum ökutækjum. Í skýrslu samstarfshóps um eftirfylgni aðgerðaáætlunarinnar frá 2013 kemur fram að Ríkiskaup hafi strax árið 2008 sett fram kröfur um um­hverfisvænni bifreiðar í bifreiðaútboði og það hafi aftur verið gert í síðari útboðum. Vistvænni bifreiðar eru enn sem komið er margar dýrari en hefðbundnar bensín- og dísilbifreiðar. Ýmislegt hefur reyndar verið gert til að lækka kostnað á sparneytnum og vistvænum bílum, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     2.      Hefur ráðherra mótað stefnu við kaup og leigu slíkra ökutækja til notkunar í starfsemi rikisins? Ef svo er, hver er hún í stuttu máli?
    Ráðherra mótar ekki stefnu um kaup og leigu ökutækja fyrir hönd ríkisvaldsins í heild, en tvívegis hefur verið sett fram stefna um að efla hlut vistvænna ökutækja þar, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Búið er að setja um­hverfisskilyrði fyrir visthæfar bifreiðar, hvort sem um er að ræða kaup eða leigu. Um­hverfisskilyrðin skiptast í grunn- eða ítarviðmið og hafa ákveðin lágmarksskilyrði verið skilgreind, m.a. vegna losunar koldíoxíðs (CO 2 g/km) og útblásturs bifreiða. Á árinu 2014 kom inn í rammasamninga ríkisins um bílakaup ákvæði í heild sinni um um­hverfisskilyrði í þeim flokki. Ráðherra mælti fyrir frumvarpi á yfirstandandi þingi um breytingu á lögum um loftslagsmál sem eiga að stuðla enn frekar að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum. Frumvarpið kveður á um að opinberir aðilar skuli við innkaup á farþega- og vöruflutningabifreiðum taka tillit til líftímakostnaðar farartækis hvað varðar orkunotkun þess og um­hverfisáhrif. Útreikningur líftímakostnaðar bifreiðar getur haft í för með sér að hagkvæmara verður að kaupa inn bifreið sem gengur fyrir vistvænni orku en hefðbundna bifreið jafnvel þótt innkaupsverð sé hærra. Samþykkt frumvarpsins ætti að stuðla að því að ríki og stærstu ­sveitarfélögin kaupi fleiri sparneytin og um­hverfisvæn ökutæki. Þótt miðað hafi í rétta átt mætti þróunin auðvitað vera hraðari. Samstarfshópur um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum telur að það mundi hjálpa til við að ná aukinni útbreiðslu á bifreiðum sem nýta innlenda orkugjafa, svo sem metangas og rafmagn, ef til staðar væri þéttara dreifikerfi metangass og möguleiki á hraðhleðslu á rafmagni á fjölförnum viðkomustöðum.

     3.      Hefur ráðherra stefnu sem snýr að því að auka hlutfall vistvænna ökutækja hér á landi? Ef svo er, hver er stefnan í stuttu máli?
    Það er ein af tíu lykilaðgerðum í loftslagsmálum að breyta kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti í því skyni að auka hlutfall vistvænna ökutækja. Verulegar breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi skattlagningar ökutækja á undanförnum árum í því skyni að ívilna sparneytnari ökutækjum og ökutækjum sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum og draga þannig úr losun koldíoxíðs. Breytingar hafa verið gerðar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem skattlagning á ökutækjum er miðuð við losun þeirra á koldíoxíði við akstur. Sparneytnari ökutækjum er ívilnað og fólk þannig hvatt til að fjárfesta fremur í slíkum. Virðisaukaskattur af rafmagns- og vetnisbifreiðum og svokölluðum tvinnbifreiðum var felldur niður upp að ákveðinni fjárhæð. Markmið þessarar heimildar er að lækka innkaupsverð rafmagns-, vetnis- og tvinnbifreiða og styrkja þannig orkuskipti í sam­göngum. Einnig hafa verið settar í gildi ívilnanir fyrir vistvænt eldsneyti og fyrir hópferðabifreiðar og almenningsvagna sem uppfylla ákveðna um­hverfisstaðla. Margt bendir til að þessar aðgerðir hafi haft tilætluð áhrif að einhverju leyti, en einnig er ljóst að fleira hefur áhrif, svo sem framboð og verð á vistvænum ökutækjum, fremur hæg endurnýjun bílaflotans á undanförnum árum og takmarkað framboð á metani og hraðhleðslu á rafmagni.

     4.      Hver er stefnumótun ráðherra út frá um­hverfissjónarmiðum þegar kemur að endurnýjun ráðherrabifreiða?
    Útboð fyrir ráðherrabifreiðar var auglýst í nóvember 2011. Í útboðinu var óskað eftir tilboðum í tvo flokka, annars vegar flokk 1, ráðherrabifreiðar, og hins vegar flokk 2, ráðherrabifreiðar með auknar um­hverfiskröfur. Í báðum flokkum komu bifreiðar til greina með orkugjöfum sem nýta bensín, dísil eða rafmagn og jafnframt að eyðsla þeirra í blönduðum akstri skyldi vera undir 8 lítrum/100 km. Útboðið gerði einnig kröfu um um­hverfisvænar bifreiðar, en flokkurinn um auknar um­hverfiskröfur gerði aftur á móti ráð fyrir minni koltvísýringsmengun (CO 2 g/km) eða undir 80 g/km.