Ferill 714. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1286  —  714. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um endurgreiddan kostnað vegna tannlækninga örorkulífeyrisþega.


     1.      Hversu margir örorkulífeyrisþegar hafa fengið endurgreiddan kostnað vegna tannlækninga á hverju ári frá 2007?
     2.      Hversu hátt hlutfall tannlæknakostnaðar síns fengu öryrkjar að meðaltali endurgreitt á sama tíma, sundurliðað fyrir hvert ár?
    Svar við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar kemur fram í meðfylgjandi töflu. Meginþorri örorkulífeyrisþega á rétt á 75% endurgreiðslu tannlæknakostnaðar á grundvelli viðmiðunargjaldskrár sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) gefa út.
    Fjöldi örorkulífeyrisþega sem hafa fengið endurgreiddan kostnað vegna tannlækninga á hverju ári frá 2007 kemur fram í 2. dálki í töflunni. Hlutfall tannlæknakostnaðar sem örorkulífeyrisþegar fengu að meðaltali endurgreitt á hverju ári kemur fram í aftasta dálki töflunnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hversu mikið hefur viðmiðunargjaldskrá ráðherra vegna tannlækninga (gjaldskrá nr. 898/2002), sem endurgreiðslur vegna tannlækninga eru grundvallaðar á, verið hækkuð frá því hún tók gildi 2002 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga?
    Viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands fyrir tannlækningar, nr. 898/2002, tók gildi 1. janúar 2003. Endurgreiðslur til lífeyrisþega samkvæmt núgildandi gjaldskrá, nr. 305/2014, eru 5,9% hærri en samkvæmt eldri gjaldskránni. Til að fylgja verðlagsbreytingum, mældum með vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2003, hefði gjaldskráin þurft að hækka um 90,4%.

     4.      Hvernig hafa fjárheimildir vegna tannlækninga örorkulífeyrisþega verið nýttar hjá Sjúkratryggingum Íslands frá árinu 2007, sundurliðað fyrir hvert ár?
    Fjárheimildir til Sjúkratrygginga Íslands vegna tannlækninga eru ekki sundurliðaðar niður á einstaka hópa sjúkratryggðra. Kostn­aður við endurgreiðslur vegna tannlæknakostnaðar örorkulífeyrisþega 2007–2014 kemur fram í töflu í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Er frjáls gjaldskrá tannlækna í öllum tilvikum hærri en viðmiðunargjaldskráin og ef svo er, hversu miklu hærri? Óskað er eftir ónafngreindri sundurliðun eftir öllum tannlæknum fyrir árið 2013.
    Svarið miðast við verð 276 tannlækna samkvæmt reikningum sem SÍ greiddu vegna tannlækninga örorkulífeyrisþega á árinu 2013. Í svarinu eru tannlæknar flokkaðir í tólf flokka eftir hækkandi meðalverði eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Verð í lægsta flokknum er 37% hærra en viðmiðunargjaldskrá SÍ og 207% hærra í hæsta flokknum, en að meðaltali er verð tannlækna 125% hærra en gjaldskrá SÍ.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.