Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1296  —  322. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007,
með síðari breytingum (markmið, stjórnsýsla og almenn ákvæði).


Frá minni hluta velferðarnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar er samþykkur meginmarkmiði frumvarpsins um að gera lög um almannatryggingar skýrari og aðgengilegri og lagfæra hnökra en leggst gegn efnisbreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Allt frá því að Tryggingastofnun ríkisins var sett á fót með lögum um alþýðutryggingar, nr. 26/1936, hafa lög mælt fyrir um að stofnunin hafi aðsetur í Reykjavík en gert ráð fyrir að hún hefði umboðsskrifstofur eða þjónustustöðvar víða um landið. Í d-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að vikið verði frá þeirri stefnu og þess í stað verði ráðherra fært vald til að ákveða staðsetningu stofnunarinnar og þjónustustöðva hennar.
    Aðsetur stofnunar er grundvallaratriði fyrir starfsemi og starfsmenn hennar. Mikilvægt er að ákvörðun um hana byggist á vel ígrunduðu mati og taki ekki tíðum breytingum. Æskileg festa í þessu efni er betur tryggð verði stofnanir aðeins færðar með lögum, að undangenginni þinglegri meðferð, en ekki samkvæmt ákvörðun eins manns. Sambærileg afstaða kemur fram hjá nær öllum umsagnaraðilum.
    Minni hlutinn er mótfallinn breytingunni og telur að núverandi ákvæði 10. gr. laga um almannatryggingar eigi að haldast óbreytt.
    Í a-lið 16. gr. frumvarpsins er lagt til að bætur til lífeyrisþega sem afpláni refsingu í fangelsi, sæti gæsluvarðhaldi eða séu á annan hátt úrskurðaðir til dvalar á stofnun falli þegar í stað niður, fremur en eftir fjögurra mánaða dvöl líkt og nú segir í 1. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga um almannatryggingar.
    Minni hlutinn telur það skjóta skökku við að helsta efnislega breyting á réttindum fólks í frumvarpinu beinist að því að skerða réttindi hóps sem stendur höllum fæti. Einkum er það óeðlilegt í tilviki þeirra sem sæta gæsluvarðhaldi, enda teljast þeir saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.
    Standi til að skerða réttindi örorkulífeyrisþega sem sæta gæsluvarðhaldi eða eru dæmdir til fangelsisvistar þarf að færa betri rök fyrir því en gert er í greinargerð með frumvarpinu og leggja til grundvallar yfirlit yfir réttindi fanga til þóknunar fyrir vinnu eða dagpeninga. Minni hlutinn óskaði eftir ítarlegri upplýsingum um þennan rétt fanga en telur sig ekki hafa fengið nægilega skýra mynd sem réttlæti skerðingu réttinda þeirra til örorkulífeyrisgreiðslna fyrstu fjóra mánuði fangelsisvistar. Réttara væri að vísa þessu ákvæði til nefndar sem nú vinnur að heildarendurskoðun á almannatryggingalögum.
    Minni hlutinn leggst því gegn þeirri breytingu sem lögð er til í a-lið 16. gr. frumvarpsins.
    Minni hlutinn telur þessar tvær efnisbreytingar veigamiklar og ekki í samræmi við meginmarkmið frumvarpsins og leggst gegn samþykkt þess.

Alþingi, 13. maí 2015.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Guðbjartur Hannesson. Páll Valur Björnsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.