Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1303  —  342. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



um skýrslu forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis 2013.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Ö. Guðleifsson frá forsætisráðuneyti.
    Í skýrslunni kemur fram yfirlit yfir stöðu ályktana Alþingis frá árinu 2013 en efni þeirra er í vinnslu hjá ráðuneytunum eða hefur þegar verið komið til framkvæmda. Nefndin telur að skylda forsætisráðherra skv. 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis til að leggja árlega fram skýrslu veiti framkvæmdarvaldinu mikilvægt aðhald.
    Í yfirliti sem fylgir skýrslunni yfir meðferð og framkvæmd eldri ályktana kemur fram að tvær hafa ekki að fullu verið framkvæmdar. Sú fyrri er þingsályktun nr. 54/139 frá árinu 2011 um stofnun vinnuhóps, í samvinnu við Færeyjar og Grænland og með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar, til að vinna tillögur til eflingar innviða flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlandanna í þágu aukins samstarfs á sviði ýmiss konar viðskipta og þjónustu auk vöru- og farþegaflutninga á milli landanna. Umræddur starfshópur hefur ekki verið skipaður en málið er í skoðun í ráðuneytinu.
    Síðari ályktunin sem hefur ekki að fullu verið framkvæmd er frá árinu 2010, þ.e. þingsályktun nr. 29/138 um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sú þingsályktun var yfirgripsmikil þar sem ályktað var að gera þyrfti fjölda lagabreytinga, rannsóknir, úttektir o.fl. Af lagabreytingunum sem voru 15 er ein eftir, þ.e. að sérstakri stofnun verði falið að spá fyrir um efnahagshorfur. Í skýrslunni kemur fram að framkvæmd sé ekki hafin við að skoða hvort fela eigi sjálfstæðri ríkisstofnun þetta verkefni. Nefndin telur eðlilegt að horft sé til mismunandi leiða til að tryggja að meginmarkmið með ályktun þingsins um þetta efni nái fram að ganga.
    Af rannsóknum og úttektum sem ályktað var um er eftir að ljúka einni af þremur, þ.e. stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Nefndin vekur athygli á að slík úttekt hefur ekki verið gerð eins og kveðið er á um í ályktun Alþingis en mikil vinna hefur verið innt af hendi í mati á þörf, kostum og göllum sameiningar Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Við þá vinnu hefur verið horft til fjölda atriða, m.a. fjármálakerfisins í heild, fjármálastöðugleika og stefnumótunar á fjármálamarkaði á Íslandi. Í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á fyrra kjörtímabili komu fram ýmis sjónarmið um hvað fælist í stjórnsýsluúttekt og ljóst að ekki voru allir á sama máli hvað það varðar. Samkvæmt skýrslu þingmannanefndar Alþingis sem ályktunin byggðist á átti úttektin að fara fram í þeim tilgangi að bæta, skýra og efla þær réttarheimildir sem liggja til grundvallar starfrækslu fjármálafyrirtækja, valdheimildum eftirlitsstofnana og upplýsingaflæði á milli eftirlitsstofnana og fagráðherra. Nefndin tekur fram að af framansögðu megi vera ljóst að þegar hefur farið fram úttekt á sumum þeirra þátta sem þingmannanefndin lagði áherslu á og aðrir hafa verið í skoðun. Brýnt er að byggja á þeirri vinnu en mikilvægt er jafnframt að tryggja að hún sé fullnægjandi.
    Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2015.

Ögmundur Jónasson,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Helgi Hjörvar.
Karl Garðarsson. Sigríður Á. Andersen. Vigdís Hauksdóttir.
Valgerður Bjarnadóttir. Willum Þór Þórsson.