Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1312  —  672. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985,
með síðari breytingum (ábyrgð farsala o.fl., EES-innleiðing).

Frá um­hverfis- og sam­göngunefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Örn Indriðason og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneyti. Nefndinni bárust ekki umsagnir um málið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, til innleiðingar á tveimur EES-gerðum í íslenskan rétt. Annars vegar er lagt til að innleidd verði ákvæði reglugerðar (EB) nr. 392/2009 en með reglugerðinni eru tekin upp ákvæði Aþenusamningsins um flutning farþega og farangurs þeirra á sjó frá árinu 1974, eins og honum var breytt með bókun frá 2002. Aþenusamningurinn gildir um millilandaflutninga á farþegum en með reglugerðinni er gildissvið hans rýmkað þannig að hann gildi einnig um innanlandssiglingar innan EES-svæðisins. Vikið er að helstu ábyrgðarreglum samningsins í athugasemdum við frumvarpið. Áhrif reglugerðarinnar hér á landi munu væntanlega ekki verða ýkja mikil þar sem flest farþegaskip sem sigla við Íslandsstrendur eru ekki í þeim flokkum skipa sem reglugerðin tekur til. Reglugerðin mun að óbreyttu aðeins taka til Herjólfs, Dagfara og Baldurs sem falla í flokk B. Skv. 4. gr. frumvarpsins munu ákvæði reglugerðarinnar taka gildi 30. desember 2018 gagnvart skipum í flokki B.
    Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að lögfest verði refsiheimild vegna ábyrgðar útgerðarmanns á að tryggja skip sitt skv. 1. mgr. 171. gr. a siglingalaga. Við innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB misfórst að taka upp refsiheimild tilskipunarinnar og lagt er til að úr því verði bætt með frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins

Alþingi, 20. maí 2015.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir,
með fyrirvara.
Haraldur Einarsson.
Birgir Ármannsson. Elín Hirst. Svandís Svavarsdóttir,
með fyrirvara.
Róbert Marshall,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.