Ferill 391. máls. Ferill 392. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1332  —  391. og 392. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um Haf- og vatna­rannsóknir og frumvarp til laga um breytingar
á ýmsum lögum vegna sameiningar Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Guðrúnu Gísladóttur og Sigurgeir Þorgeirsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ínu Björgu Hjálmarsdóttur frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Ingibjörgu G. Jónsdóttur, Jóhann Sigurjónsson, Pál Svavarsson og Sverri Daníel Halldórsson frá Hafrannsóknastofnun, Ölmu Lísu Jóhannsdóttur frá SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og Eydísi Njarðardóttur, Friðþjóf Árnason, Sigurð Guðjónsson og Þórólf Antonsson frá Veiðimálastofnun.
    Markmið frumvarpanna er að sameina Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun í eina stofnun sem beri heitið Haf- og vatna­rannsóknir. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um hina nýju rannsókna- og ráðgjafarstofnun þar sem kveðið er á um ráðgjafarnefnd forstjóra, hlutverk stofnunarinnar, samstarf við háskóla o.fl. (391. mál). Hins vegar er um að ræða frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar stofnananna (392. mál.).
    Í ákvæði til bráðabirgða við frumvarp til laga um Haf- og vatna­rannsóknir er kveðið á um að unnt verði að skipa forstjóra við hina nýju stofnun við gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum. Þar sem kveðið er á um gildistöku laganna 1. janúar 2016 mun forstjóri hinnar nýju stofnunar því hafa tíma til að undirbúa skipulag og starfsemi hennar.
    Jafnframt er kveðið á um að störf hjá Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun verði lögð niður en að öllum starfsmönnum skuli bjóða starf hjá nýrri stofnun. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við málið í þá veru að starfsmenn haldi kjarasamningsbundnum réttindum sem lúta að endurmenntunarleyfi og lengdum uppsagnarfresti eftir samfellt starf hjá sömu stofnun. Jafnframt leggur meiri hlutinn til tæknilegar lagfæringar á frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar stofnananna (392. mál).
    Við umfjöllun um málin voru gerðar athugasemdir við niðurlagningu starfa stofnananna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að forstjóri hinnar nýju stofnunar hafi svigrúm til að skipuleggja starfsemi hennar og vonast meiri hlutinn til að vel takist til við það verkefni. Þá bindur meiri hlutinn vonir við að sem minnst röskun verði á högum starfsmanna og mælist til þess að samráð verði haft við þá eftir því sem kostur er.
    Meiri hlutinn telur brýnt að tilfallandi kostn­aður vegna sameiningar stofnananna bitni ekki á starfsemi þeirra heldur að veitt verði sérstök fjárheimild til að standa straum af honum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvörpin verði samþykkt með framangreindum breytingartillögum sem gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.
    Kristján L. Möller og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. maí 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Páll Jóhann Pálsson,
frsm.
Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir,
með fyrirvara.
Haraldur Einarsson.