Ferill 416. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1339  —  416. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu ­sveitarfélaga,
nr. 40/1991, með síðari breytingum (skilyrði fjárhagsaðstoðar).

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Að undanförnu hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögum varðandi stuðning við fólk sem er án atvinnu sem eru til þess fallnar að auka þann kostnað sem fellur á ­sveitarfélög. Stytting atvinnuleysisbótatíma er gleggsta dæmið um það. Sveitarstjórnarfólk og samtök ­sveitarfélaga hafa réttilega gagnrýnt að við þessar breytingar hafi þess alls ekki verið nægilega gætt að tryggja ­sveitarfélögunum aukið fé til að mæta auknum verkefnum á þessu sviði sem af breytingunum hljóta að leiða. 2. minni hluti tekur undir þá gagnrýni.
    Það er afar mikilvægt að hafa lagalegt um­hverfi sem ­sveitarfélög búa við að þessu leyti þannig að það fé sem þau leggja í fjárhagsaðstoð við einstaklinga sem á henni þurfa að halda og rétt eiga á henni nýtist sem best og að einstaklingar verði sem mest hvattir og studdir til náms eða atvinnuleitar og annarrar virkni eftir því sem best þjónar stöðu og hagsmunum hvers og eins. Við setningu laga og reglna þar að lútandi og alla stjórnsýsluframkvæmd og eftirlit þarf að gæta vel að ýmsum atriðum sem lúta að mannhelgi og ýmsum mjög mikilsverðum mannréttindum, svo sem réttinum til grunnframfærslu, jafnræðis og einkalífs.
    Annar minni hluti tekur undir þau markmið frumvarpsins að auka möguleika ­sveitarfélaga til að veita þiggjendum fjárhagsaðstoðar uppbyggilegt aðhald til aukinnar virkni sem er til þess fallin að auka líkur á að þeir komist í launuð störf og þurfi því síður á fjárhagsaðstoð að halda. 2. minni hluti telur að þar sé nálgun sem felur í sér umbun frekar en þvingun líklegri til árangurs og í betra samræmi við sjónarmið um mannhelgi og mannréttindi. 2. minni hluti telur að ákvæði frumvarpsins sem lúta að skerðingu fjárhagsaðstoðar uppfylli ekki nægilega vel kröfur sem leiðir af þeim sjónarmiðum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ­sveitarfélög fái heimild að lögum til að setja reglur um skilyrði fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar. Hér er um heimildarákvæði að ræða sem þýðir að gera verður ráð fyrir að þessi heimild, verði hún að lögum, verði nýtt í sumum ­sveitarfélögum en ekki í öðrum og að reglur sem settar kunna að verða verði að einhverju leyti mismunandi milli ­sveitarfélaga þó að þær verði í öllum tilvikum innan þess ramma sem ákvæði frumvarpsins marka.
    Í fjárhagsaðstoð ­sveitarfélaga felst trygging fyrir lágmarksframfærslu einstaklings. Skerðing slíkrar lágmarksframfærslu, þó að tímabundin sé, þýðir fyrir hlutaðeigandi einstakling sem er háður henni að honum er ætlað að framfæra sig fyrir lægri fjárhæð en nemur því sem nauðsynlegt er til lágmarksframfærslu að mati stjórnvalda sem lög fela matið. Hér er því um að ræða afar mikla hagsmuni fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli og mjög mikilsverð réttindi samkvæmt lögum og alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum. Í því ljósi telur 2. minni hluti að skoða þurfi betur en gert hefur verið hvernig það samræmist kröfum sem leiðir af ákvæðum íslenskra laga og mannréttindasamninga sem Ísland hefur fullgilt og banna mismunun fólks að tryggja ekki betur en gert er í lögunum og í frumvarpi þessu að samræmi sé milli ­sveitarfélaga hvað varðar ákvörðun fjárhæðar fjárhagsaðstoðar sem og reglur og skilyrði sem ­sveitarfélög setja þar að lútandi.
    Með vísan til þess sem að framan er rakið getur 2. minni hluti ekki stutt frumvarpið í þeirri mynd sem það nú er.

Alþingi, 22. maí 2015.

Páll Valur Björnsson.