Ferill 674. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1368  —  674. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Sam­göngustofu, stjórnsýslustofnun sam­göngumála, og lögum um loftferðir, með síðari breytingum
(gjaldskrárheimildir, lagastoð fyrir EES-innleiðingu).


Frá um­hverfis- og sam­göngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Örn Indriðason og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneyti. Nefndinni barst umsögn um málið frá Isavia.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem eru að hluta til tilkomnar vegna þess að við stofnun Sam­göngustofu með setningu laga nr. 119/2012 voru felldar brott gjaldskrárheimildir sem áður voru til staðar og lagt til að þeim verði komið fyrir á ný. Þá eru lagðar til heimildir til innleiðingar EES-gerða en móðurgerðir þeirra gerða voru innleiddar með reglugerð og því ekki til staðar lagastoð til innleiðingar á framkvæmdarreglugerðum móðurgerðanna. Auk þess er lagt til að sett verði heimild fyrir Sam­göngustofu að greiða kostnað vegna starfa samræmingarstjóra. Kostn­aður vegna starfa hans greiðist nú af Isavia en samræmingarstjórinn var áður í samningssambandi við Isavia. Vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA um að tryggja þurfi sjálfstæði samræmingarstjóra var ábyrgð á störfum hans færð til Sam­göngustofu og því nauðsynlegt að mæla fyrir um heimild stofnunarinnar til greiðslu kostnaðar vegna starfa hans.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til reglugerðarheimild til að innleiða EES-gerðir sem varða verkefni á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) og stofnuninni hefur verið falið á grundvelli stofngerða hennar. Skv. 1. mgr. 146. gr. laga um loftferðir tekur Sam­göngustofa þátt í starfi Flugöryggisstofnunar Evrópu með það m.a. að markmiði að auka öryggi í flugi, draga úr mengun frá flugvélum og koma að sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda í starfi stofnunarinnar. Þá er í 2. mgr. 146. gr. laganna heimild til innleiðingar á stofngerð stofnunarinnar. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins kemur fram að heimild ráðherra takmarkist við að innleiða reglugerðir sem varða verkefni sem rúmast innan reglugerðar um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Með þessum hætti hefur löggjafinn afmarkað það hvaða reglur ráðherra getur sett á grundvelli ákvæðisins. Fyrirsjáanlegt er hvaða EES-gerðir munu verða innleiddar með reglugerð á grundvelli ákvæðisins og borgararnir geta þannig aflað sér upplýsinga um það. Reglurnar þurfa að vera í samræmi við þau markmið sem stefnt er að með lögunum og þátttöku Íslands í Flugöryggisstofnun Evrópu, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 146. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2015.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Haraldur Einarsson.
Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson. Svandís Svavarsdóttir.
Róbert Marshall. Vilhjálmur Árnason.