Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1377  —  361. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

Frá meiri hluta um­hverfis- og sam­göngunefndar (HöskÞ, HE, ÁsF, ElH, VilÁ).


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Lög þessi gilda um skipulagsmál á millilandaflugvöllum á Íslandi. Lögin gilda ekki um Keflavíkurflugvöll, sbr. lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.
                      Að öðru leyti en mælt er fyrir um í lögum þessum gilda ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010, og reglugerða settra á grundvelli þeirra, um framkvæmd laga þessara eftir því sem við getur átt.
                      Markmið laga þessara er að tryggja þjóðhagslega hagsmuni af rekstri og staðsetningu millilandaflugvalla á Íslandi.
     2.      2. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Millilandaflugvöllur.

                      Með millilandaflugvelli í lögum þessum er átt við flugvelli í flokki I samkvæmt reglugerð um flugvelli.
     3.      3. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Yfirstjórn skipulagsmála á millilandaflugvöllum.

                      Ráðherra fer með yfirstjórn skipulagsmála á millilandaflugvöllum á Íslandi.
                      Ráðherra skipar fimm menn í skipulagsnefnd millilandaflugvalla til fimm ára í senn. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra ­sveitarfélaga og þrír án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður nefndarinnar.
                      Ráðherra setur skipulagsnefnd millilandaflugvalla starfsreglur.
     4.      4. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Framkvæmd skipulagsmála á millilandaflugvöllum.

                      Skipulagsnefnd millilandaflugvalla kostar og annast gerð deili- og aðalskipulagstillagna fyrir flugvallarsvæði þeirra millilandaflugvalla sem undir lögin falla. Um málsmeðferð fer samkvæmt skipulagslögum.
                      Samþykki nefndin breytingar á deili- eða aðalskipulagi, sem hafa í för með sér verulegar breytingar á starfsemi flugvallar, skal leggja breytingarnar fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykkt Alþingis á deili- eða aðalskipulagstillögu telst fullnaðarafgreiðsla málsins.
                      Við gerð svæðisskipulags samkvæmt skipulagslögum eru hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld bundin af samþykktu aðalskipulagi millilandaflugvalla. Skipulagsnefnd millilandaflugvalla er heimilt að taka þátt í gerð svæðisskipulags ásamt nærliggjandi ­sveitarfélögum.
                      Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd skipulagsmála á millilandaflugvöllum, m.a. um gerð þjónustusamninga um framkvæmd verkefna á grundvelli laganna.
     5.      5. gr. falli brott.
     6.      Við 7. gr.
                  a.      Efnismálsgrein 1. tölul. orðist svo:
                      Skipulagsnefnd millilandaflugvalla fer með skipulagsmál millilandaflugvalla í samræmi við ákvæði laga um skipulagsmál millilandaflugvalla.
                  b.      2. tölul. falli brott.
     7.      Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:
                      Gildandi skipulagsáætlanir vegna flugvallarsvæða millilandaflugvalla, sem falla undir lög þessi, skulu sendar skipulagsnefnd millilandaflugvalla. Telji skipulagsnefnd að í þeim felist breytt nýting flugvallarsvæða frá því sem er við gildistöku laga þessara skulu þær sendar Alþingi til samþykktar og halda þær gildi sínu ef Alþingi samþykkir þær en falla annars úr gildi.
     8.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um skipulagsmál millilandaflugvalla.