Ferill 52. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1378  —  52. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu
fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Björk Reykdal, Guðrúnu Sigurjónsdóttur og Halldór Gunnarsson frá velferðarráðuneyti, Guðrúnu Bryndísi Guðmundsdóttur og Lindu Kristmundsdóttur frá barna- og unglingageðdeild Landspítala, Heiðu Björgu Pálmadóttur og Halldór Hauksson frá Barnaverndarstofu, Ólaf Guðmundsson frá Félagi barna- og unglingageðlækna á Íslandi, Henný Hraunfjörð frá Félagi fagfólks í fjölskyldumeðferð, Katrínu Davíðsdóttur frá Félagi íslenskra barnalækna, Örnu Sif Jónsdóttur og Írisi Stefánsdóttur frá félaginu Olnbogabörnin, Önnu G. Ólafsdóttur og Hrannar Jónsson frá Geðhjálp, Jónas Guðmundsson og Þórunni Ólafsdóttur hjá Heilsugæslu höfuð­borgar­svæðisins, Karólínu Stefánsdóttur frá heilsugæslustöðinni á Akureyri, Ósk Sigurðardóttur frá Iðjuþjálfafélagi Íslands, Önnu Maríu Jónsdóttur, Stefaníu Arnardóttur og Sæunni Kjartansdóttur frá Miðstöð foreldra og barna ehf., Þórð Sveinsson frá Persónuvernd, Elísabetu Gísladóttur frá umboðsmanni barna og Margréti Maríu Sigurðardóttur, umboðsmann barna, og Gyðu Sigurlaugu Haraldsdóttur frá Þroska- og hegðunarstöð.
    Umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, barna- og unglingageðdeild Landspítala, Endurmenntun Háskóla Íslands, Félagi barna- og unglingageðlækna á Íslandi, Félagi fagfólks í fjölskyldumeðferð, Félagi íslenskra barnalækna, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi stjórnenda í fram­haldsskólum, félaginu Olnbogabörnum, félagsmálanefnd Ísa­fjarðarbæjar, félagsmálaráði Akureyrarkaupstaðar, félagsmálaráði Kópavogsbæjar, Geðhjálp, sálfræðideild Háskóla Íslands, heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, Heilsugæslu höfuð­borgar­svæðisins, heilsugæslustöðinni á Akureyri, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Miðstöð foreldra og barna ehf., Mosfellsbæ, Persónuvernd, Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga, Sálfræðingafélagi Íslands, Sveitarfélaginu Árborg, umboðsmanni barna, Þroska- og hegðunarstöð og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið, í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra, að vinna aðgerðaáætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að sálfræðimeðferð fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Samráð verði haft við Samband íslenskra ­sveitarfélaga og hóp sérfræðinga sem Alþingi skipi.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að meginmarkmið hennar sé að vinna að bættu geðheilbrigði barna og unglinga og þar með að bættu geðheilbrigði landsmanna til framtíðar. Aðaláhersla verði á forvarnir, skimun grunnskólanemenda, þrepaskiptameðferð hópa og/eða einstaklinga, stuðning við fjölskyldur, samhæfða þjónustu í nærum­hverfi og skýrari verkaskiptingu stofnana. Raktir eru sjö meginþættir sem aðgerðaáætlun skuli byggjast á.
    Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar lýstu almennt ánægju með þingsályktunartillöguna og töldu jákvætt að móta áætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Rökstutt var að gagnlegt væri að huga að forvörnum gegn geðrænum vanda hjá fjölskyldum og ungum börnum strax í mæðra- og ungbarnavernd heilsugæslunnar. Fram kom að nauðsynlegt væri að bæta aðgengi að greiningu og viðeigandi meðferð, bæði á 1. stigi í nærum­hverfi barna og unglinga í skólum og/eða hjá heilsugæslunni um land allt og á 2. og 3. stigi hjá sérhæfðari þjónustuaðilum, svo sem Þroska- og hegðunarstöð og barna- og unglingageðdeild Landspítala. Skýra þyrfti verkaskiptingu þjónustuaðila og tryggja samfellu í þjónustunni. Lögð var áhersla á þverfaglega nálgun og teymisvinnu. Fram kom að einstaklingsbundin meðferð á borð við hugræna atferlismeðferð væri oft gagnleg, en einnig þyrfti að tryggja framboð annars konar gagnreyndra meðferðarúrræða, svo sem fjölskyldumeðferðar.
    Ekki var samhljómur meðal umsagnaraðila og gesta nefndarinnar um gagnsemi þess að koma á almennri skimun fyrir geðvanda í skólum, einkum í grunnskólum. Bent var á að skólahjúkrunarfræðingar tækju þegar viðtöl við börn í 1., 4., 7. og 9. bekk grunnskóla þar sem m.a. væri rætt um líðan, áhyggjur o.fl. Sumir gestir og umsagnaraðilar töldu að ekki skorti á að komið væri auga á frávik í þroska, hegðun og líðan barna, a.m.k. grunnskólabarna; vandinn væri fremur ónægur aðgangur að greiningu og meðferð. Persónuvernd benti einnig á að samþykki foreldra þurfi fyrir skimun meðal grunnskólabarna, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, eða skýra lagaheimild.
    Nefndin tekur undir markmið þingsályktunartillögunnar. Nefndin telur geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga sérlega mikilvæga og leggur áherslu á snemmtæka íhlutun gegn geðrænum vanda. Nefndin telur nauðsynlegt að tryggja gott aðgengi að greiningu og þverfaglegri meðferð og að verkaskipting milli stofnana sé skýr og þjónustan samfelld. Hún telur jafnframt nauðsynlegt að faglegt mat sé lagt á það að hvaða marki skimun sé æskileg.
    Á vegum heilbrigðisráðherra er nú unnið að mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar á grundvelli ályktunar Alþingis frá 15. janúar 2014 um mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar. Í áliti velferðarnefndar um málið var tekið fram að nefndin teldi mikilvægt að geðheilbrigðisþjónusta við börn fengi sérstaka skoðun við mótun stefnunnar. Þyrfti í því sambandi bæði að vinna að forvörnum og viðbrögðum við erfiðum fjölþættum vanda barna.
    Nefndin telur æskilegt að aðgerðaáætlun í anda fyrirliggjandi þingsályktunartillögu, með hliðsjón af fyrrgreindum athugasemdum umsagnaraðila og gesta nefndarinnar og skoðunum nefndarinnar á tillögunni, sé unnin sem liður í þeirri geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun sem nú er í mótun. Nefndin leggur til að þingsályktunartillögunni verði vísað til heilbrigðisráðherra í því skyni.

Alþingi, 1. júní 2015.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Páll Jóhann Pálsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Brynjar Níelsson. Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson.
Páll Valur Björnsson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.