Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1383  —  18. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.


Frá meiri hluta velferðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin Bjarnason frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðmund Ásgeirsson og Vilhjálm Bjarnason frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Hildigunni Hafsteinsdóttur og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Vilhjálm Birgisson frá Verkalýðsfélagi Akraness og Kristjönu Gunnarsdóttur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
    Umsagnir bárust frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Félagi um foreldrajafnrétti, Hagsmunasamtökum heimilanna, Jafnréttisstofu, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins, velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Verkalýðsfélagi Akraness.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að félags- og húsnæðismálaráðherra verði falið að hefja vinnu, í samráði við hlutaðeigandi aðila, við útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili sem taki tillit til húsnæðiskostnaðar.
    Flestir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar töldu birtingu neysluviðmiða af hinu góða. Þó var bent á að húsnæðiskostn­aður væri mjög breytilegur, m.a. eftir búsetuformi og landsvæði. Væru birt viðmið um húsnæðiskostnað kynni því að vera æskilegt að hafa þau aðskilin frá öðrum kostnaðarþáttum og greina á milli húsnæðiskostnaðar eftir búsetuformi og landsvæði.
    Neysluviðmiðum er ætlað að veita heimilum viðmið til hliðsjónar við áætlun eigin útgjalda auk þess sem þau geta gagnast við fjárhagsráðgjöf fyrir einstaklinga og þegar teknar eru ákvarðanir um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Meiri hlutinn telur ekki síður mikilvægt að taka tillit til húsnæðiskostnaðar í þessu sambandi en annars kostnaðar. Hann telur unnt að taka nægjanlega mið af sjónarmiðum um breytileika húsnæðiskostnaðar með því að hafa hann aðskilinn frá öðrum kostnaðarþáttum og greina á milli húsnæðiskostnaðar eftir búsetuformi og landsvæði.
    Meiri hlutinn telur rétt að mæla fyrir um uppfærslu núverandi neysluviðmiða fremur en útreikning nýrra neysluviðmiða, til að skýra að ekki sé ætlunin að horfið verði frá núverandi viðmiðum heldur að þau verði uppfærð með tilliti til húsnæðiskostnaðar. Meiri hlutinn telur einnig rétt að bæta við vísun til búsetuhúsnæðis til að skýra að tillagan taki til allra búsetuforma. Þá telur meiri hlutinn rétt að setja uppfærslunni frest til ársloka 2016. Að mati meiri hlutans er sá frestur nægilega rúmur til að unnt sé að bæta húsnæðiskostnaði við neysluviðmiðin við næstu reglulegu uppfærslu þeirra.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að uppfæra neysluviðmið fyrir íslensk heimili, í samráði við hlutaðeigandi aðila, þannig að húsnæðiskostn­aður verði tekinn með. Í því samhengi verði horft til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eignar-, leigu- og búsetuhúsnæðis.
                  Ljúka skal vinnu við uppfærslu neysluviðmiða fyrir árslok 2016.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um uppfærslu neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2015.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Páll Jóhann Pálsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Páll Valur Björnsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.