Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1392  —  702. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (endurskoðun höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur, Jón Vilberg Guðjónsson og Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Rán Tryggvadóttur frá höfundaréttarnefnd, Erlu S. Árnadóttur og Tómas Þorláksson frá Höfundaréttarfélagi Íslands, Guðrúnu Björgu Bjarnadóttur frá STEF, Ólöfu Pálsdóttur og Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur frá Myndstefi, Smára McCarthy frá IMMI og Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Fjölís, Hagþenki – félagi fagbókahöfunda, Höfundaréttarfélagi Íslands, höfundaréttanefnd, IMMI – alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, Myndstefi, sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samtökum íslenskra kvikmyndaframleiðenda, STEF– sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar og Unseen.
    Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur, annars vegar að samræma I. kafla gildandi höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda og fleira, við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu og hins vegar að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum. Með samningskvöð er átt við að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru höfundarétti, sem gert hafa samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga/félagsmanna þeirra, t.d. með ljósritun, skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu teg­undar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins.
    Við meðferð málsins í nefndinni var þeim sjónarmiðum komið á framfæri að 1. gr. frumvarpsins fæli í sér takmarkanir á tjáningar- og upplýsingafrelsi. Meiri hlutinn vill í því sambandi benda á að einkaréttindi höfunda eru talin upp í I. kafla laganna. Í II. kafla laganna er hins vegar fjallað um takmarkanir og undantekningar frá einkarétti höfunda í þágu ýmissa nota. Meiri hlutinn telur rétt að benda á að í 2. og 3. mgr. áðurnefndrar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, sem var innleidd í höfundalög með breytingalögum nr. 9/2006, kemur fram tæmandi upptalning á þeim undantekningum og takmörkunum sem gera má á einkarétti höfunda í aðildarríkjum EES-samningsins. Nefndin fékk þær upplýsingar að breytingar á undantekningum og takmörkunum á einkaréttindum höfunda hafa verið til umræðu á vettvangi Evrópusamstarfs á sviði höfundaréttarmála og á vettvangi Alþjóðahugverkastofnunarinnar, WIPO. Um nokkurt skeið hefur verið búist við því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins boði endurskoðun á efni tilskipunar 2001/29/EB, ekki síst í ljósi hraðrar þróunar í upplýsinga- og samskiptatækni. Að mati meiri hlutans er mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að fylgjast vel með þeirri umræðu. Meiri hlutinn vísar einnig til þess að ráðgert er að fjallað verði nánar um undantekningar og takmarkanir á einkaréttindum höfunda við fyrirhugaða endurskoðun á II. kafla höfundalaga.
    Við meðferð málsins í nefndinni komu fram sjónarmið um að mjög mikil samþjöppun væri á markaði hvað varðar höfundaréttarsamtök og að frumvarpið gæti haft þau áhrif að gera stöðu núverandi samtaka enn sterkari. Þar af leiðandi yrði erfiðara fyrir ný samtök að koma inn á markaðinn.
    Það er mat meiri hlutans að með ítarlegri ákvæðum um samningskvaðaleyfi sé réttarstaða þeirra sem kjósa ekki að vera meðlimir í höfundaréttarsamtökum mun skýrari en áður og aðgengi almennings að höfundaréttarvernduðum verkum aukið til muna.
    Samkvæmt 27. gr. frumvarpsins eiga lögin að taka gildi 1. júlí nk. Meiri hlutinn telur rétt að fresta gildistökunni til 1. september svo að meira ráðrúm gefist til undirbúnings.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    27. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. september 2015.

Alþingi, 2. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Jóhanna María Sigmundsdóttir, frsm. Páll Valur Björnsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir. Valgerður Gunnarsdóttir.