Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1395  —  421. mál.
Nýir liðir.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Pál Rúnar Mikael Kristjánsson og Ingu Skarphéðinsdóttur frá Félagi atvinnurekenda, Helenu Karlsdóttur og Ólöfu Ýri Atladóttur frá Ferðamálastofu, Ara Karlsson og Bjarnfreð Ólafsson frá Logos lögmannsstofu, Þóru Björgu Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga, Kristínu Helgu Markúsdóttur og Daníel Reynisson frá Sam­göngustofu og Gunnar Val Sveinsson, Sigurð Berndsen og Þorstein Þorgeirsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Ferðamálastofu, Félagi atvinnurekenda, Fjármálaeftirlitinu, Logos lögmannsþjónustu, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Phi ehf. og Integral Turing ehf., Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga, Sam­göngustofu og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um leigu skráningarskyldra ökutækja sem byggjast að nokkru á gildandi lögum um bílaleigur, nr. 64/2000. Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja lagarammann um starfsemi ökutækjaleiga, einfalda reglur sem um þær gilda og bæta á sama tíma eftirlit með starfseminni.
    Gildissvið frumvarpsins er leiga á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni, án ökumanns. Ákvæði frumvarpsins ná til allra teg­unda skráningarskyldra ökutækja sem og hjólhýsa og tjaldvagna. Jafnframt er í frumvarpinu mælt fyrir um að það nái til einkaleiga, þ.e. þegar einstaklingar leigja ökutæki sín út með milli­göngu annars aðila (stundum nefnd deilileiga).
    Til að reka ökutækjaleigu þarf samkvæmt ákvæðum frumvarpsins starfsleyfi frá Sam­göngustofu og einnig þarf jákvæða umsögn frá því ­sveitarfélagi sem ökutækjaleiga mun hafa fasta starfsstöð í. Kveðið er á um að starfsleyfi til reksturs ökutækjaleigu verði ótímabundið en samkvæmt gildandi lögum gildir leyfi í fimm ár. Þeir sem hafa starfsleyfi nú halda því út gildistíma þess og skulu að þeim tíma loknum sækja um nýtt ótímabundið leyfi.
    Í frumvarpinu felast auknar eftirlitsheimildir fyrir Sam­göngustofu sem fær t.d. heimild skv. 10. og 11. gr. til að fella starfsleyfi úr gildi, láta fara fram vettvangskannanir og leggja á dagsektir. Einnig er mælt fyrir um það nýmæli að handhafi leyfis tilkynni stofnuninni um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi. Í 6. gr. er mælt fyrir um skyldur ökutækjaleigu þar sem ýmis fyrirmæli er að finna sem ekki er kveðið skýrlega á um í gildandi lögum, svo sem að óheimilt sé að leigja út ökutæki sem ekki er skráð í notkunarflokk hjá Sam­göngustofu og að ekki sé heimilt að leigja út skoðunarskylt ökutæki nema það hafi lögbundna aðalskoðun.
    Í 9. gr. er nýmæli sem er ætlað að skapa umgjörð utan um þá starfsemi þegar einstaklingur leigir ökutæki til annars einstaklings með milli­göngu miðlunar (einkaleiga). Um er að ræða undantekningu frá 2. mgr. 6. gr. þar sem þess er krafist að leyfishafi sé eigandi þess ökutækis sem leigt er út. Skv. 9. gr. er (hverjum) einstaklingi heimilt að leigja út tvö ökutæki sem eru skráð á kennitölu hans og skal milli­gönguaðili afla sér starfsleyfis hjá Sam­göngustofu en án þess að leita þurfi umsagnar ­sveitarstjórnar enda er ekki gert ráð fyrir því að einkaleiga verði geymslustaður fyrir ökutæki. Einkaleiga þarf einnig að uppfylla skilyrði 4. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um ýmis skilyrði starfsleyfis, svo sem um gilda starfsábyrgðartryggingu. Í 4. og 5. mgr. 9. gr. er kveðið á um að einkaleiga skuli tryggja að ökutæki sem leigð eru út hafi verið skráð í notkunarflokk hjá Sam­göngustofu, hafi lögbundna aðalskoðun, að í gildi sé ábyrgðartrygging og að ökutækin hljóti viðhald og eftirlit og séu í ásigkomulagi sem tekur mið af árstíma og færð. Kveðið er á um að leyfishafi sé ábyrgur fyrir skilum virðisaukaskatts af heildarandvirði leigu skráningarskylds ökutækis, þ.e. ekki bara af fjárhæð þóknunar. Í 9. gr. er gert ráð fyrir að milli­gönguaðili (einkaleigan) geri samning við leigusala (einstakling sem á bifreiðina) og við leigutaka og er ökutækið því tekið á leigu og framleigt og ber einkaleigan ábyrgð á ástandi hins útleigða ökutækis. Nefndin leggur til breytingu á 7. mgr. 9. gr. í þá veru að um innheimtu og skil á virðisaukaskatti verði farið eftir lögum um virðisaukaskatt. Það fer þá eftir samningssambandi hverju sinni hver er stofn til greiðslu virðisaukaskatts. Nefndin bendir á að ekki er með frumvarpinu hróflað við þeim mörkum tekna sem einstaklingur getur aflað án þess að greiða virðisaukaskatt, sem er 1 millj. kr.
    Við umfjöllun um málið var nefndinni bent á að dæmi væru um að bílaleigur stunduðu starfsemi sem líktist starfsemi fyrirtækja sem stunda eignaleigu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Með eignaleigu í lögum um fjármálafyrirtæki er átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í ákveðinn tíma. Fram kom við umfjöllun um málið að eignaleiga að meginstarfsemi sé starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Á starfsleyfisskyldum aðilum, sem sæta eftirliti Fjármálaeftirlitsins, hvíla ýmsar kvaðir samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, svo sem um lágmarkseiginfjárhlutfall, hæfi stjórnenda, greiðslu eftirlitsgjalda og fjársýsluskatts. Fullyrt var að ákvæði frumvarpsins festu þennan mismun frekar í sessi, þ.e. að misríkar kröfur væru gerðar til fyrirtækja sem stunduðu starfsemi af svipuðum toga. Nefndinni var bent á það af hálfu ráðuneytisins að framtíðarsýn Fjármálaeftirlitsins væri sú að fyrirtæki sem stunduðu eignaleigu mundu ekki þurfa starfsleyfi eftirlitsins. Nefndin telur eðlilegt að hugað verði að breytingum á lögum í því skyni að draga úr misræmi og beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Nefndin telur með hliðsjón af framangreindu eðlilegt að þrengja skilgreiningu á hugtakinu „ökutækjaleiga“ í 2. gr. frumvarpsins og bæta því skilyrði við að að jafnaði sé um leigu til skemmri tíma að ræða.
    Bent var á við umfjöllun um málið að dæmi væru um kvartanir vegna verklags bílaleiga við skil á bifreiðum og hvað varðar möguleika leigutaka á að fylgjast með því þegar ástand hennar er kannað. Fram kom af hálfu ráðuneytisins að verði frumvarpið að lögum verði reglugerð um bílaleigur endurskoðuð, m.a. með tilliti til leiguskilmála. Einnig var bent á að starfandi sé úrskurðarnefnd um ferðalög sem byggist á samþykktum ráðuneytisins, Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar en þangað er unnt að vísa deilumálum að því gefnu að ferðaþjónustuaðili sé aðili að Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndin gerir ráð fyrir að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR) og reglugerð (ESB) nr. 524/2013 um rafræna málsmeðferð deilumála þegar um er að ræða sölu á vörum eða þjónustu á Netinu (ODR) verði innleidd í íslenskan rétt. Þegar það hefur verið gert mun úrskurðarnefndin geta tekið á deilumálum óháð aðild að Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Ekki eru í frumvarpinu ákvæði um ívilnun á vörugjöldum til handa bílaleigum en kveðið er á um það í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Við umfjöllun um málið kom til skoðunar að fella bifhjól einnig undir þær reglur en við nánari skoðun var talið að það væri illframkvæmanlegt. Ekki liggja fyrir upplýsingar um CO 2-útblástur bifhjóla en álagningarhlutfall á fólksbifreiðar er miðað við þann útblástur. Fram kom að um þessar mundir standi yfir heildarendurskoðun hjá fjármála- og efnahagsráðuneyti á gjaldaum­hverfi ökutækja. Nefndin hvetur til þess að leiga á bifhjólum geti einnig notið ívilnana frá slíkum opinberum gjöldum til samræmis við ívilnanir vegna annarra teg­unda ökutækja.
    Nefndin gerir tillögu um nokkrar breytingar á frumvarpinu til viðbótar við þær sem getið er framar: Nefndin leggur til leiðréttingu á 2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 12. gr. þannig að í stað hugtaksins „kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtæki“ verði notað hugtakið „lánafyrirtæki“ sem er í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki. Einnig er lagt til að ef ökutækjaleiga opnar útibú þá skuli einnig afla jákvæðrar umsagnar frá ­sveitarstjórn líkt og þegar sótt er um starfsleyfi. Þá er lagt til að við bætist heimild fyrir ökutækjaleigu til að leigja út ökutæki annarrar ökutækjaleigu sem hefur gilt starfsleyfi og skal þá liggja fyrir samningur milli fyrirtækjanna um þá leigu. Nefndin leggur til breytingu á síðari málslið 4. mgr. 4. gr. og á gildistökugrein.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna ,,kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja“ í 2. mgr. 1. gr. komi: lánafyrirtækja.
     2.      Við 7. tölul. 2. gr. bætist: að jafnaði til skemmri tíma.
     3.      Við lokamálslið 5. mgr. 3. gr. bætist: og skal hún þá tilkynna Sam­göngustofu um útibúið auk þess sem jákvæð umsögn ­sveitarstjórnar skal liggja fyrir.
     4.      Síðari málsliður 4. mgr. 4. gr. falli brott.
     5.      Við 6. gr.
                  a.      Í stað orðanna ,,kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtæki“ í 2. mgr. komi: lánafyrirtæki.
                  b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er ökutækjaleigu heimilt að leigja út ökutæki sem er í eigu annarrar ökutækjaleigu með gilt starfsleyfi sé það gert á grundvelli samnings.
     6.      Við 9. gr.
                  a.      Í stað orðsins „­sveitarfélags“ í 2. mgr. komi: ­sveitarstjórnar.
                  b.      7. mgr. orðist svo:
                      Um innheimtu og skil á virðisaukaskatti fer samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.
                  c.      8. mgr. falli brott.
     7.      Í stað orðsins „heimasíðu“ í 7. mgr. 11. gr. komi: vefsíðu.
     8.      Við 12. gr.
                  a.      Í stað orðanna ,,kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki“ í fyrri málslið 6. tölul. 1. mgr. komi: lánafyrirtæki.
                  b.      Síðari málsliður 6. tölul. 1. mgr. orðist svo: Þetta gildir hvorki um undanþágu í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. né um einkaleigur skv. 9. gr.
     9.      15. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum.
     10.      Í stað orðanna ,,1. maí 2015“ í ákvæði til bráðabirgða II og III komi: 1. ágúst 2015.

    Þorsteinn Sæmundsson ritar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 28. maí 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Kristján L. Möller,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Róbert Marshall.
Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson,
með fyrirvara.
Þórunn Egilsdóttir.