Ferill 756. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1410  —  756. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um afgreiðslu mála
hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


     1.      Hve margar óafgreiddar kærur eru skráðar í málaskrá úrskurðarnefndar um upplýs­ingamál og í hve mörgum þeirra er allri gagnaöflun lokið þannig að úrskurða megi í málinu?
    Í málaskrá úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru sem stendur skráð 56 óafgreidd mál. Í 32 málum er gagnaöflun lokið og mál þar með tilbúin til efnislegrar umfjöllunar í nefndinni.

     2.      Fá kærur afgreiðslu í þeirri röð sem þær berast og ef ekki, hvernig er forgangsröðun þeirra metin?
    Meginreglan er sú að kærur fá afgreiðslu í þeirri röð sem þær berast. Sú röð getur þó riðl­ast vegna tafa við gagnaöflun eða vegna umfangs og eðlis mála.

     3.      Hver hefur meðalafgreiðslutími kæra verið frá 1. janúar 2014 og hver er áætlaður af­greiðslutími miðað við stöðu mála nú?

    Meðalafgreiðslutími mála frá því að gagnaöflun er lokið er um 90 dagar. Meðalafgreiðslu­tími frá því að kæra berst og þar til mál er afgreitt með úrskurði er um 200 dagar. Unnið er að því að stytta afgreiðslutíma hjá nefndinni.
    Á vef nefndarinnar, ursk.forsaetisraduneyti.is/, má nálgast nánari upplýsingar um mál hennar. Ítarlegri tölfræði um málsmeðferðartíma mun fylgja skýrslu forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna.