Ferill 694. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1421  —  694. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru, lögum um Matvælastofnun og tollalögum (stjórnsýsluverkefni, ónýttar og skertar beingreiðslur, gæðastýrð sauðfjárframleiðsla).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Elías Blöndal, Guðnýju Helgu Björnsdóttur, Jón Baldur Lorange og Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Baldur Helga Benjamínsson og Sigurð Loftsson frá Landssambandi kúabænda, Sigurborgu Daðadóttur og Viktor S. Pálsson frá Matvælastofnun, Bjarna R. Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Landssambandi kúabænda, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum atvinnulífsins og Við­skipta­ráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands hafa sinnt samkvæmt samningi þar að lútandi verði flutt til Matvælastofnunar. Um er að ræða utanumhald og útgreiðslu beingreiðslna vegna framleiðslu á sauðfé, mjólk og grænmeti. Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum Ríkisendurskoðunar um eftirlit með búvörusamningum. Einnig er ætlunin að einfalda framkvæmd búvörulaga þannig að stjórnsýsluverkefni sem þar er kveðið á um verði á hendi einnar stofnunar.
    Nefndinni bárust efasemdir um að fela ætti Matvælastofnun umrædd verkefni þar sem þau eru einkum í ætt við þjónustu, framkvæmd búvörusamninga, áætlunargerð og söfnun talnaupplýsinga en ekki eftirlit sem er meginhlutverk stofnunarinnar. Með öðrum orðum var bent á að umrædd verkefni féllu ekki að þeim verkefnum sem stofnunin sinnir nú þegar. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur brýnt að verkefnin verði skýrt afmörkuð í sjálfstæðri einingu í skipulagi stofnunarinnar. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að umrædd verkefni má vinna óháð staðsetningu.
    Við umfjöllun um málið komu fram ábendingar um að nokkuð skorti á markvissa öflun og miðlun tölulegra upplýsinga um landbúnað. Meiri hlutinn tekur undir þetta og beinir þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að úrbætur verði gerðar hvað varðar söfnun hagtalna í landbúnaði og miðlun þeirra. Meiri hlutinn telur brýnt að hverju sinni verði aðgengileg tölfræði sem geti varpað ljósi á stöðu landbúnaðar í heild og einstakar búgreinar og telur rétt að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti vinni að úrbótum hvað þetta varðar í samstarfi við Hagstofu Íslands og fleiri.
    Nefndinni barst athugasemd þess efnis að í 5. og 7. gr. frumvarpsins væri lögð til breyting á verkefnum sem m.a. heyra undir gildandi samning milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og varða söfnun upplýsinga um sölu og framleiðslu mjólkur ásamt öflun gagna vegna undirbúnings ákvörðunar um greiðslumark mjólkur. Fram kom við umfjöllun um málið að Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hefðu um árabil annast framkvæmd umræddra verkefna. Samkvæmt frumvarpinu tekur Matvælastofnun við tilteknum verkefnum Bændasamtaka Íslands, þ.m.t. verkefnum sem heyra undir fyrrgreindan samning, og kom það sjónarmið fram að verði verkefnin flutt frá Bændasamtökunum falli samningurinn niður og framkvæmd verkefna verði í óvissu. Meiri hlutinn bendir á að stutt er þangað til gildistími samningsins rennur út og verður fyrirkomulagið þá endurskipulagt.
    Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist ný grein þar sem felld verði brott heimild ráðherra í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru til að láta hlutkesti ráða úthlutun þegar umsóknir berast um meiri innflutning en nemur tollkvóta í 3. mgr. 65. gr. laganna. Ástæða tillögu þessarar eru dómar sem féllu nýverið í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það að ráðherra hafi val um hvorri aðferð 3. mgr. 65. gr. sé beitt, þ.e. hvort hlutkesti sé varpað eða tilboða leitað, feli í sér að hann hafi ákvörðunarvald um hvort skattur sé lagður á eða ekki. Einnig leggur meiri hlutinn til leiðréttingu sem varðar breytt lagaheiti í samræmi við aðrar greinar frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Orðin „heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun eða“ í 3. málsl. 3. mgr. 65. gr. laganna falla brott.
     2.      13. gr. orðist svo:
             Í stað orðanna ,,laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum“ í 1. mgr. 12. gr. laganna og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum; og orðanna „laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993“ í 5. mgr. 12. gr. laganna kemur: búvörulaga, nr. 99/1993.

    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 11. júní 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Þórunn Egilsdóttir,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
með fyrirvara.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Kristján L. Möller.
Páll Jóhann Pálsson. Hjálmar Bogi Hafliðason.