Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1423  —  685. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga
og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum
(notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti, Eygló Sif Sigfúsdóttur frá Einkaleyfastofu, Jóhannes Gunnarsson og Ívar Halldórsson frá Neytendasamtökunum, Matthildi Sveinsdóttur og Þórunni Önnu Árnadóttur frá Neytendastofu og Brynhildi Pálmarsdóttur og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Bandalagi íslenskra skáta, Bændasamtökum Íslands, Einkaleyfastofu, Íslandsstofu, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fela í sér heimild til að nota þjóðfána Íslendinga við markaðssetningu á vöru og þjónustu án sérstaks leyfis, enda sé varan eða starfsemin íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð, en samkvæmt gildandi lögum þarf leyfi forsætisráðuneytisins fyrir notkun fánans í þessu skyni.

Forsaga málsins.
    Með lögum sem sett voru árið 1998 voru samþykktar breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið þar sem forsætisráðherra var heimilað að veita leyfi til notkunar fánans í vörumerki eða söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu enda væri starfsemi sú sem í hlut ætti að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælti fyrir um í reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Markmiðið var að auka frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Umrædd reglugerð hefur aldrei verið sett, m.a. vegna vandkvæða við að setja gæðastaðla fyrir vörur.
    Frá þeim tíma hafa fjölmörg þingmál verið lögð fram af þingmönnum og forsætisráðherra með það að markmiði að rýmka og skýra reglur um notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Á 143. löggjafarþingi samþykkti Alþingi að vísa lagafrumvarpi þess efnis til ríkisstjórnarinnar til nánari skoðunar.
    Nefndin fjallaði um fjölmörg atriði frumvarpsins og þau skilyrði sem lagt er til að verði notuð sem viðmið fyrir notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu.

Heimild til notkunar.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar frá Einkaleyfastofu um að ef ákvæðið er afmarkað við vörumerki þá nái það ekki til félagamerkja og leggur til að í stað orðsins vörumerki í frumvarpinu verði notað annaðhvort orðið „merki“ eða „vöru- og félagamerki“. Slík merki séu iðulega skráð í eigu félagasamtaka sem leyfa félagsmönnum sínum notkun merkisins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. ákvæði laga um félagamerki, en um skráningu félagamerkja, málsmeðferð o.fl. gilda vörumerkjalög. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur rétt að leggja til að orðið merki komi í stað vörumerkis í 1. málsl. a-liðar 2. gr. Meiri hlutinn tekur þó fram að hér eru ekki lagðar til breytingar á að Neytendastofa þurfi að veita leyfi fyrir notkun fánans í vörumerki sem skal skrásetja, sbr. ákvæði í lok a-liðar 2. gr.

Erlend samstarfsverkefni.
    Við meðferð málsins á fyrri þingum hefur Íslandsstofa beitt sér fyrir því að fá heimild til notkunar þjóðfánans við erlend samstarfsverkefni, svo sem merki sam­eigin­legrar ferðasýningar sem merkt er með þjóðfánum þátttökulanda. Meiri hlutinn telur að með því að nota orðið merki í stað vörumerkis í 1. málsl. a-liðar 2. gr. nái það yfir slík samstarfsverkefni milli landa. Meiri hlutinn tekur þó fram að breytinguna verði að túlka út frá ákvæði 2. mgr. 12. gr. laganna um að óheimilt er að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á að­göngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar.

Skilyrði fyrir notkun þjóðfánans.
Íslensk að uppruna.
    Nefndin fjallaði um þau skilyrði sem lagt er til í frumvarpinu að verði lögð til grundvallar notkun þjóðfánans í vörumerki, söluvarning, umbúðir eða auglýsingu á vöru og þjónustu.     
    Í frumvarpinu er lagt til að meginskilyrðið fyrir því að vara teljist íslensk að uppruna verði að hún sé framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Nefndin fjallaði um ákvæðið sem er nokkuð matskennt en tekur fram að það felur í sér það viðmið að meiri hluti hráefnisins að lágmarki þarf að vera innlent hráefni til þess að geta uppfyllt skilyrðið.

Framleiðsla í 30 ár eða samkvæmt íslenskri hefð.
    Í greininni eru einnig lagðar til nokkrar sérreglur um hvenær vara geti talist vera íslensk að uppruna í skilningi laganna þannig að unnt verði að merkja hana með þjóðfánanum. Fyrsta sérreglan felur í sér að vara sem hefur verið framleidd hér á landi í a.m.k. 30 ár undir sama vörumerki teljist íslensk að uppruna þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti. Sama gildi um matvöru sem er framleidd hér á landi samkvæmt íslenskri hefð. Nefndin fjallaði um ákvæðið sem felur í sér að vörur sem gerðar eru að öllu leyti eða meiri hluta til úr erlendu hráefni geti fallið undir skilgreiningu ákvæðisins um að vara teljist íslensk að uppruna. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að undir ákvæðið geti fallið kleinur og laufabrauð. Þar undir geta einnig fallið pönnukökur. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að skilyrðið um 30 ár geti verið of strangt þar sem vörur hafi sjaldan svo langan líftíma og að nær væri að miða við 10–15 ár. Einnig að reglan geti verið til þess fallin að vinna gegn eðlilegri vöruþróun sem verður að eiga sér stað, sér í lagi þar sem líftími vöru og þá ekki síst matvöru á markaði sé almennt takmarkaður. Meiri hlutinn telur þó rétt að hafa þessa sérreglu nokkuð stranga fyrst um sinn þangað til reynsla er fengin á hana.

Hönnunarvara.
    Hönnunarvara telst íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki þótt hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni, enda sé ekki um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að hér sé um mjög matskennt ákvæði að ræða, þ.e. að ekki sé um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að dæmi um hráefni sem hér mundi falla undir sé íslenska ullin. Ákvæðið felur því í sér að óheimilt er að merkja vöru með þjóðfánanum sem hönnuð er af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki ef hún er úr garni sem er t.d. eðlislíkt innlendu ullinni.
    Í umsögn Einkaleyfastofu kemur fram að hún telji að skýra þurfi betur hvað átt sé við með „íslensku vörumerki“ í tengslum við hönnunarvörur og bendir á að vörumerkjaréttur er landsbundinn réttur og skráð merki íslenskra og erlendra aðila hér á landi hafa hér sama rétt og stöðu sem íslensk merki. Meiri hlutinn bendir af þessu tilefni á að með „íslensku vörumerki“ sé átt við vörumerki sem skráð er á Íslandi óháð því hvort eigandinn sé íslenskur eða erlendur en einnig að heimildin til að nota fánann á hönnunarvöru er einnig bundin því skilyrði að varan sé hönnuð af íslenskum aðila.

Hugverk/sköpun.
    Í ákvæðinu er einnig lagt til að hugverk teljist íslenskt að uppruna ef það er samið af íslenskum aðila. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að orðið hugverk er yfirhugtak yfir réttindi sem vernda má samkvæmt höfunda-, vörumerkja-, einkaleyfa- og hönnunarlögum. Hugtakið þurfi því að skýra nánar og setja í samhengi við það sem verið er að nota það fyrir, hér væntanlega verk, svo sem bókmenntaverk, tónverk eða kvikmyndir sem varin eru af höfundarétti. Undir vernd höfundalaga, nr. 73/1972, falli hins vegar ýmis önnur verk en þau sem eru samin og því þurfi að gæta vel að orðalagi til að tryggja að málsgreinin nái einnig yfir önnur verk sem vernduð eru af höfundarétti. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og ábendingar um að skýrara sé og í betra samhengi við gildandi lög að í stað orðsins hugverk komi orðið sköpun og enn fremur að tiltekið verði að höfundur sé íslenskur í stað þess að verk sé samið af íslenskum aðila. Meiri hlutinn leggur því til breytingar því til samræmis.

Útfærsla merkingar.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra sem fer með málefni neytendamála verði heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæðinu. Meiri hlutinn telur eðlilegt að í reglugerðinni verði útfært nánar hvaða kröfur eigi að gera til merkingarinnar, þ.e. hvort það eigi að vera samræmi í merkingunum, þ.e. hvernig liti megi nota, hversu stór fáninn megi vera og hvort hann megi umlykja vöruna eða hvort fánamerkingin eigi að vera í tilteknu stærðarhlutfalli við pakkninguna/vöruna. Meiri hlutinn telur eðlilegt að ráðherra útfæri slík atriði nánar með reglugerð og bendir á að rétt sé að hafa samráð við Staðlaráð Íslands við þá vinnu.

Upprunareglur EES.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum nokkuð um upprunareglur EES í tengslum við frumvarpið en fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að óheppilegt væri að skilgreina uppruna í frumvarpinu á annan hátt en gert er í upprunareglum EES. Í þessu sambandi kom fram hjá ráðuneytinu að samkvæmt frumvarpinu liggja í grundvallaratriðum önnur sjónarmið að baki skilyrðum til notkunar íslenska fánans til markaðssetningar heldur en í nefndum upprunareglum. Ef umræddar upprunareglur yrðu lagðar til grundvallar yrði heimilt að merkja hvers kyns vöru sem framleidd væri hér á landi með íslenska fánanum alveg óháð því hvort hráefnið væri að einhverju leyti íslenskt eða ekki, en sú hugsun gengur þvert á meginregluna samkvæmt frumvarpinu og má telja ljóst að slík nálgun mundi mæta mikilli andstöðu íslenskra garðyrkju- og búvöruframleiðenda. Ef upprunareglurnar yrðu lagðar til grundvallar yrði jafnframt girt fyrir að heimilt yrði að merkja íslenskar hönnunarvörur sem framleiddar væru erlendis með íslenska fánanum. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og tekur fram að með reglunum sem lagðar eru til í frumvarpinu sé verið að leggja grunn að sérstökum reglum sem verði í reynd óháðar upprunareglum enda byggðar á öðrum sjónarmiðum en þær.

Eftirlit Neytendastofu.
    Í frumvarpinu er lagt til að eftirlit með notkun almenna þjóðfánans í merkingu á vöru verði falið Neytendastofu og lagt til að um málsmeðferð Neytendastofu, úrræði og viðurlög vegna brota á ákvæðunum og um kærurétt til áfrýjunarnefndar neytendamála fari að öllu leyti eftir ákvæðum laga um eftirlit með við­skipta­háttum og markaðssetningu. Meiri hlutinn telur fara vel á þeirri tilhögun og leggur áherslu á það meginsjónarmið að þjóðfáninn verði einungis nýttur til að kynna og markaðssetja íslenska vöru eins og lagt er til í frumvarpinu en ekki notaður til að afvegaleiða neytendur.
    Nefndin fjallaði einnig um málið í tengslum við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og tekur fram að Neytendastofa hefur almenna leiðbeiningarskyldu gagnvart þeim sem til hennar leita en um útfærslu á reglum frumvarpsins er lagt til að þeim ráðherra sem fer með málefni neytendamála verði heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um skilyrði fyrir notkun fánans.

Niðurstaða.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið um að með slíkri heimild til notkunar þjóðfánans geti sérstaða íslenskra vara verið betur auðkennd. Hún geti auðveldað íslenskum fyrirtækjum markaðssetningu á vörum og þjónustu auk þess sem hún geti verið góð viðbót við það starf sem þegar er unnið að við markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að ráðherra fylgist með því hvernig málið þróast með hliðsjón af neytendasjónarmiðum og leggi til breytingar ef þess gerist þörf.
    Meiri hlutinn leggur engu síður áherslu á mikilvægi þess að þjóðfánanum verði á engan hátt óvirðing gerð og að hann beri að umgangast af virðingu hér eftir sem hingað til.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      Í stað orðsins „vörumerki“ í 1. málsl. a-liðar komi: merki.
     b.      5. málsl. a-liðar orðist svo: Sköpun telst íslensk að uppruna ef höfundurinn er íslenskur.

Alþingi, 11. júní 2015.

Ögmundur Jónasson,
form., með fyrirvara.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Brynjar Níelsson.
Karl Garðarsson,
með fyrirvara.
Sigríður Á. Andersen. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.