Ferill 693. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1424  —  693. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir.


Frá atvinnuveganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og hafa nefndinni borist umsagnir frá Byggðastofnun, Eyþingi, Ferðamálastofu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga, Skaftárhreppi og Skipulagsstofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Samhliða eru lagðar til breytingar á lögum um Byggðastofnun, m.a. í þá veru að fella brott ákvæði um byggðaáætlun og verði frumvarpið að lögum verður kveðið á um hana í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Markmið frumvarpsins, sbr. 1. gr. þess, er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggða­mála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga og færa til ­sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Ætlunin er að bæta verklag við gerð stefnumótunar og áætlanagerð á sviði byggða­mála.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lagastoð verði rennt undir skipan stýrihóps Stjórnarráðsins um byggða­mál en í upphafi var hann á herðum óformlegs vinnuhóps á vegum forsætisráðuneytisins. Hópurinn er samráðsvettvangur allra ráðuneyta enda ganga byggða­mál þvert á verkefni ólíkra ráðuneyta. Þá er í 4. gr. kveðið á um sóknaráætlanir landshluta sem eru svæðisbundnar þróunaráætlanir hvers landshluta og er gerður samningur við ráðuneyti um fjárframlög. Verði frumvarpið að lögum verður verklag sem hefur mótast frá árinu 2011 fest í sessi en nú byggist það einungis á ákvörðun ráðherra hverju sinni.
    Nefndin leggur til að landsskipulagsstefnu verði bætt við upptalningu í 4. gr. frumvarpsins. Landsskipulagsstefna telst ekki til skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum og telur nefndin mikilvægt að tryggja samspil milli landsskipulagsstefnu og sóknaráætlana landshluta. Einnig er lagt til að málsliður þess efnis að Byggðastofnun geti tekið þátt í gerð svæðisskipulags falli brott í 4. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins enda gefa skipulagslög ekki kost á því að Byggðastofnun geti verið aðili að gerð svæðisskipulags.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Á eftir orðunum „meginmarkmiðum byggðaáætlunar“ í 1. mgr. 4. gr. komi: landsskipulagsstefnu.
     2.      Við 6. gr.
                  a.      Lokamálsliður 4. mgr. a-liðar falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „styrksvæði“ í 5. mgr. a-liðar komi: stuðningssvæði.
                  c.      C-liður orðist svo: Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist: haghafa.

    Lilja Rafney Magnúsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 11. júní 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Þórunn Egilsdóttir,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, með fyrirvara.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Eldar Ástþórsson.
Kristján L. Möller. Páll Jóhann Pálsson. Hjálmar Bogi Hafliðason.