Ferill 798. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1430  —  798. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan
Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Baldur Sigmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Björn Rögnvaldsson og Sigurð H. Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Gunnar Björnsson frá samninganefnd ríkisins, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Pál Halldórsson, Ernu Guðmundsdóttur, Höllu Þorvaldsdóttur og Sigrúnu Ösp Sigurjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Ólaf G. Skúlason, Gunnar Helgason, Evu Kristjánsdóttur, Rut Gunnarsdóttur, Valgerði Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Láru V. Júlíusdóttur, Gylfa Dalmann Aðalsteinsson, Ástráð Haraldsson, Pál Matthíasson frá Landspítala, Birki Jakobsson frá landlæknisembættinu, Hildigunni Svavarsdóttur og Bjarna Jónsson frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Þórólf Halldórsson frá embætti sýslumannsins í Reykjavík, Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara og Magnús Pétursson, fyrrverandi ríkissáttasemjara. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Bandalagi háskólamanna, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Svavari Kjarrval Lútherssyni.
    Með frumvarpinu er lagt til bann við verkfallsaðgerðum og frekari vinnustöðvunum eða öðrum aðgerðum sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en frumvarpið nær til vegna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Lagt er til að aðilum verði gefið tækifæri til að semja sín á milli fyrir 1. júlí nk. en hafi þeir á þeim tíma ekki komist að samkomulagi skuli gerðardómur ákveða kaup og kjör fyrir 15. ágúst nk. Skal ákvörðun gerðardóms gilda frá gildistöku laganna og eins lengi og gerðardómur ákveður. Gerðardómur skal við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma, ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Jafnframt skal gæta að stöðugleika efnahagsmála við ákvarðanirnar.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Hæstiréttur Íslands tilnefni þrjá menn í gerðardóm sem skuli skera úr um kjaramál þeirra félagsmanna sem aðild eiga að framangreindum stéttarfélögum. Meiri hlutinn bendir á að um er að ræða átján aðildarfélög Bandalags háskólamanna auk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga en ekki einstök félög. Að mati meiri hlutans er rétt að Hæstiréttur tilnefni þá aðila sem sæti muni eiga í gerðardómi en sami háttur var hafður á í lögum sem sett voru á kjaradeilu fiskimanna og fleira, sbr. lög nr. 34/2001. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að við skipan þriggja dómenda í gerðardóm skv. 2. gr. frumvarpsins verði litið til hæfni þeirra einstaklinga sem veljast til starfans í ljósi starfsferils þeirra og þekkingar á kjarasamningum og vinnudeilum. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að þeir séu með öllu óháðir deiluaðilum og hafi ekki sérstakra hagsmuna að gæta af málinu og úrlausn þess.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er fjallað um þau viðmið sem lagt er til að gerðardómurinn skuli hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína. Meiri hlutinn áréttar það meginskilyrði sem fram kemur í ákvæðinu að við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör skuli gerðardómur hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð.
    Meiri hlutinn tekur fram að það er grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli, en þegar brýna nauðsyn ber til getur komið til þess að íhlutun löggjafans sé réttlætanleg. Hafa verður þó í huga að löggjafanum eru ákveðin takmörk sett með 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem tryggja rétt launþega til aðildar að stéttarfélögum og hefur verkfallsrétturinn verið talinn falla þar undir. Íhlutun löggjafans er því aðeins réttlætanleg ef ríkir almannahagsmunir eru í húfi en þá þarf að gæta þess að ekki sé um of víðtæka eða langvarandi skerðingu á samningsrétti aðila að ræða.
    Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er orðið ljóst að verkfallsaðgerðirnar hafa haft verulega neikvæð áhrif á almannahagsmuni og sett verkefni ríkisins í hættu. Alvarlegt hættuástand getur ­fljótlega skapast innan heilbrigðiskerfisins og ógnað lífi, heilsu eða öryggi manna. Því standa mjög ríkir almannahagsmunir til þess að starf á heilbrigðisstofnunum landsins komist í eðlilegt horf, þannig að lög sem fela í sér bann við verkfalli eiga tvímælalaust rétt á sér við núverandi aðstæður. Ríkir almannahagsmunir og/eða réttindi annarra sem og neikvæð áhrif á ráðstöfun eigna, viðskipta og framleiðslu standa einnig til þess að bundinn verði endi á verkföll hjá starfsmönnum sýslumanns og dýralæknum. Mat meiri hlutans er að þeir heildarhagsmunir sem í húfi eru séu það miklir að um ríka almannahagsmuni sé að ræða sem réttlæti inngrip löggjafans á þann hátt sem lagt er til í frumvarpinu.
    Meiri hlutinn áréttar að öll þau félög sem þetta frumvarp nær til hafa boðað verkfall eða hafið verkfallsaðgerðir. Þessi félög hafa lagt fram sam­eigin­legar kröfur, skipað sam­eigin­lega viðræðunefnd og samþykkt að fylgja þeim eftir með sam­eigin­legum aðgerðum.
    Ekki virðist sem lausn finnist á kjaradeilu aðila í bráð. Kjaradeilum hvað varðar samflot stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna var vísað til ríkissáttasemjara 26. mars sl. og hvað varðar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga 1. apríl sl. Viðræðum hefur verið slitið og mikið ber á milli deiluaðila. Á fundi nefndarinnar kom fram að deilan er í hnút og samningar ekki líklegir í fyrirsjáanlegri framtíð.
    Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir orðunum „Félagsráðgjafafélag Íslands“ í 1. mgr. 1. gr. komi: Fræðagarður.


Alþingi, 13. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Willum Þór Þórsson. Elsa Lára Arnardóttir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Vilhjálmur Árnason.