Ferill 798. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1431  —  798. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan
Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar mótmælir fyrirhuguðu banni við verkfallsaðgerðum aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Minni hlutinn mótmælir einnig óhæfilegum flýti á meðferð málsins sem hefur takmarkað mjög tíma fyrir viðkomandi félög til að gera athugasemdir við málið og til eðlilegrar yfirferðar hjá þinginu.
    Verkfallsréttur er afar mikilsverður þáttur í rétti stéttarfélaga til að semja um kjör félagsmanna sinna, enda nýtur hann verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þeim rétti má ekki setja skorður nema nauðsyn beri til í þágu brýnna almannahagsmuna. Við mat á þeirri nauðsyn ber að líta til þess að það er beinlínis tilgangur verkfalla að setja þrýsting á gagnaðila til að knýja hann til samninga. Sérstaklega verður að gjalda varhug við því að ríkið setji lög til að binda enda á verkföll sem er ætlað að knýja það sjálft til samninga.
    Minni hlutinn telur ekki sýnt að fullreynt hafi verið að ná samningum með eðlilegum hætti við viðkomandi félög. Samningar virðast öðru fremur hafa strandað á kröfu stjórnvalda um að miða samninga við viðkomandi félög við sömu forsendur og samninga á almennum vinnumarkaði, þrátt fyrir að grundvallarmunur sé á kjarasamningum á opinberum og almennum markaði. Af athugasemdum við frumvarpið virðist raunar mega greina að fyrirhugaðri lagasetningu sé öðrum þræði ætlað að knýja viðkomandi félög til að gangast undir kjarasamning á forsendum stjórnvalda. Í því felst mikið ójafnræði milli aðila og það getur ekki talist gildur grundvöllur fyrir banni við verkfalli.
    Minni hlutinn telur einnig skjóta skökku við að leggja eigi bann við verkfalli allra þeirra félaga sem 1. gr. frumvarpsins tekur til, enda þótt staða þeirra sé mjög misjöfn. Í athugasemdum við frumvarpið er raunar ekki vikið að áhrifum af verkfalli sumra þeirra stétta sem það tekur til og vandséð að neyðarástand hafi skapast vegna þeirra allra. Minni hlutinn telur ekki ganga að banna verkfall allra þessara stétta með vísan til áhrifa af verkföllum sumra þeirra. Furðu vekur að frumvarpinu sé jafnvel ætlað að taka til félaga sem ekki hafa boðað eða hafið verkfall.
    Minni hlutinn gerir einnig verulegar athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. kemur fram að gerðardómur skuli eftir atvikum hafa hliðsjón af kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015. Ákvæðinu virðist ætlað að tryggja að ákvörðun gerðardóms miðist aðeins við samninga sem hafa verið gerðir á almennum markaði, til samræmis við áherslur stjórnvalda, en taki ekki mið af nýlegum kjarasamningum á opinberum markaði, svo sem samningum við lækna og fram­haldsskólakennara, líkt og stéttarfélögin gera kröfu um. Minni hlutinn telur óeðlilegt að gerðardóminum sé þannig falið að taka ákvörðun sem miðist við áherslur annars deiluaðila. Minni hlutinn telur einnig óviðunandi að ákvörðun gerðardóms séu ekki sett nein tímamörk.
    Með hliðsjón af því sem hér hefur komið fram leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá en verði sú tillaga ekki samþykkt leggur minni hlutinn til eftirfarandi

BREYTINGU:



          1.      Við 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. bætist: en þó ekki lengur en í eitt ár frá gildistöku laga þessara.
          2.      Í stað orðanna „kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi“ í 1. mgr. 3. gr. komi: kjarasamningum seinustu missira en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála sé ekki raskað.
    

Alþingi, 13. júní 2015.

Guðbjartur Hannesson,
frsm.
Páll Valur Björnsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson.