Ferill 752. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1437  —  752. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur
um aðgang að skjölum skv. 29. gr. laga um opinber skjalasöfn.


     1.      Hefur reynt á ákvæði 29. gr. laga um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, um synjun um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára
                  a.      vegna einkamálefna einstaklings eða
                  b.      á grundvelli almannahagsmuna?

     2.      Ef svo er, um hvaða gögn var að ræða?
    Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskjalasafni Íslands hefur ekki reynt á umrætt ákvæði enn sem komið er í starfsemi safnsins. Ekki er kunnugt um að reynt hafi á það hjá öðrum opinberum skjalasöfnum.

     3.      Ef ekki, kemur þá til greina að stytta framangreint tímabil?

    Rétt er að vekja athygli á að um heimildarákvæði er að ræða. Í greinargerð þess frumvarps sem varð að lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, segir m.a.:
    „Með ákvæðinu er opinberu skjalasafni heimilt að ákveða takmörkun á aðgangi að skjali sem er yngra en 110 ára svo framarlega sem sérstakar og veigamiklar ástæður liggja því til grundvallar. Það er því aðeins í undantekningartilvikum sem ákvæði þessu verður beitt. Helst mundi ákvæðið geta átt við þegar skjal er orðið eldra en 80 ára og varðar viðkvæmar einkalífsupplýsingar lifandi manns. Þar með hafa takmarkanir á aðgangi almennings skv. 22. gr. fallið niður. Hlutaðeigandi einstaklingur kann hins vegar að eiga rétt á því skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar að hið opinbera, sem hefur í skjóli valdheimilda sinna safnað viðkvæmum einkalífsupplýsingum um hann, veiti ekki aðgang að upplýsingunum til óviðkomandi sem ekki eiga réttmætt tilkall til aðgangs að þeim. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að hafa slíkt matskennt ákvæði í frumvarpinu.
    Ákvæðið er svipað að efni og 3. mgr. 28. gr. dönsku laganna, arkivloven, að því frátöldu að danska ákvæðið tekur til skjala sem eru yngri en 100 ára, en vegna sífellt lengri lífaldurs Íslendinga er talin ástæða til að þessi heimild nái til 110 ára.
    Skjal sem varðar almannahagsmuni og getur talist vert að synja um aðgang að getur t.d. verið teikningar af húsum sem varða öryggi ríkisins (fangelsi, öryggisgeymslur o.s.frv.).“
    Þjóðskjalasafn Íslands telur hér um eðlilega öryggisheimild að ræða og mælir með að umræddri lagagrein verði haldið óbreyttri með vísan til þeirra röksemda sem fram koma í greinargerð. Ráðherra er sammála þeirri niðurstöðu safnsins.