Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1441  —  397. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Margréti Maríu Sigurðardóttur og Elísabetu Gísladóttur frá umboðsmanni barna, Þóru Jónsdóttur og Margréti Júlíu Rafnsdóttur frá Barnaheillum, Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Hrunamannahreppi, Mannréttindaskrifstofu Íslands og umboðsmanni barna.
    Efni þingsályktunartillögunnar er að fela innanríkisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember, dagurinn þegar barnasáttmálinn var samþykktur, verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur hér á landi með lögum nr. 19/2013. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi fyrir börn, óháð réttindum fullorðinna. Skv. 42. gr. barnasáttmálans skuldbinda aðildarríki sig til að kynna meginreglur og ákvæði samningsins víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum sem fullorðnum.
    Allir umsagnaraðilar voru jákvæðir um efni þingsályktunartillögunnar og bentu m.a. á að mikilvægt væri að fræðsla um réttindi barna væri samofin starfi þeirra í skólum landsins. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og vísar til þess að einstaklingar þurfa að þekkja réttindi
sín til þess að geta notið þeirra og staðið vörð um þau. Slík þekking er einnig forsenda þess að þeir sýni réttindum annarra tilhlýðilega virðingu og geti lagt sitt af mörkum til að tryggja að þeir fái notið þeirra. Mikilvægt er að leggja áherslu á kynningu og fræðslu um barnasáttmálann en slíkir fræðadagar eru nú þegar viðhafðir til fræðslu um íslenska tungu og íslenska náttúru. Afar mikilvægt er því að leggja áherslu á kynningu og fræðslu almennt um mannréttindi í samfélaginu og sérstaklega í skólum landsins. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lagt áherslu á kynningu og fræðslu um samninginn í ábendingum sínum til íslenskra stjórnvalda og hefur m.a. hvatt til þess að mælt verði fyrir um hana í skólanámskrám. Slík fræðsla hlýtur að eiga að vera þáttur í almennu skólastarfi og samtvinnuð því með ýmsum hætti alla skóladaga. Tillagan er liður í því að stuðla að þessari mikilvægu kynningu og fræðslu um barnasáttmálann og skyldu ríkisins til þess að hafa árlega sérstakan dag í skólum sem er helgaður fræðslu um barnasáttmálann og þau mikilvægu og margvíslegu mannréttindi sem þar er mælt fyrir um.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Páll Valur Björnsson,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Hanna Birna Kristjánsdóttir.