Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1450  —  475. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940,
með síðari breytingum (guðlast).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá innanríkisráðuneyti, Ólaf Eggertsson frá Berunessókn (símafundur), Kristin Ásgrímsson og Þórdísi Karlsdóttur frá Hvítasunnukirkjunni í Keflavík, Helga Gunnarsson frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Ólaf Kristinsson frá Kaþólsku kirkjunni á Íslandi og Jón Val Jensson. Umsagnir bárust frá Berunessókn, Biskupsstofu, Digranessókn, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Hvítasunnukirkjunni í Keflavík, IMMI – alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, Jóni Val Jenssyni, Kaþólsku kirkjunni á Íslandi, PEN á Íslandi, Prestafélagi Íslands, ríkissaksóknara, Siðmennt – félagi siðrænna húmanista og Vantrú.
    Markmið frumvarpsins er að fella brott lagaákvæði sem er á skjön við ríkjandi viðhorf til mannréttinda hér á landi. Með frumvarpinu er lagt til að 125. gr. almennra hegningarlaga um guðlast falli brott en hún er svohljóðandi: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“
    Með frumvarpinu er að auki verið að bregðast við gagnrýni alþjóðastofnana á þau ákvæði íslenskrar löggjafar sem þykja ganga gegn tjáningarfrelsi. Þannig lýsti erindreki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) yfir áhyggjum af takmörkunum á tjáningarfrelsi á Íslandi í nóvember 2013 og sérstaklega því að dæma megi fólk í fangelsi fyrir ólögmæta tjáningu. Gagnrýni erindrekans kom til vegna frumvarps sem varð að lögum á 143. þingi (109. mál). Evrópuráðið hefur einnig ályktað að rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga, enda sé ekki rétt að hafa ákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi í refsilöggjöf. Þá hefur Feneyjanefnd Evrópuráðsins einnig ályktað að rétt sé að afnema löggjöf sem banni guðlast, en rétt sé hins vegar að hafa í refsilöggjöf ákvæði um hatursáróður. Einnig má benda á aðgerðaáætlun mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2012 (Rabat plan of action) um bann við hatursorðræðu á grundvelli þjóðernis, kynþátta eða trúarlegs haturs sem hvetur til mismununar, óvildar eða ofbeldis. Meðal þeirra tilmæla sem beint er til ríkja sem tiltekin eru í aðgerðaáætluninni er að þau afnemi lagaákvæði um guðlast.
    Flestir þeirra sem sendu nefndinni umsögn um frumvarpið taka undir þau sjónarmið sem liggja að baki því og mæla með samþykkt þess. Þannig er í umsögn ríkissaksóknara tekið undir rök flutningsmanna fyrir því að 125. gr. almennra hegningarlaga verði felld brott og lagt til að frumvarpið verði samþykkt. Í umsögn Biskupsstofu er vísað til ályktunar kirkjuþings um stuðning við fram komið frumvarp og vísað til þess að lagaákvæði sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þeim hætti sem umrætt ákvæði 125. gr. almennra hegningarlaga gerir standist ekki nútímaviðhorf til mannréttinda. Tekið er í sama streng í umsögnum Prestafélags Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda, PEN á Íslandi, IMMI – alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, Siðmenntar og Vantrúar. Í nokkrum umsögnum er vikið sérstaklega að ákvæði 233. gr. a um hatursáróður. Í umsögn Prestafélagsins og Digranessóknar er þannig lögð áhersla á að ekki verði hróflað við því ákvæði enda nái það fyllilega yfir þá þætti sem rétt sé að áfram verði refsiverðir. Nokkrir umsagnaraðilar eru andvígir samþykkt frumvarpsins. Í umsögn Berunessóknar kemur fram sú afstaða að ákvæði 125. gr. feli í sér aðhald sem þurfi að vera til staðar og í umsögnum Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu er vísað til trúfrelsisákvæða stjórnarskrár og áhyggjum lýst af því að með samþykkt frumvarpsins verði opnað á að smána megi safnaðarmeðlimi trúfélaga þeim til háðs og minnkunar.
    Með vísan til síðastnefndu umsagnanna leggur nefndin áherslu á að það er ekki markmið frumvarpsins að afnema ákvæði um hatursorðræðu eða hatursáróður. Ákvæði 233. gr. a mun áfram standa óhaggað þótt frumvarpið verði samþykkt en það er svohljóðandi: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ Grundvallarmunur er á þessu ákvæði og 125. gr. laganna sem frumvarpið lýtur að og varðar guðlast. Telur nefndin að 233. gr. a almennra hegningarlaga nái fyllilega yfir hatursorðræðu og hatursáróður.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Helgi Hrafn Gunnarsson, frsm. Páll Valur Björnsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Hanna Birna Kristjánsdóttir.