Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1457  —  470. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum,
nr. 19/1940, með síðari breytingum (heimilisofbeldi).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá innanríkisráðuneyti, Sigríði Björk Guðjónsdóttur og Öldu Hrönn Jóhannsdóttur frá lögreglunni á höfuð­borgar­svæðinu og Sigríði Friðjónsdóttur og Daða Kristjánsson frá ríkissaksóknara.
    Umsagnir um málið bárust frá Ákærendafélagi Íslands, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, lögreglunni á höfuð­borgar­svæðinu, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Mannréttindaskrifstofu Íslands, ríkissaksóknara, Stígamótum og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði í almennum hegningarlögum sérstakt refsilagaákvæði sem taki sérstaklega til heimilisofbeldis vegna alvarleika þeirra brota. Markmiðið er að draga úr tíðni heimilisofbeldis og vernda þolendur samhliða því að taka á vanda gerenda. Í frumvarpinu er einnig lagt til að lögreglu verði fengin heimild til að ákæra fyrir brot gegn nálgunarbanni en í núverandi löggjöf sæta slík brot aðeins ákæru að kröfu þess sem misgert var við.

Sérstakt refsilagaákvæði.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um málið og þá sérstaklega um 1. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að lögfest verði sérstakt refsilagaákvæði sem taki til heimilisofbeldis. Í ákvæðinu er lagt til að hver sem gerist sekur um brot sem varða við 108. gr., 193. gr., XXII.– XXIV. kafla, 231. gr., 233. gr. b, 253. eða 257. gr. og verknaður hefur beinst að maka hans, fyrrverandi maka, barni annars eða beggja eða öðrum sem er nákominn geranda, og tengsl þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, skuli sæta fangelsi minnst 6 mánuði og allt að 6 árum. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að ákvæðið væri of almennt orðað og þar vantaði tilgreiningu á brotaákvæðum 233. gr. almennra hegningarlaga um hótanir sem reyndi gjarnan á í heimilisofbeldismálum. Þá var einnig varað því að vísa í XXII. kafla um kynferðisbrot án frekari tilgreiningar þar sem í þeim kafla væru sérstök refsiákvæði, m.a. þegar brotið væri gegn börnum sem væru tengd geranda fjölskylduböndum eða nátengd honum á annan hátt, þ.e. 200. og 201. gr., og í þeim væri kveðið á um þyngri efri mörk refsingar, þ.e. 8 og 12 ár, en í frumvarpinu þar sem lagt er til að þyngri mörkin verði 6 ár. Einnig var nefnt sem dæmi ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun þar sem refsiramminn er mun hærri eða allt að 16 ár. Ef slíkt brot er sem dæmi framið í parasambandi gæti slíkt misræmi valdið óvissu við túlkun. Einnig komu fram ábendingar um að skilgreina þyrfti hverjir geti fallið undir að teljast nákomnir brotaþola. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og bendir á að innanríkisráðherra hefur falið refsiréttarnefnd að undirbúa breytingar á almennum hegningarlögum með tillögu um að heimilisofbeldi verði skilgreint sem sérstakt brot svo sem gert er í refsilöggjöf í Noregi. Á fundum nefndarinnar kom fram að sú vinna er á lokastigum. Nefndin fagnar þessu og áréttar mikilvægi þess að frumvarp þess efnis verði lagt fram á haustþingi. Með vísan til þessa leggur nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að 1. gr. þess falli brott.

Nálgunarbann.
    Nefndin fjallaði um þær breytingar sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins um að brot gegn nálgunarbanni geti sætt ákæru af hálfu lögreglu en ekki aðeins af hálfu þess sem misgert var við. Þannig verði það einnig mat lögreglu hverju sinni hvort ákæra beri fyrir brot gegn nálgunarbanni en samkvæmt gildandi lögum geta einungis þolendur kært brot gegn nálgunarbanni. Við meðferð málsins virðist hafa farist fyrir að leggja til breytingar á ákvæði 242. gr. þannig að ákvæðið næði þeim markmiðum sem að var stefnt og hafa fallið dómar þar sem nálgunarbann hefur verið fellt úr gildi á þeim grundvelli að þolandi hefur fallið frá kröfu um nálgunarbann og einnig þar sem kröfu lögreglu um nálgunarbann var hafnað. Nefndin tekur undir nauðsyn þess að berjast gegn þeirri vá sem heimilisofbeldi er og viðurkenna alvarleika þeirra brota sem um ræðir. Fram kom að ástæður þess að ofbeldi er ekki kært eru ekki endilega meðvirkni eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu heldur fremur að þolendum er ókleift að kæra vegna hræðslu um frekari ofbeldi. Nefndin bendir á að verði ákvæðið samþykkt verður unnt að framfylgja úrræðum laganna þó að brotaþoli hafi ekki gert kröfu um ákæru og því í reynd verið að létta þrýstingi af þolendum. Þannig verði unnt að tryggja vernd þolenda og þar með réttaröryggi þeirra.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að unnið sé áfram að forvörnum í þessum málum og að nauðsynlegt sé, sérstaklega þegar litið er til hagsmuna barna, að skoðað verði hvort unnt sé að heimila meiri samvinnu og upplýsingamiðlun milli lögreglu, félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, skólayfirvalda, heilbrigðisstarfsfólks og jafnvel fangelsismálayfirvalda í þessum málum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og áréttar þá afstöðu sína að aukin samvinna og gagnkvæm upplýsingagjöf þessara aðila er að hennar mati nauðsynleg og brýnt er að skoða hvort breyta þurfi löggjöf þar að lútandi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. falli brott.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (nálgunarbann).

Alþingi, 15. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Hanna Birna Kristjánsdóttir.