Ferill 784. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1460  —  748. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um myndatökur af lögreglu.


    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir umsögnum Lögregluskóla ríkisins og embættis ríkislögreglustjóra. Umsagnirnar bárust ráðuneytinu 26. maí sl.

     1.      Er óheimilt að taka myndir og myndbönd af lögreglumönnum við störf? Ef svo er, hvenær og á grundvelli hvaða laga, reglna eða annarra réttarheimilda er lögreglumönnum heimilt að banna myndatökur af sér?
    Almennt hefur lögregla ekki heimild til að hindra eða koma í veg fyrir myndatökur af störfum lögreglu á opinberum vettvangi. Hins vegar er eðli lögreglustarfsins þannig að upp geta komið atvik og verkefni þar sem lögreglumaður telur þörf á að meina töku mynda eða myndbanda, svo sem vegna rannsóknarhagsmuna, hagsmuna þriðja aðila, eða ef myndatakan veldur verulegum truflunum á starfi lögreglumannsins eða verulegri hættu. Við slíkar aðstæður er viðkomandi skylt að hlýða þeim fyrirmælum, sbr. 19. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, þar sem kveðið er á um skyldu til þess að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnunar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.
    Lögreglumenn verða eftir sem áður ávallt að gæta að skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins við beitingu þess valds sem þeim er falið, svo sem meðalhófsreglunni.
    Þá er rétt að taka fram að lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, geta einnig komið til skoðunar hvað varðar heimildir til töku mynda af lögreglumönnum við störf og birtingar þeirra.

     2.      Fá lögreglumenn þjálfun í faglegum samskiptum við borgarana með það að leiðarljósi að halda samskiptunum þannig að ekki þurfi að beita valdi? Hvaða lögreglumenn fá slíka þjálfun, í hverju felst hún og hve löngum tíma er varið í hana?
    Í umsögn Lögregluskóla ríkisins kemur fram eftirfarandi til svars við þessari spurningu:
    ,,Því er almennt til að svara að í öllu grunnnámi Lögregluskóla ríkisins, hvort sem er í bóknámi eða starfsnámi, er víða fjallað um framkomu lögreglumanna og mikilvægi góðra samskipta við borgarana. Mannréttindi og siðferði lögreglumanna eru sérstakt viðfangsefni í náminu og víðsvegar er fjallað um meðalhófsregluna og mikilvægi þess að hafa ætíð að leiðarljósi að lögreglan gangi ekki lengra í afskiptum sínum, m.a. valdbeitingu, en þörf er á hverju sinni.
    Fræðsla í framkomu og samskiptum fer fram bæði með fyrirlestrum og verklegum æfingum, ekki er nokkur leið að nefna nákvæmlega hve löngum tíma er varið í hana en hún er óumdeilanlega einn af máttarstólpum grunnnámsins.
    Þannig er það eitt af heildarmarkmiðum með námi á fyrstu önn grunnnáms (bóknámsönn) að byggja upp hjá nemendunum viðhorf og atferli sem er í samræmi við þær kröfur sem samfélagið og lögreglan gera á hverjum tíma. Í námsgreininni „Almenn lögreglufræði“ er sérstök áhersla lögð á framkomu lögreglumanna og samskipti við almenning. Í fyrirlestraröð um streitu- og tilfinningastjórnun eru nemendum kenndar aðferðir við að hafa betri stjórn á tilfinningum eins og t.d. streitu og reiði. Í verklegum æfingum fá nemendur þjálfun í úrlausn verkefna þar sem reynir á kunnáttu þeirra í beitingu réttarreglna, beitingu valds, framkomu og framkvæmd lögreglustarfa almennt.
    Í námsskrá fyrir starfsnám grunnnámsnemenda er m.a. tekið fram að sérstök áhersla skuli lögð á að hegðun og framkoma nemandans sé í samræmi við stöðu hans sem lögreglunema í starfsnámi og væntanlegs lögreglumanns; að hann þjálfist í að starfa og meta aðstæður sjálfstætt og læri að taka réttar og sjálfstæðar ákvarðanir.
    Í námsskrá fyrir þriðju önn grunnnáms (bóknámsönn) er eitt af heildarmarkmiðum námsins á önninni að nemendurnir öðlist skilning á því að lögreglan á Íslandi starfar við fjölbreyttar aðstæður og sinnir margvíslegum verkefnum. Þannig skulu nemendur, með réttu mati á aðstæðum, viðeigandi málfari og líkamstjáningu, vera reiðubúnir til að leysa ólík verkefni með því að sýna frumkvæði, hugrekki og röggsemi ásamt því að nota valdbeitingarheimildir og réttarfarsúrræði lögreglunnar á réttan hátt. Í verklegum æfingum á þriðju önn þurfa nemendur m.a. að takast á við raunhæf verkefni þar sem reynir á framkomu þeirra og framkvæmd lögreglustarfa.“

     3.      Hver eru viðurlögin við því þegar lögreglumaður gefur fólki skipun sem ekki er í samræmi við meðalhóf eða réttmæta valdbeitingu miðað við kringumstæður?
    Í fyrsta lagi kunna viðurlög að felast í beitingu stjórnunarheimilda samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Telji viðkomandi lögreglustjóri að lögreglumaður hafi gefið fólki skipun sem ekki er í samræmi við meðalhóf eða réttmæta valdbeitingu miðað við kringumstæður getur hann beitt stjórnunarheimildum forstöðumanns, svo sem skriflegri áminningu á grundvelli 21. gr. laganna eða brottvikningu úr embætti ef um er að ræða alvarleg eða ítrekuð brot skv. VI. kafla laganna. Í öðru lagi fjallar embætti ríkissaksóknara um kærur á hendur starfsmönnum lögreglu fyrir ætluð refsiverð brot við framkvæmd starfa þeirra og fer með rannsókn þeirra mála, sbr. 35. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.