Ferill 753. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1467  —  753. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna heyrnartækja.


     1.      Hvaða skilyrði gilda um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna heyrnartækja og annarra hjálpartækja vegna heyrnarskerðingar og hversu mikil er hún í einstökum tilvikum?
    Greiðsluþátttaka ríkisins í heyrnartækjum er skilgreind í tveimur reglugerðum, annars vegar í reglugerð nr. 1118/2006, með áorðnum breytingum, um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands útvegar (HTÍ), og hins vegar í reglugerð nr. 146/2007, um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð.
    Fyrir börn yngri en 18 ára eru heyrnartæki greidd að fullu. Fyrir þá sem eru 18 ára og eldri ræðst greiðsluþátttaka af því hvort um vægari eða alvarlegri heyrnarskerðingu er að ræða samkvæmt skilgreiningu sem kemur fram í fyrrgreindum reglugerðum. Vegna vægara stigs heyrnarskerðingar er greiddur ákveðinn styrkur vegna kaupa á heyrnartækjum en vegna alvarlegra stigs heyrnarskerðingar greiðir ríkið 80% kostnaðar vegna heyrnartækja. Þá greiðir ríkið 90% af verði tækja vegna kuðungsígræðslu og 80% ef um beinskrúfutæki er að ræða.
    Langstærstur hluti heyrnartækja sem ríkið tekur þátt í að greiða eru fyrir 18 ára og eldri vegna vægara stigs heyrnarskerðingar (92% af fjölda tækja árið 2014), hér eftir nefnd almenn tæki. Bæði HTÍ og einkafyrirtæki selja almenn tæki sem eru einu tækin sem einkafyrirtækjum er heimilt selja. HTÍ selur heyrnartæki vegna alvarlegri heyrnarskerðingar þar sem mjög sérhæfða þekkingu þarf við afgreiðslu þeirra.
    Styrkur til kaupa á almennum heyrnartækjum er nú 30.800 kr. á tæki eða 61.600 kr. fyrir tvö tæki og er styrkur veittur á fjögurra ára fresti. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) annast greiðslu styrks vegna þeirra tækja sem keypt eru af einkafyrirtækjum.
    Þeir sem eru 18 ára og eldri og fá almenn tæki geta leigt önnur hjálpartæki vegna heyrnarskerðingar gegn gjaldi sem samsvarar raunkostnaði við notkun þeirra. Aðrir greiða fyrir tækin eftir sömu greiðslureglu og vegna heyrnartækis viðkomandi. HTÍ annast útvegun annarra hjálpartækja vegna heyrnarskerðingar.
    Eins og áður segir er greiðsluþátttaka ríkisins því fastur styrkur vegna almennra tækja en ákveðið hlutfall af verði annarra heyrnartækja.
    Lífeyrisþegar sem hafa tekjur undir ákveðnum mörkum og keypt hafa heyrnartæki geta sótt um uppbót á lífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna kaupa á heyrnartækjunum. Árið 2014 fengu 66 einstaklingar uppbót sem var að meðaltali um 71.000 kr. en þó mjög mismunandi milli einstaklinga. Vegna rýmkunar á tekjuviðmiði vegna uppbótarinnar stefnir í að um helmingi fleiri njóti hennar árið 2015 en árið 2014.

     2.      Hver hafa útgjöld sjúkratrygginga verið vegna heyrnartækja og annarra hjálpartækja vegna heyrnarskerðingar frá árinu 2000? Svar óskast sundurliðað eftir útgjöldum hvers árs og hvort um lífeyrisþega er að ræða.
    Upplýsinga var aflað frá SÍ og HTÍ sem annast greiðsluþátttöku ríkisins vegna heyrnartækja. Ekki reyndist mögulegt að fá heildstæðar upplýsingar fyrr en frá árinu 2010. Eins og fram hefur komið tekur greiðsluþátttaka mið af aldri og alvarleika heyrnarskerðingar en er óháð stöðu viðkomandi sem lífeyrisþega. HTÍ lagði mat á hve stór hluti kostnaðar vegna heyrnartækja sem stofnunin selur var vegna lífeyrisþega og koma þær upplýsingar fram í eftirfarandi töflu. Tölur í töflunni eru á verðlagi 2014 miðað við vísitölu neysluverðs.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hversu mikil hefur greiðsluþátttaka sjúkratrygginga verið vegna heyrnartækja og annarra hjálpartækja vegna heyrnarskerðingar í einstökum tilvikum frá árinu 2000? Svar óskast sundurliðað eftir árum og hvort um lífeyrisþega er að ræða og uppreiknað með tilliti til vísitölu neysluverðs og samanborið við verð á viðkomandi hjálpartækjum.
    Í töflu hér fyrir aftan kemur fram hver greiðsluþátttakan er í einstökum tilfellum frá því núverandi reglugerðir tóku gildi í upphafi árs 2007. Eins og fram kemur í aftasta dálki eru langflest heyrnartæki almenn tæki, eða 91,9% af fjölda tækja 2014. Greiðsluþátttaka er hin sama fyrir lífeyrisþega og aðra.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Greiðsluþátttaka sem er hlutfall af verði tækja fylgir verðlagsþróun sjálfkrafa. Hækka þyrfti styrk til almennra heyrnartækjakaupa úr 30.800 kr. í tæpar 50.000 kr. til að ná verðgildi styrksins er hann tók fyrst gildi í ársbyrjun 2007. Styrkur til kaupa almennra tækja var fyrst veittur með reglugerð nr. 234/2003 sem tók gildi 1. apríl 2003 og nam styrkurinn þá 28.000 kr. Til að ná verðgildi þess styrks þegar hann tók fyrst gildi þyrfti að hækka hann í tæpar 53.000 kr.

     4.      Stendur til að auka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna heyrnartækja og annarra hjálpartækja vegna heyrnarskerðingar?
    Til skoðunar er að hækka greiðsluþátttöku vegna almennra tækja í 50.000 kr. á hvert tæki úr 30.800 kr. jafnframt því að binda fjárhæð við vísitölu neysluverðs með árlegri uppfærslu.