Ferill 628. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1475  —  628. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl.


Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum sem lúta annars vegar að aðgangi erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og hins vegar innleiðingu alþjóðaskuldbindinga um frystingu fjármuna og aðrar þvingunaraðgerðir. Ekki verður sagt að breytingar hvað varðar aðgang erlendra ríkisfara séu róttækar og raunar var það mat eins umsagnaraðila, Isavia, að þarflaust væri að ráðast í slíkar lagabreytingar. Það er mat 1. minni hluta að nýta hefði mátt tækifærið og gera raunverulegar breytingar þannig að ráðherra verði annars vegar skylt að upplýsa utanríkismálanefnd um þau leyfi sem hann veitir erlendum ríkisloftförum og hins vegar verði ráðherra skylt að hafa samráð við viðkomandi ­sveitarfélag ef hann hyggst veita erlendu ríkisskipi leyfi til að hafa viðkomu í höfn. Hér eru því lagðar til breytingar í þá veru með það að markmiði að auka gagnsæi slíkra leyfi­sveitinga og auka lýðræðislegt samráð við ­sveitarfélög.
    Hvað varðar þann hluta frumvarpsins sem lýtur að þvingunaraðgerðum gerir 1. minni hluti athugasemdir við að hér eru notuð hugtökin ríkjahópar og samstarfsríki – þ.e. ekki er gerð krafa um að ákvörðun um þvingunaraðgerðir sé tekin á vegum alþjóðastofnana heldur er vitnað til ríkjahópa og samstarfsríkja sem eru óskilgreind. Í umræðu um málið á þingi var bent á þá sögulegu staðreynd að slíkur ríkjahópur var búinn til undir yfirskriftinni bandalag „staðfastra“ þjóða þegar ráðist var inn í Írak en sú innrás reyndist feigðarflan. Þó að ráðherra hafi bent á að hann telji slíkan stríðsrekstur ekki falla undir hugtakið þvingunaraðgerðir hefur hugtakanotkun í alþjóðastjórnmálum gjarnan verið afar teygjanleg og nægir að nefna loftárásir á Líbýu sem voru kallaðar framkvæmd loftferðabanns. 1. minni hluti telur því rétt að það sé fastneglt í lög að slíkar þvingunaraðgerðir séu ekki af hernaðarlegum toga.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við b-lið 1. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra skal upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um heimildir sem veittar eru til erlendra ríkisloftfara.
     2.      Við b-lið 2. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra skal hafa samráð við ­sveitarfélög þar sem erlend ríkisskip óska eftir viðkomu áður en hann veitir slíkt leyfi.
     3.      Á eftir orðunum „þvingunaraðgerðir sem“ í 3. gr. komi: ekki geta talist af hernaðarlegum toga og.

Alþingi, 9. júní 2015.

Katrín Jakobsdóttir,
frsm.
Óttarr Proppé.