Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1482  —  687. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum, nr. 71 28. maí 1997, með síðari breytingum (samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, svipting lögræðis, lögráðamenn, nauðungarvistanir o.fl.).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Fanneyju Óskarsdóttur, Maríu Rún Bjarnadóttur, Svanhildi Þorbjörnsdóttur og Hermann Sæmundsson frá innanríkisráðuneytinu, Maríu Einarsdóttur, Engilbert Sigurðsson, Halldóru Jónsdóttur og Sigurð Pál Pálsson frá Landspítala, Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur, Hrannar Jónsson og Sigurð Rúnar Hauksson frá Geðhjálp, Þórólf Halldórsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Björgu Finnbogadóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Helgu Jónu Benediktsdóttur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Styrmi Gunnarsson, Héðin Unnsteinsson, Stefán B. Matthíasson frá Heilsugæslu höfuð­borgar­svæðisins, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Eirík Karl Smith og Snæfríði Þ. Egilsson frá rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, Auði Axelsdóttur og Herdísi Eiríksdóttur frá Hugarafli, Guðlín Steinsdóttur, Rún Knútsdóttur og Halldór Gunnarsson frá velferðarráðuneytinu, Halldór Snæ Guðbergsson og Hrefnu K. Óskarsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Markmið frumvarpsins er að bæta framkvæmd lögræðislaga og tryggja að lagaum­hverfi og verklag á grundvelli þess sé í samræmi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar. Með frumvarpi þessu er stefnt að því að undirbúa fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og jafnframt að bregðast við tilmælum alþjóðlegra eftirlitsaðila um mannréttindaskuldbindingar Íslands og ábendingum frjálsra félagasamtaka, fagaðila o.fl. um ágalla á lögunum og framkvæmd á grundvelli þeirra.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Með frumvarpi þessu er brugðist við þeim ábendingum sem fram hafa komið um nauðsyn þess að breyta ákvæðum lögræðislaga með hliðsjón af 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ákvæði þeirra færð í slíkt horf að þau séu í samræmi við ákvæði samningsins. Við meðferð málsins í nefndinni voru þau sjónarmið reifuð að frumvarpið væri ekki í samræmi við ákvæði 12. gr. samningsins og gengju ekki nægilega langt í að árétta samspil laganna við ákvæði annarra laga sem máli skipta varðandi forsendur lögræðissviptingar. Nefndin vill í þessu sambandi árétta að frumvarpið fjallar ekki um inntak þjónustu við fatlað fólk eða sjúklinga. Um það er fjallað í löggjöf á málefnasviði velferðarráðuneytisins, en á vegum þess er unnið að heildstæðri endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks vegna fullgildingar samningsins. Nefndin vísar einnig til þess að ákvæði frumvarpsins miðast við að veita fólki stuðning til að njóta réttinda sinna og taka eigin ákvarðanir og að svipting lögræðis sé algert neyðarúrræði þegar önnur lögbundin samfélagsleg úrræði geta með engu móti nýst viðkomandi.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram komu við meðferð frumvarpsins í nefndinni að rétt sé að huga að heildarendurskoðun laganna en lögin hafa ekki verið endurskoðuð efnislega frá því að þau öðluðust gildi. Nefndin áréttar mikilvægi þess að samráð sé haft við þá aðila sem lögin taka til. Tilgangur þessa frumvarps eru úrbætur á löggjöfinni með hliðsjón af mannréttindaskuldbindingum íslenskra stjórnvalda en ákvæði þeirra samninga krefjast ekki heildarendurskoðunar þar sem lögræðislög eru almenn lög sem varða alla einstaklinga en ekki aðeins fatlað fólk.

Birting úrskurðar, skráning o.fl.
    Í 14. gr. lögræðislaga er að finna ítarlegar reglur um birtingu og skráningu úrskurðar um lögræðissviptingu. Í 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 6. mgr. 14. gr. laganna sem lúta að því að Þjóðskrá Íslands verði falið að halda utan um skrá um lögræðissvipta menn og að ráðherra verði heimilt að setja nánari reglur um aðgang að upplýsingum úr skránni og miðlun upplýsinga úr henni. Gert er ráð fyrir því að Þjóðskrá Íslands fái heimild til að veita upplýsingar úr skránni þannig að unnt verði að óska eftir vottorði um lögræði hjá þeim í staðinn fyrir að óska eftir því hjá ráðuneytinu. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þær upplýsingar að þau vottorð sem Þjóðskrá Íslands gefur út á grundvelli laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, byggjast á skráningarupplýsingum í þjóðskrá. Frumvarpið felur í sér að lögræðisskráin verður innan starfskerfa sýslumanna og vottorðaútgáfa þjóðskrár um lögræði mundi því ávallt byggjast á upplýsingum sem skráðar eru hjá sýslumannsembættum. Af þeim sökum væri mikilvægt að gera þá breytingu að dómari skuli svo fljótt sem við verður komið senda staðfest endurrit úrskurðar um sviptingu lögræðis til yfirlögráðanda í stað ráðuneytisins. Nefndin tekur undir þetta og leggur til breytingu á frumvarpinu þar að lútandi.
    Nefndin er einnig efnislega sammála þeirri athugasemd sem fram kom frá Þjóðskrá Íslands að taka mætti fram hvað bæri að skrá í skrána. Nefndin leggur til þá breytingu að ráðherra verði heimilt að setja nánari reglur um hvað beri að skrá, svo sem um tímamörk sviptingar að viðbættum reglum um aðgang að upplýsingum úr skránni, sem og miðlun upplýsinga úr henni.

Framlenging nauðungarvistunar.
    Í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði, er verði 29. gr. a, um framlengingu nauðungarvistunar.
    Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að yfirlæknir geti veitt einstaklingi, sem sætir nauðungarvistun skv. 1. mgr., leyfi á tímabilinu, í eitt eða fleiri skipti, til að yfirgefa sjúkrahús til aðlögunar í nánar tiltekinn tíma. Tilgangurinn með þessari breytingu er sá að meðferðaraðili og einstaklingur sem sætir nauðungarvistun geti látið á það reyna að viðkomandi fari af sjúkrahúsi í tiltekinn tíma en komi aftur í samræmi við ákvörðun yfirlæknis. Þau sjónarmið komu fram á fundum nefndarinnar að ekki væri eðlilegt að ef yfirlæknir er ekki til staðar á tiltekinni stundu komi það í veg fyrir að leyfi sé veitt. Eðlilegt er að ábyrgur sérfræðingur sjúklings eða vakthafandi sérfræðingur um helgi og á stórhátíðum geti einnig veitt slíkt leyfi sé það talið rétt og eðlilegt í bataferli sjúklings. Nefndin bendir á að hér er um að ræða leyfi til undirbúnings útskriftar sjúklings og eðlilegt sé að geðlæknir sem starfar í umboði yfirlæknis geti veitt slíkt leyfi. Nefndin leggur einnig til þá breytingu á ákvæðinu að leyfið skuli vera skráð í fyrirmælum læknis og lengd þess skuli koma fram í dagál læknis.

Nauðungarvistun.
    Í 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 19. gr. laganna er varða skilyrði nauðungarvistunar. Í b-lið er lögð til sú breyting að ákvörðun læknis um að vista mann nauðugan á sjúkrahúsi megi standa í 72 klst. í stað 48 klst. Nefndin vill í þessu sambandi árétta að tilgangur þessarar lengingar er að skapa aukið svigrúm til að samstarf komist á milli sjúklings og læknis um meðferð. Einnig getur þessi breyting dregið úr því að koma þurfi til nauðungarvistunar í allt að 21 dag.
    Í d-lið 6. gr. er áréttað að kalla skuli til lækni sem fer á vettvang og metur aðstæður áður en maður er fluttur nauðugur á sjúkrahús skv. 2. og 3. mgr. 19. gr. laganna. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram sjónarmið um nauðsyn þess að afskipti lögreglu væru sem minnst og að sjúkraflutningamenn kæmu að flutningi einstaklings. Nefndin ræddi þetta og bendir á að gildandi lög kveða á um að lögreglu sé skylt að verða við beiðni læknis um að flytja mann nauðugan á sjúkrahús. Nefndin telur ekki að um grundvallarbreytingu sé að ræða heldur fremur áréttingu á því hvernig framkvæmdin er að meginstefnu til í dag. Að baki er einnig sjónarmið um að minnka beri hlut lögreglu í þessu ferli eins og kostur er og jafnframt áréttað að læknir skuli vera á vettvangi og meta aðstæður. Nefndin áréttar mikilvægi þess að allir sem koma að nauðungarvistunum lögum samkvæmt sýni nærgætni og tillitssemi eftir aðstæðum.
    Í 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 20. gr. laganna þannig að beiðni um nauðungarvistun geti félagsþjónusta sveitarfélaga eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila lagt fram þegar talið er réttmætt að gera þá kröfu vegna tilmæla aðila sjálfs, vandamanna hans, læknis eða vina, eða vegna vitneskju um hag aðila er fengist hefur á annan hátt. Einnig er kveðið á um þá undanþágu í 2. mgr. 7. gr. að maki, ættingjar viðkomandi í beinan legg og systkini geti lagt fram beiðni um nauðungarvistun í undantekningartilfellum, svo sem ef ekki er unnt að koma því við að félagsmálayfirvöld komi að slíkri beiðni um helgar og á almennum frídögum. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram sú gagnrýni að það ætti aldrei að gera þá kröfu til aðstandenda að þeir standi að nauðungarvistun með undirskrift sinni. Slíkt gæti valdið miklum skaða á samskiptum innan fjölskyldna og því ætti alltaf að vera annar aðili sem ákveður nauðungarvistun. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Í ljósi þeirra persónulegu réttinda sem hér eru í húfi er það mat nefndarinnar að rétt sé að taka þessa kvöð alfarið frá aðstandendum og stuðla að annarri leið. Nefndin leggur til breytingar þar að lútandi. Beiðni um nauðungarvistun manns í sjúkrahúsi skv. 3. mgr. 19. gr. og kröfu fyrir dómstóli skv. 29. gr. a getur einvörðungu félagsþjónusta sveitarfélaga eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila lagt fram. Nefndin bendir þó á að forsendur þessara breytinga sem hún leggur til eru að sveitarfélögin verði reiðubúin til að veita slíka þjónustu alla daga ársins, þ.e. einnig um helgar og á almennum frídögum. Reikna má með að þessi breyting hafi í för með sér einhvern viðbótarkostnað fyrir sveitarfélögin en ekkert kostnaðarmat skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga fylgdi frumvarpinu.
    Í d-lið 16. gr. frumvarpsins er kveðið á um að nauðungarvistuðum manni og aðstandendum hans skuli standa til boða ráðgjöf og stuðningur í kjölfar nauðungarvistunar. Ráðherra er fer með heilbrigðismál á að kveða á um framkvæmd þessa með reglugerð. Nefndin leggur áherslu á að reglugerð samkvæmt þessu ákvæði verði sett fljótt í kjölfar laganna til að styðja við innleiðingu á nýju verklagi. Vísar nefndin til þess að sambærileg heimild hefur verið til staðar frá gildistöku laganna án þess að hún hafi verið nýtt til setningar reglugerðar. Nauðsynlegt er að mati nefndarinnar að tryggja að sama staða komi ekki upp nú með tilheyrandi óvissu um verkaskiptingu milli stjórnvalda.
    Í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um framlengingu nauðungarvistunar. Þar er m.a. kveðið á um að heimilt sé með úrskurði dómara að framlengja nauðungarvistun manns í eitt skipti í allt að 12 vikur að liðnum 21 sólarhring frá dagsetningu ákvörðunar sýslumanns skv. 3. mgr. 19. gr. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var lögð áhersla á að reynt væri til hins ítrasta að ná samkomulagi við viðkomandi áður en gripið sé til þessa úrræðis. Nefndin tekur heilshugar undir þessi sjónarmið og áréttar að ekki kemur til nauðungarvistunar einstaklings sem sviptur hefur verið sjálfræði. Tilgangurinn með ákvæðinu er að auka líkur á að koma megi í veg fyrir að svipta þurfi fólk sjálfræði vegna áfram­haldandi læknismeðferðar. Með þessu er því verið að leitast við að beita vægari úrræðum.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að lagaramminn sé skýr hvað varðar réttindi og skyldur á þessu sviði, en um er að ræða afar mikilsverð persónuleg réttindi einstaklinga sem reynir oft á þegar einstaklingar eru í viðkvæmri stöðu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:     1.      5. gr. orðist svo:
                      Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: yfirlögráðanda.
                  b.      6. mgr. orðast svo:
                      6. Þjóðskrá Íslands heldur skrá um lögræðissvipta menn. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um hvað beri að skrá, svo sem um tímamörk sviptingar og aðgang að upplýsingum úr skránni, sem og miðlun upplýsinga úr henni.
     2.      2. mgr. 7. gr. falli brott.
     3.      Við 8. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: C-liður 2. mgr. fellur brott.
     4.      Við a-lið 9. gr. bætist: og í stað orðsins „því“ og orðsins „það“ í 1. mgr. kemur: honum; og: hann.
     5.      Við 17. gr.
                  a.      Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í d-lið 1. mgr. komi: samkvæmt þessu ákvæði.
                  b.      Á eftir orðinu „Yfirlæknir“ í 3. mgr. komi: eða geðlæknir sem starfar í umboði hans.
                  c.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Leyfið skal skráð í fyrirmælum læknis og lengd þess skal koma fram í dagál læknis.
     6.      Í stað orðanna „úrskurðaðar hafa verið“ í 24. gr. komi: hefur verið úrskurðað um.

    Guðbjartur Hannesson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson rita undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að eftirfarandi atriðum: Þingmennirnir telja að ekki eigi að tiltaka sérstaklega einn sjúkdóm, sbr. b-lið 1. gr. frumvarpsins, þegar kemur að skilyrðingu vegna sviptingar á lögræði. Að mati þeirra er afar mikilvægt að einkennisklæddir lögreglumenn séu ekki á vettvangi þegar þarf að fara inn á heimili einstaklings í þeim tilgangi að nauðungarvista eða svipta sjálfræði. Einnig sé brýnt í því skyni að auka aðkomu félagslegs teymis. Afar mikið sé óunnið við endurskoðun laganna og telja þau að rýmri tíma hefði þurft til að vinna málið og ber þar m.a. að nefna að ekki liggur fyrir kostnaðarmat við þá breytingu sem frumvarpið felur í sér.

Alþingi, 15. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson,
með fyrirvara.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.