Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1489  —  430. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrotamála o.fl.).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Málinu var vísað til nefndar eftir 2. umræðu.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni Hafstein og Hinriku Söndru Ingimundardóttur frá innanríkisráðuneytinu.
    Í 26. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði er kveður á um handhafa lögregluvalds. Við meðferð málsins í nefndinni var ítarlega fjallað um efnið og eru þau sjónarmið sem búa þar að baki reifuð í nefndaráliti meiri hlutans. Á fundi nefndarinnar voru þau sjónarmið reifuð að ákærendur eigi almennt ekki að fara með lögregluvald. Þrátt fyrir að lögreglu­rannsóknir séu hluti af meðferð ákæruvalds hér á landi, líkt og í Noregi og Danmörku, sé afar brýnt að sporna við samruna lögreglu og ákæruvalds eftir því sem unnt er til þess að auka trúverðugleika bæði lögreglu og ákæruvalds. Nefndin ræddi þetta. Hvað varðar almenna skipan lögregluvalds er ljóst að gera þyrfti breytingu á lögreglulögum hvað það varðar og er það mat nefndarinnar að um slíkt þurfi víðtækt samráð. Nefndin leggur þó til þá breytingu að fella út úr ákvæðinu að löglærðir starfsmenn héraðssaksóknara fari með lögregluvald.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gildistaka laganna verði 1. júlí 2015. Nefndin leggur til þá breytingu að embættið taki til starfa 1. janúar 2016. Þau sjónarmið sem þar búa að baki eru m.a. að tíma þarf til að undirbúa stofnun embættis héraðssaksóknara og koma því á fót, enda er um umtalsverðar breytingar á ákæruvaldinu að ræða. Mikilvægt er að mati nefndarinnar að þar ríki stöðugleiki og að breytingar sem þessar séu vel undirbúnar. Tryggja verður svo sem kostur er að þær raski ekki rannsóknum og saksókn á sviði kynferðisbrota, efnahagsbrota og annarra brota sem munu falla undir verksvið embættisins. Þá þarf einnig að huga að mönnun hins nýja embættis og auglýsa stöður innan þess. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hægt verði að flytja embættismenn og aðra starfsmenn frá öðrum embættum til embættis héraðssaksóknara, en afar mikilvægt er að þekking haldist í þeim málaflokkum sem flytjast til embættisins. Allt þetta krefst tíma og undirbúnings og er því mikilvægt að mati nefndarinnar að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2016.
    Nefndin leggur til þá breytingu að peningaþvættisskrifstofa sem hýst er hjá ríkislögreglustjóra flytjist til sérstaks saksóknara fram að því að embætti héraðssaksóknara tekur til starfa. En það er liður í því að uppfylla kröfur FATF (Financial Action Task Force) til slíkra skrifstofa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Í stað orðanna „starfsmenn héraðssaksóknara og“ í a-lið 26. gr. komi: fulltrúar.
     2.      1. mgr. 29. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016. Þó öðlast ákvæði til bráðabirgða og ákvæði 22. gr. og 23. gr. gildi 15. júlí 2015.
     3.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Frá 15. júlí 2015 og fram til 1. janúar 2016 skal móttaka tilkynninga á grundvelli laga
        um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vera hjá embætti sérstaks
        saksóknara.
                  Heimilt er að bjóða þeim starfsmönnum sem starfað hafa að verkefnum peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra, sem færð verða yfir til embættis sérstaks saksóknara, starf hjá embættinu. Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta að skyldu til þess að auglýsa laus störf til umsóknar, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Skal embætti sérstaks saksóknara taka við þeim réttindum og skyldum sem starfsmenn hafa áunnið sér, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996.

    Helgi Hrafn Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir rita undir álitið með fyrirvara er lýtur að fjármögnun embættis héraðssaksóknara.
    Guðbjartur Hannesson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 29. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.