Ferill 673. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1497  —  673. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum
(skoteldar, EES-reglur, stórfelld brot).

(Eftir 2. umræðu, 29. júní.)


1. gr.


    Í stað orðanna „flugelda, reyk- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrautelda“ í 5. mgr. 1. gr. laganna kemur: hvers konar hluti sem innihalda efni eða efnablöndu, þ.e. annað sprengiefni en greinir í 4. mgr., sem getur sprungið og ætlað er, með íkveikju eða á annan hátt, að gefa frá sér hita, ljós, hljóð, loftteg­und eða reyk með útvermnum, sjálfbærum efnaferlum.

2. gr.

    Í stað orðanna „sprengiefni eða skotelda“ í 1. mgr. 4. gr., 1. og 2. málsl. 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: eða sprengiefni.

3. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Sá sem framleiðir, flytur inn, flytur út eða verslar með sprengiefni skal sjá til þess að sprengiefni, þ.m.t. smæstu einingar þess, sé sérstaklega auðkennt með sérstökum auðkennum og að upplýsingar um sprengiefnið séu skráðar samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð svo að rekja megi feril þess.
    

4. gr.

    4. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sprengiefna og skotelda“ í 1. mgr. kemur: og sprengiefna.
     b.      Orðið „skoteldar“ í 2. mgr. fellur brott.

6. gr.

    VI. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Framleiðsla, inn- og útflutningur, verslun og meðferð skotelda, orðast svo:

    a. (32. gr.)
    Enginn má flytja inn, flytja út eða versla með skotelda nema með leyfi lögreglustjóra. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra.
    Leyfi skv. 1. mgr. má veita þeim einstaklingi sem hefur verslunarleyfi, sérþekkingu á skoteldum eftir nánari reglum sem ráðherra setur og hefur til umráða fullnægjandi húsnæði til þess að geyma skotelda.
    Enginn má framleiða skotelda nema með leyfi lögreglustjóra. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra. Skilyrði fyrir því að fá leyfi til framleiðslu skotelda eru þau að viðkomandi:
     a.      hafi náð 20 ára aldri og hafi ekki verið sviptur sjálfræði,
     b.      hafi ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga og laga um ávana- og fíkniefni,
     c.      hafi nægjanlega kunnáttu til þess að fara með skotelda, sé andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotelda,
     d.      hafi hlotið faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl.
    Leyfi samkvæmt kafla þessum gilda í fimm ár. Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að leyfishafi skuli sækja námskeið og gangast undir próf áður en réttindi hans eru endurnýjuð.
    Óheimilt er að veita lögaðila leyfi skv. 1. og 3. mgr. nema hann tilnefni einn starfsmann sinn sem fullnægir skilyrðum 2. mgr. eða eftir atvikum 3. mgr. til þess að annast framleiðslu, innflutning, útflutning eða verslun með skotelda. Skal hann hafa umsjón með daglegri starfsemi, svo og með geymslu og annarri meðferð skoteldanna. Telst hann ábyrgur fyrir meðferð og vörslu skoteldanna ásamt stjórnendum lögaðilans.
    Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita félagasamtökum leyfi til að selja skotelda í smásölu.
    Um ábyrgð á framleiðslu skotelda fer samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð.
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með skotelda skal sjá til þess að skoteldavörur séu merktar með sýnilegum, læsilegum og óafmáanlegum hætti á íslensku. Vörur sem eru fluttar úr landi skal með sama hætti merkja á því tungumáli sem teljast verður opinbert tungumál í því landi þar sem varan er seld.
    Framleiðendur og innflytjendur skotelda skulu halda skrá yfir framleidda og innflutta skotelda svo sem nánar er ákveðið í reglugerð. Skrárnar skal varðveita í 10 ár eftir að vara er sett á markað.
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með skotelda skal veita viðkomandi lögreglustjóra og Neytendastofu , hvenær sem þess er óskað, aðgang að birgðabókhaldi og nákvæmar upplýsingar um framleiðsluna, seldar vörur og óseldar birgðir. Þá getur lögreglustjóri, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að húsnæði þar sem framleiddir eru skoteldar eða birgðir af þeim geymdar.
    Ekki þarf leyfi fyrir útflutningi skotelda ef þeir eru fluttir úr landi með skipum eða flugförum og skoteldarnir teljast nauðsynlegur búnaður skips eða flugfars.

    b. (33. gr.)
    Þeir sem fara með skotelda skulu ætíð gæta fyllstu varúðar. Einungis má selja, framleiða og markaðssetja skotelda sem uppfylla kröfur laga þessara og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.
    Framleiðendur skotelda skulu tryggja að þeir samrýmist þeim öryggiskröfum, m.a. um CE- samræmismerkingu, sem gerðar eru í reglugerð um skotelda o.fl. og einnig reglum sem settar eru í samevrópskum stöðlum og vísað er til í Stjórnartíðindum eða reglugerðum sem ráðherra er heimilt að setja samkvæmt lögum þessum. Ef framleiðandi skotelda er utan Evrópska efnahagssvæðisins er innflytjandi þeirra ábyrgur fyrir því að skoteldarnir uppfylli þessar kröfur í samræmi við gildandi lög og reglur sem kveða á um ábyrgð innflytjanda og dreifingaraðila á vöru.
    Gerðarviðurkenning skotelda skal fara fram hjá tilkynntum aðila sem hefur rétt til að veita slíka viðurkenningu á grundvelli tilskipana, laga og reglugerða sem um hana gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Nú verður alvarlegt slys af völdum skotelda og skal þá bráðamóttaka sjúkrahúss þegar í stað tilkynna það til lögreglu og Neytendastofu.
    Skylt er að tilkynna Neytendastofu þegar vart verður gallaðra skotelda í umferð. Neytendastofa sendir og tekur við Rapex-tilkynningum vegna innköllunar á skoteldum á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Öll sala á skoteldum til almennings er óheimil nema að fengnu söluleyfi og samþykki lögreglustjóra varðandi staðsetningu og aðstæður á sölustað. Hið sama gildir um aðrar starfsstöðvar, svo sem geymslur fyrir skotelda til styttri eða lengri tíma. Dreifingaraðilar bera ábyrgð og kostnað af förgun skotelda eftir síðasta söludag eða vegna ákvörðunar um að skoteldar séu teknir af markaði.

    c. (33. gr. a.)
    Neytendastofa fer með markaðseftirlit með skoteldum í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim.
    Neytendastofa annast eftirlit með því að farið sé að ákvæðum 33. gr.
    Um skyldur framleiðanda og dreifingaraðila, þ.m.t. skyldur til að tilkynna tafarlaust um innköllun vöru af markaði, eftirlit og málsmeðferð, fer að öðru leyti eftir lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, svo og lögum um skaðsemisábyrgð, eftir því sem við getur átt.
    Ákvörðunum Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu, nr. 62/2005. Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður nefndarinnar liggur fyrir.
    Nú unir aðili ekki úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Höfða skal mál innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.

    d. (33. gr. b.)
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um eftirtalin atriði að fenginni umsögn Mannvirkjastofnunar, Neytendastofu og Vinnueftirlits ríkisins:
     a.      réttindi og skyldur innflytjanda, útflytjanda og dreifingaraðila samkvæmt kafla þessum,
     b.      skilyrði fyrir leyfi­sveitingu og flokkun réttinda,
     c.      námskeið í meðferð og notkun skotelda,
     d.      sölu og meðferð skotelda, þar á meðal um aldurstakmörk og bann við skoteldum sem teljast skaðlegir,
     e.      framleiðslu skotelda og búnað framleiðslu- og geymsluhúsnæðis, svo og nauðsynlegar öryggisreglur,
     f.      hve mikið af skoteldum framleiðanda, innflytjanda og seljanda efnis er heimilt að hafa í umráðum sínum á hverjum tíma,
     g.      húsnæði fyrir sölu skotelda.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stórfelld brot eða margítrekuð varða fangelsi allt að 6 árum. Með stórfelldu broti er m.a. átt við brot sem er framið í sambandi við atvinnustarfsemi eða varðar mörg eða sérstaklega hættuleg vopn, efni eða tæki eða mikið magn sprengiefnis eða skotelda, enn fremur ef hætta eða tjón hefur hlotist af broti.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn lögum þessum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.

8. gr.

    Á eftir 38. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/ 43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 119/2010 frá 10. nóvember 2010 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992.

9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Framleiðendur og innflytjendur skv. 2. og 3. mgr. 33. gr. um CE-samræmismerkingu og gerðarviðurkenningu skulu hafa lagað sig að reglunum eigi síðar en 15. janúar 2017. Ákvæði þetta gildir ekki um skotelda sem eru framleiddir hér á landi.
    Óheimilt er að selja skotelda sem fluttir hafa verið inn fyrir 1. janúar 2015 og uppfylla ekki skilyrði 2. mgr. 33. gr. um CE-samræmismerkingu til landa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.