Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1505  —  424. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki, Kyoto-bókunin).

(Eftir 2. umræðu, 29. júní.)


1. gr.

    Á eftir 7. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum: Niðurdæling og geymsla koldíoxíðs neðanjarðar í jarðlögum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað „31. ágúst“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: 31. júlí.
     b.      1. málsl. 7. mgr. orðast svo: Rekstraraðilar starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði við­skipta­kerfis ESB með losunarheimildir skulu fyrir 31. mars ár hvert skila skýrslu til Um­hverfisstofnunar þar sem sýnt er fram á að losun frá starfsstöðinni sé undir 25.000 tonnum af koldíoxíðsígildum á undangengnu almanaksári og skilyrði um að uppsett afl starfsstöðvar sé undir 35 MW á undangengnu almanaksári þurfa einnig að vera uppfyllt ef brennsla er hluti af starfseminni.

3. gr.

    Á eftir IX. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, IX. kafli A, Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum, með einni nýrri grein, 32. gr. a, og IX. kafli B, Opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum, með einni nýrri grein, 32. gr. b, svohljóðandi:

    a. (32. gr. a.)
    Óheimilt er að geyma koldíoxíð í jarðlögum, sérefnahagslögsögu og á landgrunni.
    Bann 1. mgr. tekur ekki til verkefna í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni ef um er að ræða verkefni þar sem ætlunin er að geyma minna en samtals 100 kílótonn koldíoxíðs.

    b. (32. gr. b.)
    Opinberir aðilar, sem skilgreindir eru í lögum um opinber innkaup, skulu við innkaup á farþega- og vöruflutningabifreiðum yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu taka mið af líftímakostnaði farartækis vegna orkunotkunar og um­hverfisáhrifa, sbr. 2. mgr., og nota a.m.k. aðra þeirra aðferða sem settar eru fram í 3. mgr. í því skyni að draga úr orkunotkun og skaðlegum um­hverfisáhrifum.
    Að því tilskildu að upplýsingar liggi fyrir ber að taka tillit til eftirfarandi um­hverfisáhrifa:
     a.      orkunotkunar,
     b.      losunar koldíoxíðs,
     c.      losunar köfnunarefnisoxíða, kolefnissambanda annarra en metans og svifryks.
    Skilyrði 1. og 2. mgr. skal uppfylla með eftirtöldum aðferðum:
     a.      með því að setja fram tækniforskriftir í útboðsskilmálum varðandi orkueyðslu og um­hverfisáhrif farartækis auk hvers kyns annarra um­hverfisáhrifa sem leiðir af kaupunum eða
     b.      ákvörðun um innkaup með hliðsjón af líftímakostnaði vegna orkunotkunar og um­hverfisáhrifa með því að setja slíkan kostnað fram sem valforsendu í skilmálum útboðs eða annars innkaupaferlis eða með reikningsaðferð sem sett er fram í reglugerð með stoð í lögum þessum.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari skilgreiningu á því hvaða innkaup falla undir 1. mgr., ásamt lýsingu á þeirri aðferðafræði sem beita skal við útreikning á rekstrarkostnaði og endingartíma, svo og um framfylgd reglnanna.

4. gr.

    Við 47. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     6.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/31/EB frá 23. apríl 2009 um geymslu koltvísýrings í jörðu og um breytingu á tilskipun ráðsins 85/337/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, 2001/80/EB, 2004/35/EB, 2006/12/EB, 2008/1/EB og reglugerð (EB) nr. 1013/2006 sem vísað er til í tölulið 19a í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 frá 15. júní 2012.
     7.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/33/EB frá 23. apríl 2009 um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum sem vísað er til í tölulið 21av. III. kafla í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 173/2013 frá 8. október 2013.

5. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (V.)
    Líta skal svo á að allar kröfur sem gerðar eru til flugrekenda í 17. og 21. gr. séu uppfylltar að því er varðar:
     1.      alla losun flugs til og frá flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
     2.      alla losun flugs á milli flugvalla sem staðsettir eru á Gvadelúpeyjum, Mayotte, Frönsku Gíneu, Martiník, Sankti Martins-eyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum og flugvallar sem staðsettur er á Evrópska efnahagssvæðinu, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
     3.      alla losun flugs á milli flugvalla í ríkjum og á landsvæðum sem tilheyra ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en eru ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem á við um Grænland og Færeyjar, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016.
    Enn fremur skal ekki gripið til aðgerða gegn flugrekendum að því er varðar alla losun frá flugi í 1.–3. tölul. 1. mgr.
    Frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 er flug á vegum flugrekenda sem eru ekki með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn undanskilin gildissviði við­skipta­kerfisins og laga þessara.
    Um­hverfisstofnun skal á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2016 endurúthluta endurgjaldslausum losunarheimildum til flugrekenda í samræmi við breytt gildissvið við­skipta­kerfisins.

    b. (VI.)
    Ákvæði 1. mgr. 32. gr. a skal endurskoða ekki síðar en árið 2020.

    c. (VII.)
    4. gr. samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skal hafa lagagildi hér á landi. Ákvæðið og 1. viðauki samningsins eru birt sem fylgiskjal með lögunum.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, svohljóðandi:

Ákvæði 4. gr. og I. viðauka samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sam­eigin­legum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

4. gr.
Beiting viðeigandi löggjafar Sambandsins

    1.     Þær réttargerðir, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, skulu vera bindandi fyrir Ísland og gilda á Íslandi. Ef réttargerðirnar, sem falla undir þann viðauka, hafa að geyma tilvísanir til aðildarríkja Sambandsins skal litið svo á að tilvísanirnar, að því er þennan samning varðar, vísi einnig til Íslands.
    2.     Breyta má 1. viðauka við þennan samning með ákvörðun nefndar um sam­eigin­legar efndir sem komið er á fót með 6. gr. þessa samnings.
    3.     Nefndin um sam­eigin­legar efndir getur kveðið nánar á um tæknilegt fyrirkomulag varðandi beitingu þeirra réttargerða, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við þennan samning, að því er varðar Ísland.
    4.     Ef breytingar á 1. viðauka við þennan samning kalla á breytingar á almennri löggjöf Íslands skal við gildistöku slíkra breytinga hafa hliðsjón af þeim tíma sem Ísland þarf til að samþykkja breytingarnar og þörfinni á að tryggja samræmi við kröfurnar í Kyoto-bókuninni og ákvörðunum.
    5.     Það er sérstaklega brýnt að framkvæmdastjórnin fylgi venjulegri hefð og hafi samráð við sérfræðinga, þ.m.t. við sérfræðinga á Íslandi, áður en framseldar gerðir, sem felldar eru eða felldar verða undir 1. viðauka við þennan samning, verða samþykktar.

1. VIÐAUKI
(Skrá sem kveðið er á um í 4. gr.)

    1.     Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsaloftteg­unda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB (sem vísað er til sem „reglugerð 525/2013“), nema 4. gr., f-liður 7. gr., 15.–20. gr. og 22. gr. Ákvæði 21. gr. gilda eftir því sem við á.
    2.     Gildandi og síðari framseldar gerðir og framkvæmdargerðir sem byggjast á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.